11.05.1925
Efri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

50. mál, tollalög

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Þegar þetta mál var síðast til umr., talaði hæstv. forsrh. (JM) nokkur orð, er jeg vil fyrst minnast á. Hann sagði, að það kæmi ekki málinu við, hvort hann hefði skift um skoðun. En það virðist ekki ósanngjarnt, þó að þjóðin vilji vita um „höfuð“ sitt, af hverju það skiftir um skoðun í svo stóru stefnumáli sem þessu. (Forsrh. JM: Jeg hefi ekki skift um skoðun). Jeg hefi sannað, að hæstv. forsrh. hefir gert það, svo framarlega sem hann nú telur sig ekki geta verið með tóbakseinkasölu, af því að hann sje á móti allri landsverslun. Jeg hefi sýnt fram á, að á árunum 1917—1921 hafði hann meiri afskifti af verslun landsins en nokkur önnur stjórn hefir haft frá því land bygðist. Í öðru lagi hefir hann borið fram frv. um ríkiseinkasölu og verið höfuð stjórnar, sem hefir flutt slík einkasölufrv., svo að jafnvel hv. 1. þm. Rang. (EP) var öllum lokið, er hann sá korneinkasölufrv. 1921. Jeg verð að álíta, að hæstv. forsrh. (JM) hafi hlotið að styðja þessi frv., sem stjórnin bar fram meðan hann var höfuð hennar, því að öðrum kosti hefði hann hlotið að segja af sjer. Þá var hæstv. forsrh. að tala á harla óljósu máli um þann stefnumun, sem hefði orðið til þess, að með honum og Framsóknarflokksmönnum skildi 1921. Hann sagði, að þeir hefðu viljað gera þvíngunarráðstafanir, sem hann hefði ekki getað aðhylst. Þessu vil jeg mótmæla. Framsóknarmenn vildu ekki gera aðrar þvingunarráðstafanir en þær, sem hæstv. atvrh. (MG) og fleiri vildu gera, sem sje þá, að banna innflutning á óþarfa á krepputímunum. Þegar nú litið er á það, að hæstv. forsrh., sem naut stuðnings margra Framsóknarmanna 1920, missir hann 1921, getur það hafa orðið af tveim orsökum. Annaðhvort af því, að hann hefði snúist á móti skoðunum hæstv. atvrh. (Pjeturs Jónssonar) eða af því, að hann hefir haft ósamrýmanlegar skoðanir við stuðningsmenn sína viðvíkjandi innflutningi á óþarfa. Hann játaði, að hann rjeði hæstv. atvrh. til þess að koma á skömtun vorið 1921, sem talin var argasta þvíngunarráðstöfun, og sýnir það vel, að hann sem ráðherra var vel inni í „þvíngunar“- pólitíkinni. Árangurinn af þessari þvíngunarráðstöfun, sem jeg er ekki að áfella hann fyrir, — jeg held, að hann hafi gert það af umhyggju fyrir sínu landi, — árangurinn varð sá, að kaupmennirnir risu upp með ofsa, kölluðu saman borgarafund og veittust að hæstv. atvrh., og þó jeg hryggist yfir því, verð jeg að benda á, að hæstv. forsrh. (JM) stóð þá ekki með hæstv. atvrh., þótt hann hefði verið hvatamaður þessarar ráðstöfunar. Jeg get því ekki skoðað þetta annað en merki um það, sem ekki er ósennilegt um mann á hans aldri, að hann sje orðinn gamalær og muni ekki það, sem er nýskeð. Því ef nokkur maður hjer á landi hefir staðið framarlega í einkasöluframkvæmdinni, þá er það hæstv. forsrh. (JM), því að hann var formaður stjórnarinnar, þegar sú „baktería“, svo jeg noti orð hv. þm. Vestm. (JJós), barst til landsins. Annars verð jeg að segja, að mjer virðist það benda á heldur veikan málstað hjá hæstv. forsrh., að hann hefir ekki, þó jeg hafi skorað á hann, bent á neinn stað í þingtíðindunum frá 1921, þar sem hann lýsir því óhikað yfir, að hann sje móti ríkisverslun í öllum myndum. Einhversstaðar kann það að vísu að standa þar, en það er ekki í umr. um tóbakseinkasöluna.

