07.05.1925
Efri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er dálítið merkilegt, að við þessa umr. hefir enginn af hæstv. ráðh. verið viðstaddur, og stendur þó svo á, að tveir þeirra mega heita feður einkasölunnar, en sá þriðji er fjármálaráðherra landsins, sem mestu tapar við það, að frv. nái fram að ganga. Jeg hefi ekki orðið var við, að hv. frsm. meiri hl. (JJós) hafi minst á upphaf málsins, sem sje að það eru núverandi yfirmenn hans í þeim flokki, sem hann fylgir, sem hafa komið á þessum ófögnuði, er hann telur einkasöluna vera. Það hefði verið sanngjarnara, ef háttv. frsm. hefði frekar talað um þá, sem hafa leitt asnann í herbúðirnar, og stilt svo til, að hin þungvægu rök hans hrinu á höfuð þeirra; en það er eins og samkomulag, að hv. frsm. hlífi yfirboðurum sínum, enda hafa þeir álitið heppilegra að vera ekki viðstaddir, til þess að sá sannfæringareldur, sem logar á þessum arni, næði ekki til þeirra.

Fyrst ætla jeg að minna hv. frsm. meiri hl. á það og skjóta því til hæstv. forseta, hvort viðeigandi sje að nota uppnefni um þetta frv. Það er alveg eins og jeg væri að tala um einhvern kaupmann í Vestmannaeyjum og kallaði hann „kaupsa“. Þessu gerði hv. frsm. meiri hl. sig sekan í, er hann notaði orðið „einokun“ í stað „einkasölu“, sem sjálfur hæstv. atvrh. (MG) hefir komið á. Jeg óska eftir því á sínum tíma að fá að heyra frá hæstv. forseta, hvort leyfilegt sje að nota slíkt uppnefni, og frá hv. frsm. meiri hl., að hvaða leyti hann telur sjer ávinning í þessu. Það virðist heldur ekki nema sjálfsögð kurteisisskylda gagnvart hæstv. atvrh., að hv. frsm. noti þann stimpil, sem hann hefir sjálfur sett á málið 1921.

Áður en jeg vík að ræðu háttv. frsm. meiri hl., ætla jeg að minnast á nokkur atriði honum til hægðarauka í næstu ræðu sinni úr álitsskjali minni hlutans. Þetta frv. er líklega lögleysa að forminu til, þar sem talað hefir verið um tolllagabreyting, en svo er þetta beinlínis niðurlagning stofnunar, sem stofnuð er með sjerstökum lögum. Þetta á ekki sinn líka í allri okkar löggjöf og sögu. Það er varla hægt að skilja þetta öðruvísi en að flm. frv. hafi viljað leyna því, sem þeir voru að gera, alveg eins og þegar drykkjumaðurinn kallar vínið tár, til þess að breiða yfir, að það er eitur. Sama samviskubitið kemur fram hjá hv. flm. frv., eins og líka sjest á því, að faðir þess treystir sjer ekki til þess að vera viðstaddur meðferð málsins hjer í hv. deild.

Þá höfum við leitt skýr rök að því, að þegar gera á grein fyrir starfi landsverslunarinnar hvað tóbakssöluna snertir, er ekki hægt að miða við annað ár en þegar ekki eru aðrar birgðir fyrirliggjandi en þær, sem fluttar hafa verið inn til einkasölunnar sjálfrar. Mjer þykir leiðinlegt um svo vel viti borinn mann og hv. þm. Vestm. (JJós) er að hann skuli gera sig sekan í þeirri fjarstæðu að telja það óviðkomandi málinu, að til voru miklar birgðir af tóbaki, þegar einkasalan komst á. Hæstv. atvrh. vissi þetta fyrir, þar sem hann gerði ráð fyrir, að árið 1921 yrðu minni tekjur af einkasölunni fyrst en síðast, því að búið var að borga toll af miklum birgðum, sem varð að selja. 1919 og 1920 er flutt inn óhemjumikið tóbak, meira en dæmi eru til nokkru sinni áður í sögu landsins. Það var reyndar ekki eingöngu tóbak, heldur margar aðrar vörur, en í landinu var til tóbak fyrir hátt á aðra miljón króna, sem varð að selja, og var að mestu leyti selt af kaupmönnum sjálfum. Næstu tvö árin var innflutningur því lítill. Það er því aðeins um tvent að ræða: Annaðhvort hefir verið smyglað inn óhemjumiklu af tóbaki, líklega af kaupmönnum, þessi 2 kreppuár, 1921 og 1922, eða gömlu birgðirnar hafa setið fyrir.

