29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Jónsson:

Jeg skal ekki tefja tíma þingsins með löngum ræðum nú, frekar venju.

Tillaga sú, sem jeg er meðflutningsmaður að á þskj. 400, hefir verið tekin aftur, svo um hana þarf jeg ekki að tala.

En brtt. XV. á sama þskj. gaf mjer tilefni til að taka til máls.

Mjer finst ekki nema eðlilegt, þó að fram komi tillögur til viðbótar þeirri, er samþykt var í Nd. um styrk til júbilljósmóður Þórdísar Símonardóttur. Enda hefir hv. þm. Snæf. (HSteins) komið fram með tillögu um að veita annari ljósmóður slíkan ellistyrk. Hefir hann talað svo vel fyrir tillögu sinni, að ekki verður annað hægt, ef önnur þessi ljósmóðir fær styrkinn, þá fá þær hann báðar. Það, sem jeg því vildi taka fram, er, að verði styrkur til þessara ljósmæðra samþyktur, þá mun jeg við 3. umr. koma fram með brtt. um, að ljósmóðurinni Kristínu Sigurðardóttur verði sömuleiðis veittur slíkur styrkur. Hún er búin að starfa sem ljósmóðir, altaf í sama stað, full 52 ár og heldur áfram enn. Á unga aldri fór hún utan og nam fræði sín í Kaupmannahöfn. Hefir hún gegnt starfi sínu ágætlega og altaf verið talin standa framarlega í stjett sinni.

Jeg býst ekki við, að það hafi þýðingu að fara að ræða um þetta nú. En jeg læt þessa getið, til þess að háttv. deildarmenn megi vita, á hverju er von frá mjer við 3. umr.

Annars finst mjer ekki hægt að bera á móti því, að allmikil sanngirni mæli með, að ríkið taki að sjer ljósmæður, sem starfað hafa 50 ár og þar yfir.

Að hjer sje því verið að fara inn á hættulegt fordæmi, get jeg ekki fallist á, því að þær eru fáar ljósmæðurnar, sem starfað hafa svo lengi. Það hefir verið sagt, að hreppsfjelögin eða sýslufjelögin ættu að taka við þeim, en það hefir reynst árangurslítið að fara fram á það, þar sem jeg þekki til.