29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1926

Björn Kristjánsson:

Jeg vil hjer fyrst minnast á brtt. á þskj. 400, sem jeg stend að ásamt tveim öðrum hv. þm. Fer hún fram á að lækka styrk til dr. Helga Pjeturss niður í 4000 kr., en jafnframt njóti hann dýrtíðaruppbótar. Að vísu hækkar þetta styrkinn nokkuð í bili, en jeg hygg, að flestir sjeu sammála um, að ekki megi láta mann þennan fara á gaddinn. Hefi jeg áður flutt till. um að gera vel við mann þennan, og vona jeg, að hv. deild bregðist vel við brtt. þessari.

Enda þótt jeg sje ekki vanur að lengja umr. um fjárlög, vildi jeg þó minnast lítið eitt á fleiri brtt. Kem jeg þá fyrst að brtt. um hækkun á bifreiðastyrknum. Jeg hefi jafnan vænst þess, að þingið veitti þennan styrk ríflegar en gert hefir verið. Hlutaðeigandi sýslur eru hafnlausar með öllu nema á sumrin. Mjer fyndist því ekki of langt gengið, þó farið væri fram á 10 þús. kr. styrk í þessu skyni, í stað 4000 kr., sem hjer er farið fram á.

Það, sem einkum kom mjer til að standa hjer upp, eru þó 2 breytingartillögur, sem varða kjördæmi mitt. Fyrri till. fer fram á styrk til læknisvitjana í Kjósarsýslu. Eins og kunnugt er, var Kjósarsýsla sjerstakt læknishjerað, uns síðasta skipun var gerð á embættum lækna, er læknirinn var fluttur til Hafnarfjarðar. Þetta kom mönnum á óvart, eins og reyndar fleira frá Alþingi, og leið ekki á löngu áður en sífeldar kvartanir fóru að berast til þingsins yfir breytingu þessari. Varð það til þess, að þingið veitti í fjárlögum 300 kr. styrk til læknisvitjana í hjeraði þessu, og get jeg verið þakklátur fyrir það.

Undanfarin ár hafa hreppar. Kjósarsýslu orðið að ganga á milli læknanna í Reykjavík og oft gengið erfiðlega að fá nokkurn þeirra til hjálpar, þar sem engum þeirra ber skylda til þess. Hjeraðslæknirinn í Reykjavík hefir neitað öllum slíkum vitjunum vegna þess, að hann sæi sjer ekki fært að verða við þeim.

Auk þessara örðugleika á að ná í lækni hafa hreppar þessir orðið að greiða miklu hærra gjald fyrir læknisvitjanir heldur en þeir hreppar, sem eiga við hagstæðari kjör að búa í þessu efni.

Það má telja víst, að mörg mannslíf hafi tapast vegna þessa fyrirkomulags. T. d. má fullyrða, að tveir bændur þar dóu vegna þess, að ekki náðist í lækni í tæka tíð.

Háttv. frsm. (JóhJóh) sagði, að víðar væru örðugleikar á að ná í lækni en í Kjósarsýslu, og nefndi þar til útkjálkahjeruð, svo sem Hornstrandir. Jeg hefði alls ekki á móti því, að slíkum hjeruðum yrði veittur samskonar styrkur, en þá hygg jeg, að óvíða sje ástandið eins ilt í þessu efni sem í Kjósarsýslu, þar sem hún nær aldrei í lækni sinn. Hann kemst ekki út fyrir Hafnarfjörð og kemur því ekki annarsstaðar að notum í umdæmi sínu. (JóhJóh: Oft sjest hann hjer í Reykjavík). Jeg segi honum þetta ekki til áfellingar, því að læknirinn er ágætismaður og góður læknir, en þó verður að segja sannleikann um þetta atriði.

Hv. Nd. hefir fallist á að veita 2000 kr. til þess að fá ákveðinn lækni hjer í Reykjavík til að gegna læknisstörfum í Kjósarsýslu. Hv. fjvn. hefir nú lagt til að lækka þessa upphæð niður í 1500 kr. Mjer finst, að hjer gæti of mikillar sparsemi hjá háttv. fjvn., og mun ókunnugleiki valda þar um. Vildi jeg æskja, að háttv. deild vildi láta þessa upphæð standa eins og háttv. Nd. gekk frá henni, eftir að hafa heyrt ástæður þær, er jeg hefi nú fram flutt.