Þá vil jeg mjög lýsa ánægju minni yfir ýmsu í ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP). Jeg geri mikinn mun á afstöðu hans og margra annara. Hann viðurkennir hreinskilnslega, að hann hafi skift um skoðun frá því 1912 og gerir þess grein, og á hann hrós skilið fyrir það í samanburði við hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hv. þm. Snæf. (HSteins) og hv. 3. landsk. (HSn), til þess að jeg nefni af handahófi nokkra af þeim, sem sýndu það hjer á dögunum, að þeir hafa skift um skoðun frá 1921. Jeg vil benda hv. þm. Vestm. (JJós) líka á það, að er hv. 1. þm. Rang. var að tala um það, sem stundum er kallað „Statsmonopol“, hafði hann yfir það orðið einkasala, en ekki uppnefnið. Sýnir það, hvernig gamlar taugar endast lengi. Gömul samhygð hv. 1. þm. Rang. við einkasöluhugmyndina gerir hann nú kurteisari en suma þá, er þykjast fortíðarlausir í þessu máli. En jeg var ekki neitt sjerlega hrifinn af hv. 1. þm. Rang., er hann var að gera grein fyrir, hvers vegna hann hefði snúist í málinu eftir 1921. Hann segist þá hafa verið með einkasölunni af því, að þá var um svo mikla fjárþröng að ræða, en nú sje slíkt ekki fyrir hendi. Jeg vil benda á, að enn eigum við í mikilli þröng, sem myndaðist á krepputímunum. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir ekki ósjaldan talað um lausaskuldirnar. Jeg vil líka minna á eitt fyrirtæki, sem hv. þm. (EP) barðist mjög fyrir áður fyr, sem sje fyrirhleðslu Markarfljóts. Þetta mannvirki var áætlað á stríðsárunum að myndi kosta ¾ þeim gróða, sem hæstv. atvrh. (MG) hjelt upprunalega, að yrði af tóbaksversluninni. en varð miklu meiri. Þegar því hv. þm. (EP) viðurkennir, að fjárhagurinn sje svo slæmur, að honum dettur ekki í hug að minnast á Markarfljót, og sakast varla um, þótt feld sje fyrir honum nauðsynleg till. um fjárframlag til sandgræðslu, sem jeg studdi, og þegar hann veit, að heima í hans hjeraði og alstaðar á landinu bíða mýmargar bráðnauðsynlegar framkvæmdir, sem ekki er hægt að koma við sökum erfiðs fjárhags, — hvernig fer hann þá að rjettlæta, að við megum nú kasta frá okkur gróðanum af þessari verslun? Hv. þm. (EP) segist hafa orðið svo hræddur við frv. hins gamla flokksbróður og samherja hans, sem kom með frv. um korneinkasölu, að hann hafi skift um skoðun. Það kann vel að vera, að svo sje, en mjer er þó ekki grunlaust um, að önnur kunni að vera ástæðan til afstöðu hans, sem sje að flokksaginn knýi hann nú sem aðra til þess að fórna þessari sannfæring á altari stuðningsstjettar flokksins. Því vil jeg minna á það, að aldrei hefir einkasölualdan risið hærra en hjá þeim manni, sem hv. þm. (EP) studdi fastast meðan báðir lifðu, og ekki er líklegt, að þeir menn, sem altaf börðust trúlega með Hannesi Hafstein, ljetu það skjóta sjer skelk í bringu, þótt síðar kæmi eitthvað smávægilegt fram í einkasöluáttina, svo sem eins og korneinkasölufrv. hæstv. þáv. atvrh. (Pjeturs Jónssonar).

Hv. þm. (EP) mintist á brjef það, er hann skrifaði kjósendum sínum fyrir síðustu kosningar. Jeg hefi ekki sjeð það brjef, en hitt veit jeg, að þessi hv. þm. skrifaði mörg bónorðsbrjef til kjósenda sinna og grátbændi þá um stuðning, og þó mest þá, sem verst var við hann. Enda tókst honum með þessari elju að hræra hjörtu sumra til fylgis við sig. En auðvitað er ósýnt, að landið hafi nokkuð grætt á, að þessir menn voru þá viðtökuliprari en 4 árum áður, eins og koma mun í ljós við atkvgr. Annars hefi jeg aðeins heyrt um þetta brjef, og skal ekki fara út í það. (EP: Kaupfjelagsstjórinn í Hallgeirsey sagðist hafa sýnt háttv. þm. brjefið). Hafi hann sagt það, er það sjálfsagt satt, en þá hefir það verið svo nauðaómerkilegt, að jeg hefi ekki nent að leggja það á minnið.

