28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

50. mál, tollalög

Jónas Jónsson:

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir sýnt lit á að verja sitt mál. Og hann á því betri aðstöðu en samherjar hans, að hann er í þessu sjálfum sjer samkvæmur. En þetta er engin afsökun fyrir hina.

Hann gaf það í skyn, að bæði hann og fleiri ættu bágt með að hlusta á ræður mínar. Af fundum þeim, er jeg hefi haldið víðsvegar um land, hefi jeg fengið allskostar ólíkar yfirlýsingar, En sje þar nokkur hæfa í, að hann eigi bágt með það, þá kenni hann ófullkomleika mínum en ekki þeim sterka málstað, sem jeg styð. Hæstv. ráðh. (JÞ) sagði rangt frá ofurlitlu atviki síðan í fyrra. Nd. hafði í fyrra samþykt frv. um hækkun verðs á áfengi. En það kom fram í þessari deild, að þetta þótti stuðningmönnum hæstv. ráðh. svo slæmt, að þeir vildu ekki vinna til að fá ágóðann af hækkuninni, ef leggja átti niður um leið fáein óþörf embætti. Það er ekki Framsóknarflokkurinn. sem er forseti þessarar deildar, og hann hafði því ekki áhrif á afgreiðslu málsins.

En forseti sleit fundi þegar frv. kom. Það er að hengja bakara fyrir smið, að kenna Framsókn um það, að málið gat ekki komið á dagskrá aftur hjer í deildinni eftir eina umr. í Nd. Það voru einnig samherjar hæstv. ráðh. (JÞ), sem breyttu frv., þótt þeir vissu, að Nd. var að hætta störfum. Sökin skellur á baki þeirra, sem breytinguna gerðu í þessari deild.