Nú veit hv. þm. (JJós) það, að það var yfirmaður hans og ráðherra hans flokks, sem bjó til þessi lög og kom þeim í framkvæmd og tók af kaupmönnum innflutninginn á þessum vörum 1921. Að innflutningurinn minkaði á næstu árunum, 1922 og ’23, kemur af því, að þá var yfirleitt minna keypt af öllu en á góðu árunum. Hv. þm. ætti því að snúa sjer næst til hæstv. atvrh. og tala til hans um ástæðurnar fyrir því, að þetta var gert.

Fyrsta árið urðu tekjur einkasölunnar talsvert undir því, sem áætlað hafði verið í fjárlögunum, en næsta ár náðu tekjurnar áætlun, sem þó var hærri en árið áður, og þriðja árið fóru tekjur einkasölunnar langt fram úr því, sem sjálfur faðir hennar hafði frekast dirfst að vonast eftir. Enda sagði faðir einkasölunnar í hv, Nd., er hann lifði þá stóra stund að láta drepa þau lög, er hann hafði barist fyrir og verið mikið áhugamál að koma í framkvæmd, — þá játaði hann, að einkasalan hefði á engan hátt brugðist vonum sínum. En flokksmenn hans vildu samt lögin feig, og hann var neyddur til að horfa upp á það og hafast ekki að, er þau voru vegin.

Jeg er samþykkur forsendum hæstv. atvrh. bæði 1921 og nú, en jeg er því undrandi, er hann dregur þessa röngu ályktun af rjettum forsendum, að einkasalan skuli lögð niður, þrátt fyrir það, að hún hefir einskis manns vonum brugðist, og hlýðir hæstv. atvrh. að þessu leyti eingöngu og í blindni bendingum og samþyktum síns flokks, eða aðallega hæstv. fjrh. (JÞ) og hv. þm. Vestm., sem líka játa þetta, en vilja afnema lögin samt. Það er auðvitað tilgangurinn að leggja niður steinolíuverslunina síðar og álykta á sama hátt út frá forsendum hæstv. atvrh., að úr því að þetta fyrirtæki hefir gefist vel, þá skuli það lagt niður.

Jeg hefi sem sagt sannað og sýnt fram á það, að alt tal hv. þm. Vestm. er út í bláinn og að það er ekki hægt að byggja framtíðaráætlanir á neinum öðrum árum en þeim, er allar gamlar birgðir frá kaupmönnum voru uppgengnar, en það var ekki fyr en árið 1924.

Í skýrslu minni hl. er tekið dæmi, sem sýnir, að innflutningur á tóbaki hefir ekki minkað neitt óeðlilega, og ekki meira en t. d. kaffiinnflutningurinn, og svo mætti margt fleira telja. Þá er og enn eitt, sem virðist vera háttv. þm. Vestm. ókunnugt, þ. e., að sá, sem var atvrh. 1921, var líka formaður kaupfjelagsskaparins hjer á landi, og hann gerði alt, sem hann gat, til þess að fá S. Í. S. og einstök kaupfjelög til að beita áhrifum sínum í þá átt, að sem allra minstu væri eytt til þeirra hluta, sem ekki mátti telja bráðnauðsynlega á þeim krepputímum, sem þá fóru í hönd. Þá var næstum hætt við að drekka kaffi eða nota sykur, nema hið allra minsta, sem hægt var, í heilum hjeruðum, jafnvel heilum sýslum. Þetta er alveg einsdæmi, og mun núlifandi kynslóð vart muna annað eins og þetta. Það getur verið, að elstu menn, sem nú eru á lífi, geti að vísu tilfært eitthvað þessu líkt frá árunum fyrir og um 1885, en það breytir þó engu um þetta, og að segja að þetta sje þýðingarlaust fyrir eyðslu almennings á neysluvörum, er hreinn barnaskapur. Þá má því ekki vera ómótmælt, sem hv. meiri hl. segir, að það verði minni gróði á einkasölunni í meðalári en árið sem leið; nei, það, sem um er barist, er þetta: Á að láta ríkissjóð kasta frá sjer um ¼ milj. kr. gróða árlega, eða á ekki að gera það? Í ræðu hv. þm. (JJós) kom það fram. að álagningin á tóbakið væri óeðlilega mikil hjá einkasölu ríkisins. Jeg mun víkja nánar að þessu atriði síðar, en vil nú aðeins benda á það, að í skýrslu okkar eru tvenskonar hagskýrslur um verðlag á tóbaki, 1) eins og það var hjá smásölum í Reykjavík fyrir 1921, og 2) eins og það er nú. Skýrslan sýnir, að verðið er nú mun lægra en áður. Þá segir hv. þm., að tóbakið hafi fallið í verði erlendis; það getur verið, að það sje eitthvað til í því, eins og á einstaka öðrum vörum; verðið er ekki fast. En hagskýrslurnar sýna, að verðfall á erlendum vörum er ekki ýkjamikið, t. d. á fatnaði. Þar ræður hin frjálsa samkepni verði á þeim vörum, en skýrslurnar sýna, að verðfallið hefir verið mjög lítið. Þetta er sönnun þess, að þrátt fyrir gengisörðugleika o. fl., og þrátt fyrir að tóbakið hefir lítið fallið í verði erlendis, að það er þó ódýrara nú en áður og er lægra hjer en í sumum nágrannalöndum okkar, þar sem frjáls samkepni ræður, t. d. í Danmörku og í Englandi. Einkasalan hjer getur haldið verðinu hjer lægra en það er hjá smásölum erlendis, auk þess sem lagt hefir verið í sjóð til að mæta áhættu.

