09.05.1925
Efri deild: 73. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

50. mál, tollalög

Guðmundur Ólafsson:

Það er af því að allir sýnast hafa svo gaman af að tala um tóbakið, að jeg stend upp. Auk þess hafa svo fáir formælendur einkasölunnar talað. Hv. þm. Vestm. (JJós) hefir talað alllangt mál, en honum hefir aðeins gleymst eitt — það, að stjórnarflokkurinn getur ekki farið vel út úr þessu. Hann hefir hringlað. Ef til vill eru nú skoðanaskifti talin kostur, en jeg er hissa á, að sumir, sem vildu halda þessari verslun i fyrra, leggja nú ofurkapp á að koma henni fyrir kattarnef. Mjer dettur ekki í hug að taka til þess, þó skoðanaskifti verði á mörgum árum, að öllum ástæðum breyttum. En þessi breyting frá síðasta þingi er afkáraleg. Þá þótti einkasalan gefa auknar tekjur, og þó hagur ríkissjóðs kunni að vera eitthvað betri nú, þá er það varla svo gífurlegt, að tjón hlytist af, þótt við hann væri bætt.

Jeg hefi ekki breytt skoðun minni um þetta mál; jeg er ekki nógu móðins. Jeg álít ekkert unnið við, að ríkissjóður fái sömu tekjur með hækkuðum tolli, sem kemur niður á neytendum. Ef eins miklar tekjur nást án þess, að tóbakið sje gert dýrara, þá barma jeg það ekki; finst sú verslunarstefna rjettari. Og úr því skoðanaskifti eru orðin svona tíð, þá hefi jeg enga tryggingu fyrir, að næsta þing endurreisi ekki þessa stofnun, þó þetta leggi hana niður. Jeg verð því að gera orð hæstv. forsrh. (JM) að mínum, þau er hann talaði um annað mál: „Jeg vil ekki breyta því, sem mjer finst hafa reynst vel.“

Það óvenjulega við allan gang þessa máls stafar kannske af því, að menn halda, að þeir verði bendlaðir við sócíalisma í einhverri mynd, ef þeir tjá sig einkasölu fylgjandi. En jeg tel það lítið brot á frjálsri verslun, þó einkasala sje á tveim vörutegundum. Nei, það, sem kemur þessu hlaupi á stað, eru kosningaloforð stjórnarflokksins. Í fyrra þurfti hann ekki að vera eins ákafur af því kosningar voru nýafstaðnar. Og vegna þess, hvernig fór um stjórnarskrárbreytinguna, sem meiri hluti kjósenda óskaði eftir, er víst, að þá langar ekki í nýjar kosningar. Þessi sinnaskifti eiga eitthvað leynilegt að baki.

Jeg vil taka það fram aftur, að háttv. þm. þurfa ekki að vera svo fjarska stoltir yfir fjárhagnum, þó hann sje betri en í fyrra. Og í sambandi við það má minna á, að þessi lög voru ekki borin fram sem flokksmál. Þau voru sett af fjárhagslegum ástæðum. Þau rök, sem lágu til þess að þetta þótti ráðlegt þá, eru óhrakin enn. Alt, sem síðan hefir upplýst, er það, að góð reynsla er fengin fyrir þessu fyrirkomulagi. Jeg hneykslast ekki, þó menn hafi aðra skoðun á þessu en 1912. En jeg sje, að þetta er skilti, sem á að setja á þingið. En þó að jeg sje skiltislaus, hefi jeg ekki farið dult með mína skoðun.

Það er þegar búið að svara háttv. 1. landsk. (SE). Mjer fanst líka dregið af honum. Hann fór að afsaka að hafa nokkru sinni verið riðinn við einkasölu.

Hann kvað okkur hafa kastað ást á tóbakseinkasöluna. Jeg ætla ekki að fást um, þó hún verði lögð niður, ef ríkissjóði verða trygðar sömu tekjur. Það er köld ást. En hann hefir fengið ást á vínsölunni, þegar hann dreif hana í hvert kauptún, að mönnum nauðugum.

Jeg er ekkert óánægður, þó frv. nái fram að ganga. En jeg er óánægður með aðferðina. Þegar ekki er sýnt með neinum rökum, af hverju þetta er gert, er líklegt, að eitthvað sje bogið við það.