Þá vík jeg að öðrum lið, sem hv. fjvn. hefir einnig viljað færa niður, styrknum til Grindavíkur. Eins og mönnum er kunnugt, þá varð þorp þetta fyrir miklu tjóni af sjógangi 21. janúar þ. á., sem var svo mikill, að sagan þekkir varla dæmi til annars eins. Hefir dugnaðarmaðurinn Einar G. Einarsson gengist fyrir því að fá tjónið metið af verkfræðingi. Benedikt Jónasson verkfræðingur fór þangað suður að athuga skemdirnar, og taldist honum, að skaðinn næmi 105 þús. kr., auk skemda á innanstokksmunum og öðru slíku.

Háttv. frsm. (JóhJóh) sagði, að ekki væri venja að veita slíka styrki. Má vera, að svo sje; en á þetta mál má ekki líta eingöngu frá almennu viðskiftasjónarmiði. Að vísu skal jeg játa, að ekki er venja, að þingið leggi meira en einn þriðja hluta til bryggjugerða eða ræktunar. En hjer verður að líta svo á, að beint slys hafi orðið, eins og t. d. af eldgosi. Eigendur eigna þeirra, er fyrir skemdum hafa orðið, eru alls ekki færir um að leggja fram 2/3 til að bæta úr skaðanum. Má ef til vill segja, að ein ekkja (í Kotvogi) sje sæmilega stæð, en þó ekki betur en svo, að hún rjett bjargast á eigin efnum. Hr. Einar G. Einarsson hefir spurt ekkju þessa, hvort hún treysti sjer til að leggja nokkuð af mörkum, og hefir hún kveðið nei við því. Jarðirnar eru vitanlega óveðhæfar, þar sem sjórinn getur flætt yfir þær hvenær sem er, og eru eigendurnir þar með útilokaðir frá lánum út á þær til framkvæmda. Þó er vitanlegt, að þessi bygðarlög eru ein af mestu tekjulindum ríkissjóðs, ein tekjumestu hjeruð landsins, að Hafnarfirði meðtöldum.

Fyrir Kjósarsýslu berum við þingmenn hennar líka aðeins eina fjárveitingartill. fram. þessar 1200 kr., því meira er það ekki í rauninni, þótt 1500 kr. standi á pappírnum.

Jeg treysti því, að er hv. fjvn. hefir nú heyrt þessar skýringar mínar, muni hún bráðna og treysta sjer til að styðja þessar till.

En svo var það Hvalfjarðarbáturinn, sem jeg vildi minnast á. Á þskj. 374 er gert ráð fyrir, að Hvalfjarðarbáturinn fái 700 kr. styrk. Það er þakkarvert, að hið háa Alþingi vill styrkja samgöngur um Hvalfjörð, enda hafa margir hreppar not af þeim flutningum, bæði Kjósarhreppur, Hvalfjarðarströnd, Svínadalur o. fl. þar fyrir vestan. Allir þessir hreppar nota bátinn til þess að flytja alt mögulegt. en gallinn er sá, að báturinn verður að hafa afgreiðslustöð hjer í Reykjavík, og þess vegna er þessi styrkur of lágur. Í ár fær báturinn 1000 kr. Nú vil jeg aðeins drepa á það, að það er ósk mín til hæstv. stjórnar, að þessi bátur fái áfram 1000 kr., að af 4000 kr. upphæðinni, sem ætluð er til þess að bæta upp þeim bátum, er styrkurinn reynist of lítill til, verði tekin sú upphæð, er hjer vantar á.

Jeg hefi ekki verið mjög margorður, enda ekki vanur því. Við atkvgr. mun jeg sýna afstöðu mína til einstakra till. Um þær till., sem aðrir mæla fyrir, sje jeg ekki ástæðu til að ræða. Og eins og jeg tók fram, hefir hv. þm. Vestm. (JJós) talað fyrir þeim till., sem jeg stend á ásamt honum. Sleppi jeg þess vegna að tala um þær.