Þá er það meira en lítil meinloka að trúa þeirri staðhæfing hv. flm. frv., að till. þeirra um merkingu á vörunni komi til leiðar meira og betra tolleftirliti en áður, og muni koma í veg fyrir tollsvik framvegis. Tilgangurinn er að vísu góður, en jeg hefi þegar sýnt rækilega fram á, að það eru afskaplegir örðugleikar á því að koma þessu eftirliti í framkvæmd. Enda hefði jafnreyndum og æfðum verslunarmanni og hv. þm. Vestm. aldrei dottið í hug að setja slíka vitleysu og þetta í frv., sem flm. þess hafa gert, en hann þó verður nú að verja fyrir þá. Hv. flm. frv. ætlast til, að rifnir sjeu upp allir umbúðakassar, jafnvel þeir, sem loftþjettir eiga að vera, taka hvern smápakka fyrir sig og merkja. Hvernig ætli vörurnar reynist eftir þessa meðferð? Ef það ætti t. d. að rífa upp loftheldar umbúðir utan af vörum þessum í vöruskemmu hv. þm. Vestm., hygg jeg, að hann mundi fremur óska eftir, að einkasalan væri komin á aftur, en að eiga á hættu, að meira eða minna af vörum hans yrði eyðilagt af tollþjónunum. Þetta hefir auðvitað verið sett í frv. af ókunnugleika; mennirnar hafa ekki haft hugmynd um, að þetta væri ómögulegt í framkvæmd, nema með því að skemma tóbakið. Þetta er því af litlu viti gert, og ekki er það mikið skynsamlegra að ætla, að þessa vinnu væri hægt að framkvæma með litlum tilkostnaði. En ella hefðu þeir ekki gert sjer von um aukinn gróða af versluninni. Jeg veit, að það mun enginn lögreglustjóri vera til hjer, sem væri svo vitlaus að fara að framkvæma þetta, sem verður auðvitað dauður bókstafur í lögunum, enda færi svo, ef til framkvæmda kæmi, að það meira en æti upp allan ágóða af versluninni, — svo er þetta vitlaust hugsað. En ef þetta verður dauður bókstafur. — hvað er þá um tolleftirlitið? Jeg skal benda hv. þm. Vestm. á, að áður en tóbakseinkasalan komst á. var hjer talsvert um tollsvik; t. d. sannaðist fyrir 12—14 árum síðan á einn kaupmann hjer í bæ, að hann hafði framið stórkostleg tollsvik. Hann fjekk samninga og greiddi þegar 1000 kr. í sekt til þess að sleppa við tugthúsið, en endurgreiddi 10 þús. kr. af tollinum og var það þó ekki nema lítið af því, sem hann stal. Kunnugur maður í stjórnarráðinu sagði við mig einu sinni um þetta mál, að þessi kaupmaður mundi hafa stolið undan helmingi meiri tolli en því nam, sem hann var látinn endurgreiða.