Þá sagði hv. þm. (EP), að landið hefði ekki grætt á tóbaksversluninni. En allir reikningar sýna, að hún borgaði landinu 350 þús. kr. síðastl. ár, og eins og hv. þm. (EP) veit, er það miklu meira en hæstv. atvrh. (MG) gerði sjer von um, þegar hann kom henni á. Um tóbaksgæðin get jeg ekki sagt, en jeg hygg, að þau sjeu svipuð og áður, því bæði hefir landsverslunin flutt inn allar sömu aðaltegundirnar og tíðkuðust fyr, og eins hefir hún tekið tillit til sjerstakra óska um óvanalegar tegundir. Býst jeg við, að hún myndi og hjálpa upp á hv. þm. (EP). ef hann þyrfti á sjerstakri tegund að halda.

Eftir því sem jeg skil menn úr Rangárvallasýslu, hjelt hv. þm. (EP) því fram, að aðalástæðan fyrir því, að hann hefði farið inn á þing, væri sú, að jeg væri þar svo voldugur og mikill byltingamaður, að ef hann kæmi ekki, mundi jeg bylta öllu um. Satt að segja hefi jeg ekki orðið var við þessi verndandi áhrif háttv. þm. (EP). En jeg get sagt, að í þessi 40 ár, sem jeg hefi lifað, hefi jeg aldrei þekt jafnofsakendan skríl og skoðanabræður hv. þm. (EP) í kjördæmi hans. Þessi umhyggja hv. þm. ætti því að snúast að hans eigin sóknarbörnum, og vildi jeg óska, að hann brúkaði sín síðustu prestsár til þess að efla frið og sannleiksást meðal þeirra. Að minsta kosti ber það ekki vott um neitt gott, að það skuli vera einu mennirnir í sveitum Íslands, sem hafa brotið lög og reglur á almennum mannamótum fyrir geðofsa sakir. Þetta var líka ástæðan til þess, að hv. þm. (EP) misti flokksbróður sinn við kosningarnar.

Þá kem jeg að því, sem hv. þm. (EP) sagði um, að jeg hefði verið sósíalisti, en síðan skift um skoðun. Þetta stafar af ókunnugleika hv. þm. (EP). Honum mun vera kunnugt um, að jeg hefi í mörg ár barist fyrir samvinnuhugsjóninni, bæði í verslunarmálum og öðru. Þó að það hafi aðallega verið bændur hjer, sem nota samvinnufjelagsskapinn sjer til hagsbóta, hafa það erlendis verið verkamenn. Afskifti mín af verkamönnum hafa því verið til þess að breiða út samvinnufjelagsskapinn meðal þeirra. Ef hv. þm. (EP) vill athuga málið, mun hann sjá, að ef verkamenn aðhyllast samvinnustefnuna, leiðir það þá ekki út í ofbeldi, enda eru þeir menn bestir borgarar af verkamönnum, sem vinna að því hægt og hægt að bæta kjör sín. Jeg hefi því aldrei haft ástæðu til að skifta um skoðun, heldur hefi jeg útbreitt þær lífsskoðanir, sem jeg hefi viljað berjast fyrir og hefi viljað láta ná til allra stjetta. Í þessu sambandi vil jeg minna hv. þm. (EP) á það, að þó að jeg sje ekki prestur, hefi jeg átt þátt í því hjer, að prestar hafa fengið bót á launum sínum. Jeg er ekki að telja það til skuldar hjá honum, en þeir menn, sem vilja taka tillit til þeirra strauma, sem eru að gerast, álíta það heimskulegt að beita ofbeldi og kúgun gagnvart nokkurri stjett manna, sem leiðir aðeins til þess, að sú kúgaða stjett beitir ofbeldi á móti. Ef prestum er sýnt ranglæti, sameina þeir krafta sína og kúga Alþingi, eins og t. d. læknarnir 1919. Jeg vona, að þessi lífsskoðun mín geti orðið hv. þm. (EP) til lærdóms og að hann geti látið þessa rjettlætishugsjón bæta ræður sínar yfir söfnuðinum.

