22.04.1925
Neðri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

50. mál, tollalög

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar jeg talaði síðast, þá gerði jeg ekki ráð fyrir að þurfa að taka aftur til máls. En af því hv. frsm. meiri hl. (JakM) hefir vikið að því, sem jeg sagði, og fært úr lagi athugasemd mína. Þá neyðist jeg til að leiðrjetta helstu missagnir hans.

Hann hjelt því fram, að tölurnar, sem jeg kom með í ræðu minni, hefðu ekki átt við, þegar um ágóðann af versluninni hefði verið að ræða. En honum hefir gleymst, hvernig þetta mál var lagt fyrir þingið 1921, og hvernig um það var rætt þá. Fyrsta árið, sem verslunin starfaði, námu tekjurnar ekki því, sem þær höfðu verið áætlaðar af stjórninni, og kem jeg síðar að því. Annað árið stóðst þessi áætlun, og þriðja árið urðu þær 350 þús. kr., eða 150 þús. kr. meiri en þær voru áætlaðar, og auk þess voru 35 þús. kr. lagðar í varasjóð. Gengishagnaðinum er hjer slept. Ef hv. þm. hafa orðið fyrir vonbrigðum með tilliti til tekna af versluninni og finnist þeim ekki sem áætlunin hafi staðist, þá væri víst frekar ástæða til að líta til vínverslunarinnar en til tóbakseinkasölunnar. Þó á nú að leggja tóbakseinkasöluna niður, en ekki vínverslunina. En tekjur af báðum þessum liðum samanlagt hafa farið langt fram úr áætlun. T. d. námu tekjur af tóbakseinkasölu og vínfangatolli árið 1923 alls 857 þús. kr., og árið 1924 1400000 kr. Má vera, að hin breytta aðstaða með Spánarvínunum hafi valdið hjer nokkru.

Þá vil jeg minna hv. þm. (JakM) á nokkur orð, sem hann sagði á þinginu 1921, er mál þetta var til umræðu. Hann kvað verð á tóbaki hjá landsversluninni aldrei geta orðið lægra en hjá kaupmönnum, og að ágóðinn, sem kaupmenn hafi, fari í kostnað við verslunarreksturinn, og þannig verði ágóðinn af versluninni viðbótarálagning á tóbakið. En hver hefir reyndin orðið? Jeg held, að allir menn sjeu sammála um það, að tóbaksverðið hjá landsverslun sje síst hærra en það hefði orðið hjá kaupmönnum. Því er ágóðinn af versluninni beinn ávinningur fyrir ríkið. Þetta mætti sanna með tölum, ef rök mættu sín nokkurs í augum andstæðinga verslunarinnar.

Þá vil jeg víkja að hæstv. fjrh. (JÞ). Hann kvað innflutning tóbaks 1926 mundu verða svo mikinn, að tekjurnar af tóbakinu, sem nú fást, myndu vinnast með tollinum. Það má vel vera að þetta sje rjett.

En hitt er jeg viss um, að 1927 verður innflutningurinn miklu minni, og eins árin á eftir, þegar birgðir hafa safnast fyrir í landinu. Það sýndi sig, að þegar landsverslunin tók til starfa 1922, þá lágu kaupmenn um land alt með miklar birgðir af tóbaki, líklega fyrir talsvert á aðra milj. kr. Á sama hátt má vænta þess nú, að á næstunni flytjist talsvert inn af tóbaksvarningi, sem ekki selst, en sem tollur verður greiddur af, því kaupmenn vita ekkert, hvað þörfum landsmanna líður, en það veit landsverslunin og hagar innkaupum sínum eftir því. Þannig liggja nú aðeins fyrir hjá henni tóbaksbirgðir upp á 300 þús. kr. Annars þýðir víst ekki að fjölyrða um þetta. Málið er nú komið á þann rekspöl, að útsjeð er, hvað um það verður. Hjer kemur staðhæfing móti hverri röksemd, og má segja um það hið sama og kerlingarnar sögðu: Klipt er það! Skorið er það!