Þegar þetta og annað eins getur átt sjer stað hjer í Reykjavík, svo að segja við nefið á yfirvöldunum, meðan tollurinn var lægri, — hvað mundi þá verða hjer eftir, með hinum geysiháa tolli samkv. frv. ? Eða úti um land? Hvaða tolleftirlit er annars til hjer á landi? Þegar menn sviku tollinn svona gífurlega meðan hann var lágur, — ætli þá enginn geti fallið í freistni nú, er tollurinn er margmargfaldur orðinn? Þessi maður, sem jeg nefndi áðan, mun ekkert einsdæmi vera, og tolleftirlitið í Reykjavík er engu betra nú en það var áður. Tollverðirnir eru svo fáir hjer, að ástandið hjer er alveg ósambærilegt við venjulegt tolleftirlit erlendis. Hjer kveður svo ramt að, að háttsettir embættismenn hafa svikið inn vörur og verið dæmdir í sektir, vegna þess að óvart hefir náðst í ferðatöskur þeirra. Hv. þm. Vestm. er vanur ferðamaður. Ef hann vill bera saman tollskoðunina hjer og erlendis, mun hann fúslega viðurkenna, að þetta er ekki sambærilegt. Jafnvel jeg, sem aldrei nota tóbak, mundi treysta mjer til að svíkja inn tóbak. ef jeg vildi það við hafa. Jeg segi þetta ekki til að lasta tollverðina. Þeir eru góðir menn og vilja gegna sínu starfi vel, en þeir eru alt of fáir hjer í Reykjavík. Hvernig ætli þessu sje t. d. varið í Vestmannaeyjum, með öllum þeim skipakomum og siglingum, sem þar eru? Sýslumaðurinn þar hefir nóg annað að starfa en að vera með nefið niðri í hverjum vöruböggli, sem þar kemur á land. Sumstaðar er ekki einu sinni sýslumönnum til að dreifa; þar eru aðeins hreppstjórar, og þeir hafa einnig nógu öðru að sinna. Það er því aðeins drengskapur manna einn saman, sem verndar ríkið gegn tollsvikum. og mun það duga og hefir dugað víða hjer á landi; en einhlítt er þó ekki að treysta á drengskapinn einan saman. En þessar reglur, sem settar eru í frv. gegn misbrestum á drengskap manna, hefi jeg þegar sýnt fram á, að eru til einskis nýtar af alveg eðlilegum ástæðum, og verður því tóbakið að vera ómerkt og alveg eftirlitslaust. Eftirlit það, sem landsverslunin hefir komið á, verður ekki notað framvegis; þau merki hafa verið sett á umbúðirnar í verksmiðjunum, og hafa hvorki kaupmenn leyfi til að nota þau framvegis nje geta það samkv. eðli málsins. Þau merki, sem frv. ræðir um, eru vottorð um lagalegt eftirlit, framkvæmt af lögreglustjóra á hverjum stað, sem varan er seld á.

Þá er talað um það, að gæði vörunnar sjeu minni síðan einkasalan tók við. Jeg veit ekki um þetta af eigin reynslu. En jeg hefi talað við fróða menn í þessum efnum, sem hafa sagt mjer, að tilbreytni landsverslunarinnar væri óaðfinnanleg, og oft hefir hún pantað vörur aðeins til að fullnægja smekk einstakra manna. Þess vegna held jeg, að þessi mótbára sje ekki þung á metunum.

Að lokum vil jeg víkja að því í ræðu hv. þm. Vestm., er hann vjek að skoðana- og stefnumismun á þinginu 1921 og nú um frjálsa verslun eða einkasölu. Jeg vil t. d. nefna hv. 1. þm. Rang. (EP); hann sat að vísu ekki á því þingi, en hann hafði oft áður í þinginu sagt, og fært góð rök fyrir, sem jeg álít rjett hjá honum, að það gæti vel komið til mála, að ríkið verslaði með ýmsar vörur. Jeg veit að vísu ekki, hvað hann segir um þetta nú. En fyrir nokkrum árum var hann svo mikið riðinn við bolsevisma, að hann vildi þá vissan ríkisrekstur af þessu tægi. Þetta álitu þeir menn sjálfsagt, sem æðinærri hv. frsm. hafa staðið í skoðunum. Jeg skal nefna fræg nöfn, t. d. Hannes Hafstein, sem hóf þessa einokunaröldu. Hann og samherjar hans litu svo á, að frjálst væri að láta landið versla, ef ríkið græddi og borgararnir sættu jafngóðum kjörum.

Og jeg vil skjóta því til hv. 1. þm. Rang. (EP), af því hann á heppilegan hátt hefir hrakið ástæður hv. þm. Vestm. Vil jeg biðja hann liðsinnis til að koma hv. þm. (JJós) í skilning um það, að hann er á villigötum.