Hvað snertir heimakosningalögin, verður hv. þm. (EP) að áfella aðra en mig.

Þessi lög komust umræðulaust í gegnum þingið. Menn hjeldu, að þetta væri smávægileg breyting á kosningalögunum, sem væri til bóta, en fyrir frammistöðu samherja hv. þm. (EP) reyndust þau ill. og komst slíkt óorð á, að enginn maður í þinginu mun hafa mælt þeim bót á síðasta þingi. Ef einhvern á að ásaka, verður að ásaka mig og aðra þm. fyrir að hafa haft traust á samherjum hv. þm.

Þá kem jeg að hv. 1. landsk. (SE). Hann hefir viljað halda því fram, að hann væri hvítur af einkasölublettunum. En jeg held það sje með hann eins og stendur í vísunni:

,,Ei pardus orka kann

af láta flekki.“

Jeg skal þá fyrst koma að þessu umtali hjer um að sú frjálsa verslun og þá er víst átt við kaupmannaverslun, sje endurskin af baráttu Skúla Magnússonar og Jóns Sigurðssonar. Það kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) í Nd. í dag, að hann telur það brot á frjálsri verslun, ef landsverslunin hjeldi áfram samkepni við kaupmenn. Þar kemur það fram að fyrir þessum mönnum, sem mest tala um frjálsa verslun, vakir aðeins það, að ríkið reki ekki verslun. En hvorki á Norðurlöndum. Englandi nje Þýskalandi heyrir maður talað um frjálsa verslun í sömu merkingu og hjer. Þegar talað er um frjálsa verslun í heimsblöðunum, er altaf átt við tollfrjálsa verslun gagnvart verndartolli.

Í Ísafold fyrir nokkru var talað um „gull og græna skóga.“ Þarna geta menn sjeð, hvernig útlendar slettur, misskildar og afbakaðar, komast inn í málið. Útlend hugtök eru flutt inn, án þess að menn viti hvað þau meina. Frjáls verslun þýðir ekki annað en tollfrjáls verslun, og er hugtakið því notað hjer í alrangri merkingu.

Það var hægt að tala hjer um einokun og bundna verslun, meðan Danir kúguðu okkur, en alt öðru máli er að gegna um bönd, sem frjáls þjóð leggur á sig. Það er eins og t. d. þegar hv. 1. landsk. og jeg drekkum ekki vín.

Þá sagði hv. 1. landsk. (SE), að ekkert væri að marka, þó að verið hefði landsverslun á stríðstímunum, því að þá hefði verið svo hættulegt að versla hjer. Jeg vil minna hv. þm. (SE) á sykurinn, þar sem hann tók svo hressilega málstað landsins gegn þeim mönnum, sem nú eru samherjar hans. Kaupmenn heimtuðu gróðann og báru ekki fyrir sig peningaleysi, heldur að þeir ættu alla verslun. Jeg get bent á, að eitt stríðsárið voru skattskyldar tekjur eins heildsala 300 þús. krónur samkv. opinberri skýrslu. Finst hv. þm. (SE), að hægt sje að tala um fátækt, sem valdi því, að slíkir menn gátu ekki verslað? Til glöggvunar hv. þm. (SE) get jeg nefnt ekki svo fá dæmi. Það var fyrsta „ríkisstjórnarár“ hans fyrir stríð, þegar hann sendi Hermóð til Ameríku. Maður getur lagt hönd á helga bók og sagt, að hann eigi heiðurinn af að hafa reynt að halda niðri hinum óeðlilega gróða milliliðanna. Seinna samþykti hv. þm. (SE) steinolíueinkasöluna, sem jeg vona, að hann verði trúr og sýni það við atkvæðagreiðsluna í dag. Ennfremur vil jeg benda á hina stórkostlegu matvöruverslun í hans stjórnartíð eftir 1917. Enda þótt hv. þm. (SE) beitti sjer gegn tóbakseinkasölunni 1921, var hann höfuðmaðurinn í að koma á víneinkasölunni. (SE: Það var vegna bannsins). Eins er jeg með tóbakseinkasölunni vegna peninganna. Hjer hefi jeg þá í fljótu bragði bent á 4 lofsamlega þætti í lífi hv. þm. (SE), sem sýna, að hann hefir fylgt þeirri stefnu að vera með landsverslun, þegar við átti, en þverbrotið öfgastefnurnar, að vilja ríkisverslun altaf eða aldrei. Þrátt fyrir þetta vildi hann halda því fram, að hann stæði eins og þeir, sem eru á móti allri ríkisverslun. Hann segist vera hreinn af að hafa nokkurntíma viljað ríkisverslun. Jeg vil minna hann á vísu, sem fráskilin kona gerði. Hún átti barn í lausaleik eftir að hún var skilin við manninn. Hún vissi ekki, hver var faðir barnsins; varð samt að sverja í faðernismálinu fyrir rjetti. Vísan er svona:

„Jeg sver fyrir alla menn,

utan mann og enn mann,

þar til mann og kaupmann,

Litla-Pál og Pjetur Mumm,

og svo karlinn hann Finnboga minn,

sem allir vita nú um.“

Jeg álít, að hv. 1. landsk. standi í sömu sporum með sinn svardaga og þessi kona.

Þar sem hv. 1. landsk. taldi sig ekki ánægðan með svar mitt við því, hvort jeg sem Framsóknarmaður stæði á grundvelli frjálsrar verslunar eða ekki, vil jeg taka það fram, að jeg hefi skýrt þetta ljóslega og bent á 3 stefnur. Þá, að vilja altaf hafa ríkisverslun, vilja aldrei hafa ríkisverslun, og vilja stundum hafa landsverslun með vissar tegundir, þegar svo stendur á, að það er hagstæðara fyrir landið í heild sinni. Og jeg hefi sagt hv. þm. (SE). að jeg fylgi þeirri stefnu, alveg eins og hann. Mjer skilst, að ef hann telur það að vera með frjálsri verslun að vera á móti allri ríkisverslun, hafi hann altaf verið andstæðingur frjálsrar verslunar.

Hv. þm. (SE) mintist á, að hann gæti ekki verið með tóbakseinkasölu, af því að ekki væru þar sömu ytri ástæður fyrir hendi og í steinolíueinkasölunni. En tóbakið er alveg komið í hendur einstakra manna, það er að segja ensk-ameríska tóbakshringsins, sem hefir miklu meiri fjárráð en Standard Oil Co. Í norsku blaði var sagt frá því, að tóbaksframleiðendur í Noregi lentu í harðri baráttu við þennan erlenda hring, sem reyndi að kúga þá, en norsku framleiðendurnir ljetu enga tóbaksbúð fá tóbak, sem fjekk tóbak frá hringnum. Jeg get ímyndað mjer, að Norðmenn neyðist til að innleiða ,,monopol“, þó að þeir hafi enn lítt um það talað, til þess að vernda innlenda framleiðendur. Ef við hugsuðum okkur að koma upp tóbaksiðnaði í landinu, sem í raun og veru er sjálfsagt, — hvort væru meiri líkur til að því yrði komið í framkvæmd, ef ríkið hefði söluna eða óteljandi kaupmenn? Eða býst hv. þm. (SE) við, að það verði auðvelt fyrir smákaupmenn að standa gegn ensk-ameríska tóbakshringnum? Hv. 1. landsk. ætti að hika meira við að opna landið fyrir útlendum hringum, þegar hann veit, að með því er þvergirt fyrir, að nokkur tóbaksiðnaður geti komist á hjer á landi. Jeg skal geta þess, að í Svíþjóð, sem hefir tóbaks-„monopol“, getur ensk-ameríski hringurinn ekkert aðhafst.

Háttv. þm. Vestm. mintist á stjórnarskrármálið í svari sínu til hv. þm. A.- Húnv. (GÓ). Mjer finst það nú vera að hengja bakara fyrir smið, að kenna Framsóknarmönnum um afdrif þess, en afsaka þá 7, sem drápu það, en af þeim voru 5 eða 6 flokksmenn hans, Hv. þm. veit það, að Framsóknarflokkurinn var þá og er enn í minni hluta í deildinni og fær engu ráðið nema einhverjir af hans flokksmönnum gangi með honum. Hvernig áttum við að drepa stjórnarskrána, allra helst þar sem við greiddum allir atkv. með frv.?

Jeg hefi nú farið í gegnum ræður fjögra andmælenda, en verð nú að láta sem vind um eyrun þjóta þær röksemdir, er þeir kunna að bera fram hjer eftir, með því að jeg er dauður.