28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

50. mál, tollalög

Guðmundur Ólafsson:

Þótt hæstv. fjrh. hafi talað tvisvar, hefi jeg engin rök heyrt. Hann sagði, að þetta væri ekkert fjárhagsatriði. En það þyrftum við helst að vita tryggilega, hvort ríkissjóður tapi engum tekjum við breytinguna. Það sem kom mjer til þess að vera með einkasölunni, var það að jeg bjóst við að hún yrði til tekjuauka og sú skoðun mín hefir reynst rjett og einnig það að tóbakið hefir ekki orðið neytendum dýrara.

Af því jeg skildi hann svo, að rök hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefðu þegar verið hrakin í Nd., finst mjer jeg verða að taka það fram, að við eigum líka heimting á rökum í þessari deild. Jeg heyrði samt dálítið af þessum rökum. Fyrri daginn sagði hæstv. ráðh., að það vantaði 70 þús. kr. til þess að tollhækkunin væri nægilega há, en síðari daginn skifti það engu máli. Svo fór hæstv. fjrh. (JÞ) að tala um fjölda mála á dagskrá og að ekki mætti lengja umræðurnar, en jeg er nú þannig gerður, að jeg get ekki tekið vel áminningum um að hraða öllu af í þinglokin, þegar mjer virðist mikið í húfi. Það á víst að verða nú eins og oft áður. þegar þing er búið að standa lengi, þá er ekki tími til að rannsaka neitt — aðeins þegja samþykkja.