Svo að jeg líti nú nánar á stefnumuninn, þá voru allir flokksbræður hv. þm. með þessu 1921. (Fjrh. JÞ: Ekki einn!). Það var allur ráðandi hluti flokksins og þáverandi stjórn, — nema einn, hæstv. núv. fjrh. (JÞ). En jeg gleymdi honum. Það varð svo lítið úr honum við það tækifæri; hann var svo gersamlega hundsaður af flokksbræðrum sínum, að það verður að vera honum skýring á gleymsku minni.

Hvað kemur nú til þess, að þessir menn virðast allir hafa skift um skoðun? Hvað kom þeim inn á þessa hættulegu braut? Voru þeir svona illir og ómentaðir? Og ef þeir hafa aukist að manngildi, hvaðan hefir þeim komið það? Úr því hv. frsm. (JJós) fór að minnast á stefnumun, verður hann að skýra frá þessu, því það, sem einkennir stefnumuninn, er einmitt þetta, snúningur flokksbræðra hans.

Jeg skal játa, að eins og hæstv. núv. fjrh. var lítill og áhrifalaus 1921, þá virðist stefna hans hafa sigrað nú. Hafi jeg látið orð falla um áhugaleysi hans þá, snýst það í lof um áhuga hans nú. En það lof er ekki eins ánægjulegt fyrir þá, sem þessi „operation“ er gerð á.

Þó það verði kannske aldrei sannað, þá var gangur málsins sá, að landsstjórn og meiri hl. flokksins voru svo hrædd um frv. 1921, að þau fengu einn kaupmann til þess að greiða því atkvæði. Háttv. frsm. segir, að sagan endurtaki sig. Já, bara að hún geri það; þá er alt í góðu lagi. Þá græðir landssjóður og þá er hægt að leggja í allskonar kostnað fyrir Vestmannaeyjar.

En það eina, sem endurtekur sig, er það, að allir kaupmennirnir, nema þessi eini, sem gerði stjórninni greiðann 1921, eru ennþá á móti landsverslun. Verslunarstjettin vill hafa kaupmannsgróða.

Hv. frsm. (JJós) telur þetta fremur stefnumál en —fjárhagsatriði. Voru þá flokksbræður hans sósíalistar 1921, eða dómsmálaráðherra og atvrh., sem studdu þetta mál þá, eða Hannes Hafstein fyr?

Því er haldið fram nú, að ekki þurfi að rökstyðja í þessu máli; það hafi verið gert áður. Mjer finst rjett, að rökin komi fram. Hv. frsm. verður að skýra frá, hvers vegna hann er óánægður með, að landssjóður fái 350 þús. kr. án tollhækkunar; hvaða skaðræði geti verið í því. Hann verður að viðurkenna að það er alt annað að fá þetta með hækkuðum tolli, en jafnframt skýra frá, af hverju á að gera tóbak dýrara fyrir fólki, úr því hægt er að fá þetta fje í landssjóð með auðveldara móti. Hv. frsm. segir, að það sje rangt að gera mikið úr því, að heildsalarnir komi til greina sem dýr milliliður. Kaupmenn flytji inn án þeirra. Getur verið að einhverju leyti. En inn í ræðu hans slæddist atriði, sem er óþægilegt fyrir hann. Hann sagði, að landsverslunin hefði orðið að greiða umboðsmanni útlendrar verksmiðju 3%. Jeg játa því ekki, en látum svo vera. Segjum, að hv. þm. kaupi t. d. vissa neftóbakstegund frá Danmörku. Eru líkur til þess, að hann komist þá utan um þessi 3% til umboðsmanns, sem landsverslunin á að hafa greitt? Svo framarlega sem heildsala fyrir alt landið getur það ekki, þá getur enginn einstaklingur það.

Það verður ef til vill aldrei sannað til fulls, en þó veit jeg, eftir bestu heimildum að landsverslunin hefir komist fyrir allar þessar rætur. Hún hefir fengið í þessu tilfelli a. m. k. 3% hagkvæmari kaup en er á færi einstaklings. Þegar hv. þm. verður að borga manni, sem hvergi kemur nærri, 3%, af því að hann er umboðsmaður, þá er hann búinn að borga ¾ af rekstrarkostnaði landsverslunarinnar. Hann er 4%. Í þessu eru fólgnir yfirburðir þessa skipulags.

