22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2999 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

50. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg vildi ekki gjarnan lengja mikið umr., en get ekki alveg komist hjá því að svara nokkrum hv. þm.

Fyrst er þess að geta, að komið hefir fram brtt., sem hæstv. fjrh. (JÞ) gat um, og fer fram á það að fresta niðurlagning tóbakseinkasölunnar um eitt ár. Að vísu hefir meiri hl. ekki fengið tíma til að bera sig saman um þetta, en jeg þykist þess fullvís, að jeg geti fyrir hans hönd lýst því yfir, að hann leggur eindregið á móti því, að þessi till. verði samþykt. Meiri hl. lítur svo á, að þessi einkasala sje, þegar á alt er litið, óhagstæð ríkinu í heild. Þess vegna leggur hann til, að hún sje lögð niður, og þá leiðir það af sjálfu sjer, að hann getur ekki mælt með því, að hún sje látin standa árinu lengur.

Háttv. flm. tóku það fram þessari brtt. helst til stuðnings, að með þessu móti yrði hægara að gera upp verslunina. En jeg sje ekki, að það verði neitt hægara, þótt einn ársrekstur sje tekinn með í viðbót. Það er ekki gert ráð fyrir öðru en að birgðirnar verði svipaðar eftir sem áður, þótt einu ári sje bætt við. Það eina, sem breytist ef till. verður samþykt, er því það, að í stað þess að verslunin verður nú þegar að búa sig undir að gera upp, þá getur hún dregið það í eitt ár.

Þá vil jeg víkja örfáum orðum að þeim hv. þm., sem talað hafa síðan jeg talaði síðast.

Við það, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, þarf jeg lítið að athuga. Hann endaði ræðu sína að jeg ætla með því að slá því föstu, að enginn drægi í efa, að verslunin hefði verið rekin ráðvandlega og vel. Jeg get tekið undir þetta, enda hefir enginn af þeim, sem talað hafa á móti einkasölunni, vikið að því einu orði, að hún hafi ekki verið rekin vel og ráðvandlega. Því hefir verið haldið alveg fyrir utan umr. Eina orðið, sem fallið hefir í þá átt, að reksturinn væri ekki fullkominn, fjell frá hv. frsm. minni hl. (KlJ), því hann gerði ráð fyrir, að spara mætti meira við reksturinn en gert væri.

Háttv. samþm. minn, 2. þm. Reykv. (JBald), mótmælti því, sem jeg sagði um gengisgróðann, á þeim grundvelli, að lítill munur hefði verið á genginu í byrjun og enda ársins. Jeg vil aðeins benda honum á það, að í sjálfum rekstrarreikningi verslunarinnar er gróðinn sakir gengismismunar talinn því sem næst 68 þús. kr., og þessi gengismunur er í rauninni tvöfaldur, ef ekki meira. Þá hafði hv. þm. (JBald) yfir goðsvar, sem gefið hafði verið í bæjarstjórn Reykjavíkur um það, að dýrtíðin hjer í bæ stafaði af frjálsri verslun. Vitleysan, hvar sem hún er sögð, verður aldrei annað en vitleysa; hún verður aldrei goðsvar; ekki þessi fremur en önnur. Jeg þarf ekki að svara honum öðru, svo jeg tefji ekki tímann, en vil þó aðeins minna á, að jeg veit ekki betur en að starfað hafi kaupfjelag hjer í bænum, sem hefir lýst því yfir, að það hafi tapað 200 þús. kr. á því að halda sama verðlagi og kaupmennirnir. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (JBald) kærir sig um meiri samkepni, en jeg býst við, að kaupfjelaginu hafi þótt hún nóg, Og hvernig má það vera, að þessi samkepni hinnar frjálsu verslunar haldi uppi dýrtíðinni?

Háttv. 2. þm. Árn, (JörB) fór þær götur, sem jeg var hissa á að sjá hann skeiðríða. Hann talaði um, að vonirnar hefðu ræst einkarvel. En til grundvallar útreikningi sínum lagði hann það, sem ekkert kom málinu við. Hann tók fyrst áætlunarupphæð stjórnarinnar um tekjur af tóbaks- og víneinkasölu 1921, þegar algert vínbann var í landinu. Og til samanburðar tók hann svo tekjur af vín- og tóbakssölu eftir að þingið hafði neyðst til að leyfa innflutning í svo og svo miklum vínum. Þessi tekjuáætlun 1921 kemur auðvitað ekkert málinu við, því að þá var ekki búist við neinum tekjum af vínum, heldur ætlaðist þingið til að víneinkasalan væri þá rekin ágóðalaust, þar sem aðeins væri um vín til lyfja að ræða.

Þá talaði hv. þm. (JörB) um, að andstæðingar einkasölunnar hefðu altaf gert lítið úr gróðavoninni, einkum samt í byrjun, og talið fráleitt, að hagnaðurinn yrði meiri en 100 þús. kr. Það mun rjett, að slík ummæli megi finna frá þeim tíma, og þau voru bygð á því, að menn ætluðu ekki að verðið yrði hærra en það var. Jeg andmælti lögunum þegar 1921 og gerði líka lítið úr gróðanum, vel að merkja, ef farið væri skaplega í það að leggja á vöruna. Hitt dylst auðvitað engum, að þessa vöru sem aðra má selja slíku okurverði, að stórgróði verði af.

Hv. þm. (JörB) gerði ekki mikið úr því, að góðæri síðasta árs myndi hafa sýnt hámark velgengni þessa fyrirtækis. En góðærið hefir tvær hliðar, nefnilega líka þá, að verðlag vörunnar fer sílækkandi, og hjer hefir aðaláherslan verið lögð á þessa hlið málsins.

