29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Það eru aðeins nokkrar smáathugasemdir, sem jeg ætla að gera við þessa umr. fjárlaganna. Jeg held, að fáar brtt. hafi komið fram, sem skoðast geti snerta mitt embætti. Hv. fjvn. hefir lagt til, að breytt yrði nokkuð um styrk til læknahalds á tveim stöðum, í Olafsfirði og í Kjósinni. Mjer finst nefndin hafa misjafnað nokkuð milli þessara tveggja staða. Jeg er ekki alveg viss um, í hvorum staðnum þörfin er meiri. Það má heita svo, að Kjósarbúar sjeu nú alveg læknislausir. Því er að vísu borið við, að Hafnarfjarðarlæknirinn, sem nú er, eigi erfitt um ferðalög, en það sje aðeins um stundarsakir. En jeg er hræddur um, að hvaða læknir sem væri í Hafnarfirði, yrði hann ekki Kjósarbúum að fullu gagni. Þeir mundu altaf verða að leita fremur til Reykjavíkur. Munurinn er að vísu ekki mikill á vegalengd, en leiðin til Hafnarfjarðar úr Kjósinni liggur altaf um Reykjavík. Jeg tel rjettast, að látin verði standa sú upphæð, sem hv. Nd. samþykti. Annars geri jeg ráð fyrir að fylgja yfirleitt till. hv. fjvn. um fjárlögin. Jeg hygg, að það verði ekki nema 2–3 af brtt. nefndarinnar, sem jeg get ekki fylgt.

Jeg er þakklátur hv. nefnd fyrir að taka upp styrk til þess að gefa út kenslubækur í sögu. Hann hefði mátt vera ríflegri, en við þetta má þó hlíta.

Jeg tel líka þarflegt að taka upp fjárveitingu til þess að byggja barnaskóla, sem hv. frsm. (JóhJóh) talaði um.

Um styrkinn til skálda og listamanna fellst jeg á það fyrirkomulag, sem lagt er til, og tel rjett, sem gert hefir verið, að setja Guðmund Friðjónsson í 18. gr. Hv. 1. landsk. (SE) talaði um, hvort stjórnin vildi ekki koma með till. um, að nefnd skifti styrknum, eins og áður var. Mjer finst ekki skifta miklu máli, hvor leiðin er farin. Hvorttveggja hefir verið reynt og ætíð orðið vart nokkurrar óánægju. Jeg býst við, að í þessu efni takist engum að gera svo, að öllum líki. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin leiti álits þeirra manna, sem best vit hafa á þessum málum, og fari eftir tillögum þeirra. Það væri að vísu þægilegt fyrir stjórnina að losna við þennan vanda, en jeg legg alveg á vald háttv. deildar, hvor leiðin verður farin.

Jeg er samþykkur því, að keypt verði grasasafn Helga Jónssonar. Safnið er dýrmætt og alveg sjálfsagt að sleppa því ekki. Jeg held, að ekki sjeu aðrar till. frá hv. nefnd, sem jeg sje sjerstaka ástæðu til þess að minnast á.

Jeg vil skjóta því til hv. nefndar, þó ekki komi mjer það beinlínis við, hvort ekki væri vegur fyrir hana að athuga til 3. umr. brtt. um lendingarbætur í Grindavík. Það er ekki einungis, að veita þurfi styrk til þess að bæta lendinguna, heldur og til að hjálpa þeim, sem urðu fyrir skaða þar syðra. Þeir munu varla svo efnum búnir, að þeir hafi ráð á að leggja til 2/3 kostnaðar.

Jeg skal ekki tala mikið um till. einstakra þingmanna. Að því er snertir till. II á þskj. 400, þá vildi jeg greiða atkvæði með því, að veittar væru 4000 kr. til iðnnáms eða verklegs náms erlendis, líkt eins og áður var siður; en eins og till. er orðuð, get jeg ekki greitt henni atkv.

Jeg get ekki verið með því, að veittur verði styrkur sá, sem farið er fram á til þess að rannsaka vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Mjer finst, að ætlast verði til, að kaupstaðurinn sjálfur kosti rannsóknina. Hitt væri kannske ekki ósanngjarnt, ef rannsókn leiddi í ljós, að vatnsveita væri möguleg, að ríkið legði þá eitthvað til verksins. En að leggja fram 2/3 kostnaðar til rannsóknar, þar sem vel stæður kaupstaður á í hlut, tel jeg varla gerlegt. Hjer er að minsta kosti farið fram á of mikið. Jeg get fremur verið með því, að fje sje lánað þangað til sýslumannsbústaðar, og mun greiða atkvæði með þeirri tillögu.