Hv. frsm. játaði, að mikið hefði verið lagt á tóbak 1920; vildi hann ekki þræta fyrir, að það hefði verið 30–50%. Nú spyr jeg: Er það ekki nokkuð dýr milliliður, sem tekur þetta í eiginn vasa? Þetta gerir landsverslunin til hagnaðar fyrir ríkið; það er alt annað. Það er siðferðilega leyfilegt, og hefir hæstv. atvrh. fært rök að því í aths. við frv. um einkasölu 1921.

Þá fór hann að tala um, hve slæmt það væri, að landsverslunin legði svo mikið á. En flokksbræður hans ákváðu, að svo skyldi það vera. Forstjórinn hefir yfirleitt selt eins lágt og lög framast leyfa. Það er ómögulegt að saka aðra um verðlag á tóbaki en samherja hv. frsm. (JJós). Forkólfar Mbl.manna komu þessu á, þótt þeir vilji ekki fylgja málinu nú.

Nú er hv. þm. búinn að játa, að þeir umboðsmenn geti verið til, sem taki 3% gróða fyrir ekki neitt. Hann segir að vísu, að stærri verslanir fái tóbak sitt beint frá útlöndum. Það er alveg rjett. En tóbaksheildsalarnir eru til og fleiri bætast við. Þeir hafa meira að segja farið til útlanda nú þegar. Það er vakað yfir, hvort ekki tekst að snúa þessum 10—12 Mbl.mönnum í þessu máli, og þegar skeytin koma, steypa þeir sjer yfir markaðinn og byrja á ný.

Út af nöldri hv. frsm. um verðlagið sýnist það bert, að ef álagningin er óeðlilega há, — hvers vegna er þá tóbakið ódýrara en áður, og hvers vegna ódýrara en í löndum með lægra tolli og tómri kaupmannaverslun? Þetta áberandi verð er framkvæmd laga, sem hæstv. atvrh. kom á til þess að bæta fjárhag ríkisins án þess að verðið væri hækkað. Ætlunin var altaf sú, að heildsölugróðinn og nokkuð af smásölugróðanum lenti hjá ríkinu. En smásölunum þykir gróði sinn of lítill. Þeir vilja græða meira. En er það sönnun þess, að landsverslunin sje dýr í rekstri, borgi sig ekki? Það eru kaupmenn, sem vilja losna við landsverslunina, til þess að græða sjálfir. — Hv. þm. (JJós) vjefengir, að heildsalar muni leggja á nú eins og áður. Þetta er spádómur. En hann getur ekki sannað, að tóbak í útlöndum sje með lægra verði. Og ef það er svo, að mannlegt hold sje breyskt í öllum löndum, er full ástæða til þess að ætla, að okkar heildsalar verði svipaðir dönskum og enskum stjettarbræðrum. Við þurfum ekki að vænta betra af okkar kaupmönnum en aðrar þjóðir.

Þá sagði hann, að álag heildsala í Reykjavík hefði verið alveg óvanalegt á þessum árum. Í þessu liggur rjettmætur áfellisdómur. Hvaða ástæða var til þessarar álagningar? Hún rjettlætist ekki af því, þó að kaupgeta væri með meira móti og líkur til að varan seldist. Þetta sýnir aðeins það, sem sjá má ef athuguð er verslunarsagan, að kaupmenn leggja altaf á það, sem þeir sjá sjer fært.

Þá sagði hv. þm. (JJós), að tóbakið yrði ódýrara hjá kaupmönnum. Landsverslun hefir líka reynt að halda verðinu niðri svo sem hægt hefir verið samkvæmt þeim lögum, sem flokksbræður hv. þm (JJós) hafa sett. Jeg hefi áður vikið að umboðsmannagróðanum. Hv. þm. (JJós) er ljóst, að jafnvel fyrir enga vinnu fara þar miklar fjárhæðir til óþarfra milliliða. Mjer er kunnugt um eitt firma, sem áætlar slíkar tekjur 30—40 þús. kr. á ári. Þeir, sem að því standa, eru meðeigendur að blaði hjer í bænum, sem styður núverandi stjórnarflokk. Það er ekki undarlegt, þó að þessir menn sjeu fúsir á að leggja eitthvað af gróðanum í blað, sem styður það, að tóbakseinkasalan verði afnumin. Jeg játa, að það er mannlegt frá þeirra sjónarmiði. En frá þjóðhagslegu sjónarmiði verður að átelja það harðlega, að þingmenn láti hagsmuni slíkra manna hafa áhrif á gerðir sínar.