Samanburðinum á tóbaksverði fyr síðar hefir hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) mótmælt. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) kvað tóbak hafa fyr verið selt á 25—50 kr. pundið. Jeg gef mótmælt þessu sem rakalausu. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (JörB) notar tóbak, en jeg hefi brúkað það öll þessi ár, og get fullyrt, að jeg hefi aldrei gefið nema í allra mesta lagi 15 kr. fyrir pundið. En jeg man eftir, að jeg heyrði þess getið 1921, að tóbakspund væri selt á 25—50 kr. En sje það rjett, þá hefir það aðeins verið einsdæmi um einn einstakan ósvífinn okrara, og kemur ekkert málinu við. Jafnvel undir einkasölufyrirkomulaginu gæti slíkt komið fyrir, þar sem menn ættu erfitt með að ná til einkasölunnar.

Þá voru kenningar hv. þm. (JörB) um smyglunarhættuna mjög furðulegar. Það er nú vitanlegt, að í hendur kaupmanna verður verðið á tóbaki lægra í frjálsri verslun en með einkasölunni. En við að verðið lækkar álítur þó hv. þm. (JörB) að smyglunarhættan hljóti að aukast, einungis af því að nokkur hluti af verðinu er kallaður tollur en ekki einkasöluálagning. Þetta tollheiti felur í sjer alla smyglunarhættnna að hans dómi. Jeg skil ekki þennan þankagang. Hitt skil jeg, að eftir því sem verðið hækkar, vex smyglunarhættan, en eftir því sem það lækkar, minkar hún.

Þá kem jeg að háttv. frsm. minni hl. (KlJ). Viðvíkjandi útreikningnum vil jeg segja það, að jeg hjelt mjer bara við árið 1924, og mismunurinn kom fram við það, að jeg dró það frá, sem ekki er rjett að telja með föstum tekjum landsverslunarinnar. Hv. frsm. minni hl. vjefengdi, að rjett væri að draga varasjóðinn frá, en í hinu orðinu sagði hann, að alls óvíst væri, að það, sem lagt hefði verið í varasjóð, kæmi ríkissjóði nokkurntíma til góða.

En að segja þetta staðfestir einmitt, að ekki er hægt að telja varasjóðinn með föstum tekjum. Að öðru leyti vil jeg vekja athygli á því, að allir gera ráð fyrir, að ísl. króna hækki. Þá hlýtur verðlag alt að lækka, á tóbaki eins og öðru. Af því leiðir að tekjur ríkissjóðs af versluninni hljóta að lækka. Ef viss hundraðshluti er lagður á verðið. hlýtur það, sem lagt er á, að verða því minna, sem nemur því, sem það er minna, sem á er lagt. Þess vegna er alveg víst, að tolltekjurnar af tóbakinu verða meiri en ágóði verslunarinnar getur orðið. Og er þá líka sýnt, að þessi breyting, sem hjer er farið fram á, leiðir til tekjuauka fyrir ríkissjóð, en ekki til tekjurýrnunar. Hinsvegar er líka hjer til að svara, að ef verðlag kemst aftur í svipað horf yfirleitt og áður var samfara gengisbreyting, þá er óhjákvæmilegt að lækka tollinn.

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) sagði að jeg hefði viljað stimpla hann sem jafnaðarmann. Þau orð fjellu ekki hjá mjer, en hinsvegar þýðir ekki að leyna því, að hann hneigist í sömu átt og jafnaðarmenn að því leyti, sem hann telur, að einkasalan sje æskileg, en þó er sú skoðun hans heldur ekki rótföst. En þó hv. þm. (MT) sje jafnaðarmönnum sammála um þetta, þá þarf hann ekki að fylgja þeim í öllu. Og jeg er alveg samdóma honum um það, að ekki þýði að tala um allsherjarríkisrekstur nema siðferðisþroski borgaranna aukist að mun frá því, sem nú er.

Háttv. þm. (MT) sagði, að framtalið til tekjuskatts væri ekki svo nákvæmt, að gengissróði kaupmanna kæmi fram. Jeg skal ekki um það segja, hvort framtalið sje alment eins nákvæmt og ætlast er til, en fullyrði hinsvegar, að framtalið hljóti að hækka í líku hlutfalli og gróðinn.

Annars legg jeg ekki mest upp úr því, að gróðinn af versluninni renni til kaupmannanna, heldur álít jeg, að frjáls verslun sje almenningi yfirleitt miklu heppilegri og farsælli en einkasala. Og þó einstaka menn sjeu sjálfum sjer svo ósamkvæmir að fylgja tóbakseinkasölunni, þó þeir sjeu mótfallnir einkasölu yfirleitt. Þá hefi jeg aldrei gert mig sekan í slíku skoðanaósamræmi. Annars mun ekki erfitt að færa sterkar líkur fyrir því, að þau rök, sem fylgjendur einkasölunnar bera fyrir sínu máli, sjeu mestmegnis ómerkilegar aukaástæður. En því skil jeg betur afstöðu þeirra, sem móti einkasölunni eru, að hún er frá mínu sjónarmiði eðlilegri en hinna, og þeirra röksemdir allar fastari.

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) talaði um tóbaksiðnað sem vetrariðju fyrir fólk í Reykjavík, en jeg verð að segja, að jeg hefi litla trú á slíku. Að minsta kosti mundi samkepnin við erlendan tilbúning verða mjög erfið, þar sem hjer yrði ekki hægt að reka tóbaksiðnaðinn nema í mjög smáum stíl, og öll þekking og tæki til slíks miklu betri og fullkomnari erlendis. Yrði það víst engin uppgripaatvinna, ef varan ætti að vera samkepnisfær Við samskonar vörur útlendar.