30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

60. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Árni Jónsson):

Þetta frv. fer í sömu átt og frv., sem flutt var hjer á síðasta þingi, aðeins ekki eins víðtækt. Undirtektirnar, sem það frv. fjekk, voru góðar í þessari deild, en í hv. Ed. var það afgreitt til hæstv. stjórnar, til þess að hún undirbyggi málið undir þetta þing. En hæstv. stjórn hefir ekki sjeð sjer fært að afgreiða það.

Aðalatriði þessa frv. eru tvö, annað að skifta megi hreppi í 2 eða 3 kjördeildir, en hitt er það, að færa kjördaginn á laugardaginn í 12. viku sumars. Þessi tvö ákvæði miða til þess að gefa mönnum, sem búa í hreppum þar sem erfitt er um ferðalög á ýmsum tímum árs, fært að nota sinn kosningarrjett. Það var upplýst í fyrra, að sumstaðar hagar svo til, að í raun og veru hafa ýmsir menn ekki nema hálfan rjett á við þá, sem búa í þjettbygð.

Það var þegar í fyrra talsverður ágreiningur um annað aðalatriðið, sem sje færslu kjördagsins. Það mætti mótspyrnu úr mörgum áttum og varð til þess, að málið fjekk ekki framgang. Nú höfum við í allshn. tekið út þetta ágreiningsatriði, og þá er ekki eftir nema hitt aðalatriðið, er jeg nefndi, sem jeg hygg, að þurfi ekki að mæta andúð, hvorki í þessari hv. deild eða hv. Ed. Að jeg hefi sætt mig við þessa meðferð frv., er ekki af því, að jeg sje fallinn frá þessari rjettlætiskröfu að færa til kjördaginn fyrir sveitakjördæmi, heldur af hinu, að jeg var vonlaus um, að málið gæti gengið fram á þessum grundvelli, og jeg álít, að betri sje hálfur skaði en allur.

Annars býst jeg við, að menn hafi áttað sig á þessu máli og sjái, að hjer er ekki nema um sanngirniskröfu að ræða, að færa kjördaginn. En jeg þarf ekki að orðlengja frekar um það, en vænti þess, að hv. deild vilji fallast á frv. í þeirri mynd, sem það er nú.