Þá kem jeg að þessu merkilega góðæri 1924. Jeg veit, að hv. þm. (JJós) þekkir söguna um feld flóttamannsins, er hvítur var öðrumegin en svartur hinumegin og um getur í Fóstbræðrasögu. Það var að vísu gott ár í Vestmannaeyjum og aflabrögð víða góð. En hverskonar góðæri áttu bændur á Norður- og Austurlandi við að búa árið 1924? Sumarið á undan var mjög vont. Haustið var fádæma slæmt og veturinn hroðalegur. Það var svo á stórum svæðum norðanlands, að þegar vika var af júlí, voru rjett að koma þar hestahagar. Það kallar hv. þm. Vestm. (JJós) afskaplegt góðæri, þegar svo háttar til, að við hallæri liggur hjá bændum víðsvegar á Íslandi. Jeg ber talsverða virðingu fyrir náttúrugáfum hv. þm. (JJós) og þetta aukið mjög alt of lítil þekking á högum landsbúa. Hann veit hvernig gengur að þurka þorskinn í Vestmannaeyjum og um afla tograranna á Halamiðinu. Það hefir verið góðæri fyrir aðstandendur þessara veiðibragða, þó að ekki komi það fram í verkum þeirra, þar sem þeir heimta af hæstv. fjrh. (JÞ) eftirgjöf á 630 þús. króna skatti, sem fara átti í ríkissjóðinn. Byggi jeg þetta á skýrslu frá skattstjóra landsins, en fer ekki frekar út í það nú. Góðærið virðist hafa forhert hjörtu þeirra manna. sem nutu þess, og gert hv. þm. Vestm. (JJós) blindan fyrir því harðæri, sem gengið hefir yfir sveitir landsins. Jeg get fullvissað hv. þm. (JJós) um það, að hann hefði ekki lagt svo mikið upp úr aukinni tóbaksneyslu vegna góðæris, ef hann hefði þekt til á Norður- og Austurlandi og vitað, við hvaða kjör fólkið þar átti að búa. Þar hjálpaðist að vont veðurfar og veikindi um að spilla árferðinu; Hv. þm. Vestm. (JJós) getur verið viss um, að menn voru þar ekki í neinum ,,sigarettuhug.“ Þá taldi hv. þm. (JJós) fjarstæðu að reikna með gengishagnaðinnm í þessu efni. Jeg reiknaði ekki með honum. Jeg bið hv. þm. (JJós) að athuga, að þessi gengishagnaður er ekki lagður í landssjóð sem tekjur, heldur notaður til þess að borga skuld, sem eiginlega hefði aldrei átt að greiða. Jeg veit, að hv. þm. (JJós) er svo skýr, að hann sjer, hve ástæðulaust er að skattleggja fyrirtæki, sem stofnað er til þess að afla ríkinu tekna. Það mætti eins leggja útsvar á tekjuskattinn eins og tóbakseinkasöluna. Háttv. þm. (JJós) er sjálfsagt kunnugt, að dómstólarnir gáfu þann úrskurð, að fyrirtæki, sem ríkið ræki til að afla tekna, ættu ekki að greiða útsvar. Þó fór svo með breyttum lögum, að landsverslun varð að greiða útsvar, og til þess var gengishagnaðurinn notaður.

Þá talaði hv. þm. (JJós) um það, að gróðinn af landsverslun væri lítilfjörlegur. Hann hefir þó orðið meiri en hæstv. atvrh. (MG) bjóst við, nema fyrsta árið, af því að hann gat ekki búist við, að hjá kaupmönnum lægju birgðir fyrir 1½ milj. króna. Annað árið varð hann meiri og þriðja árið mestur. Jeg hugsa, að hv. þm. (JJós) sje ekki svo stórlátur í sínum persónulegu gróðaáætlunum, að hann telji það lítinn gróða, sem verður helmingi meiri en áætlað er af þeim, sem stofnsetja fjármálafyrirtæki.

Hv. þm. (JJós) segir, að skuldir hjá landsverslun sjeu allmiklar og telur það fje alt tapað. Það er nú óalgengt að fullyrða nokkuð um slíka hluti fyrirfram. Það má búast við, að landsverslun tapi einhverju, en áreiðanlega litlu borið saman við umsetninguna. Ef hv. þm. ber landsverslun í þessu efni saman við sum önnur fyrirtæki, mun hann komast að raun um, að munurinn er mikill, Honum er vel kunnugt, að vaxtahæð bankanna stafar af uppgjöf skulda og að það eru dýrkendur frjálsrar samkepni, sem þar eiga höfuðsök.

Hv. þm. (JJós) spyr, hví útreikningarnir sjeu bygðir á veltiári. Jeg hefi sannað, að í stað veltiárs var hallæri á stórum svæðum landsins í fyrra. Auk þess er þetta fyrsta árið, sem gömlu birgðirnar höfðu ekki áhrif. Aukin eyðsla, sem afleiðing af góðærinu hjer syðra, kemur fram á þessu ári. Hv. þm. (JJós) getur, ef hann kemur hingað í sumar, borið saman húsabyggingar hjer í Reykjavík nú og í fyrra. Fiskaflinn þá gerir mönnum kleift að byggja nú. Það væri frekar hægt að segja, að ekki mætti miða við yfirstandandi ár, eða þá mánuði, sem liðnir eru af árinu. Nú hefir verið sannað, að til þess að vega móti gróðanum af tóbakseinkasölunni verður að hækka toll á tóbaki stórmikið. Hv. þm. (JJós) vitnaði til útreikninga í blaði einu hjer í bænum. Jeg hefi ekki lesið þetta. Blaðið er ekki svo merkilegt, að jeg gefi mjer tíma til að athuga það vandlega. En blaðið er gefið út af höfundi einkasölunnar, og ef það er að ráðast á hann og gera lítið úr hans verki, þá óska jeg skýringar. Annaðhvort verður að álíta, að hæstv. atvrh, (MG) eigi ekkert í blaðinu, eða þá að hann hafi aldrei skift sjer af einkasölunni, nema ef blaðið er komið í sömu mótsögn við hann sjálfan eins og hann og sum bestu sverð íhaldsins hjer í deildinni hafa komist í við sig sjálf út af þessu máli.

Hv. þm. (JJós) segir, að innflutningur tóbaks muni aukast með frjálsri verslun, því að doði hafi færst yfir þessa verslun af völdum einkasölunnar. Hvað mundi sagt, ef kvartað væri yfir því, að doði væri að færast yfir áfengisverslunina?

Allir vita, að tóbak er óholt, og fáir mundu harma, þó að færri börn og unglingar vendust á að reykja vindlinga. Það mundi ekki minka menningarsvipurinn, þó að pontan væri tekin úr nefinu, nje rýra gildi þjóðarinnar í augum útlendinga, þó að minna væri reykt. Ef athugaðar eru skýrslur um innflutning tóbaks, sjest, að hann ýmist hækkar eða lækkar. Það er líkt um hann og mann sem jetur yfir sig í dag, að hann er líklegur til að jeta minna á morgun.

Háttv. frsm. (JJós) segir, að skýrsla landsverslunarinnar sje ljeleg, en hefir þó ekki getað hrakið neitt af röksemdum hennar, og ef hún er nokkuð í þá átt, þá er hún vörn fyrir hæstv. atvrh. (MG) og hæstv. forsrh. (JM), sem var höfuð þeirrar stjórnar, sem bar þetta fram, og hefir stutt alt þetta, og mjer finst það vera dálítið ónærgætið að tala svo, þó að andstæðingarnir verði til að verja þessa menn, því að hv. þm. (JJós) skal vita það, að það verða nógu margir til þess að áfella þá fyrir því. Þá vítir hv. frsm. (JJós) landsverslunina fyrir, að hún hækkaði verðið í fyrra, af því að tollurinn komst á. Hvað gerðist áður, þegar kaupmenn hækkuðu verðið stórkostlega og græddu að sama skapi? Þetta minnir á, að það geta verið góðir og vandaðir menn í flokki kaupmanna, t. d. núverandi forstöðumaður landsverslunarinnar, sem var kaupmaður og þingmaður árið 1914, þegar stríðið skall á. Þá var símað til hans norðan af Akureyri af undirmönnum hans: Eigum við að hækka eins og hinir? En hann svaraði: Nei, við hækkum ekki. Jeg bið hv. þm. (JJós) að athuga muninn á þessum manni, sem árið 1914 vildi ekki níðast á fólkinu, og svo hinum algengu kaupmönnum, sem hækka jafnan útlendu vöruna eins og þeir framast geta. Jeg bið hv. þm. (JJós) að athuga, að einmitt svo ágætur maður hefir staðið fyrir versluninni og því hefir hún gengið svo vel.