30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

60. mál, kosningar til Alþingis

Halldór Stefánsson:

Það er aðeins ein hugsun, sem liggur til grundvallar fyrir öllum ákvæðum frv. þess, sem hjer er til umr. (sbr. þskj. 66), sú, að gera kjósendum auðveldara að neyta kosningarrjettar síns í alþjóðarmálum.

Tvö eru aðalatriði breytinganna, annað heimildin til skiftingar hreppa í kjördeildir, hitt færsla kjördagsins. Hv. allshn. hefir nú getað fallist á fyrra atriðið, en ekki það síðara.

Jeg skal ekki tala um það, sem er ágreiningslaust við nefndina, aðeins hitt, sem ágreiningur er um.

Færsla kjördagsins varð að ágreiningsefni þegar í fyrra, en þó gekk sú till. fram í þessari hv. deild. Allir — eða a. m. k. flestir — viðurkendu þá rjettarbót, sem færsla kjördagsins frá hausti til vors væri fyrir kjósendur í sveitum, en því er þá af sumum jafnframt haldið fram, að það sjeu rjettarspjöll fyrir ýmsa aðra, svo sem sjómenn og aðra, sem eru fjarverandi kjörstað sinn á kjördegi.

En þetta er ímyndunin tóm. Með ákvæðum gildandi laga um atkvæðagreiðslu fjarstaddra manna frá kjörstað sínum, annaðhvort brjeflega eða á öðrum kjörstað innan síns kjördæmis, er svo að fullu bætt úr fyrir þeim, að alls engin ástæða er fyrir þá til umkvörtunar. Það hefir verið, og er, nokkuð um það deilt, hvað kosningarrjettur eigi að vera almennur. Aðaltakmörkunin, sem fyrir honum hefir verið sett, er lágmarksaldur. Að sjálfsögðu verður að setja slík takmörk, og er þá aðeins um það að gera, hvert aldurstakmarkið á að vera, en út í umr. um það ætla jeg ekki að fara.

En það eru önnur takmörk — þó ekki sjeu þau lögbundin — sem eiga að fá að njóta sín, og það er, að þeir einir neyti kosningarrjettarins, sem gera það af eigin hvöt og áhuga, en hitt ætti að vera bannað — ef ekki með lögum, þá af almenningsálitinu — að smala mönnum til kosninga eins og fjenaði til skilarjettar. Menn ættu að fá að vera persónulega óáreittir um það hvort þeir neyta kosningarrjettar síns eða ekki. Ef nokkur ástæða er fyrir andstöðunni gegn færslu kjördagsins, þá er hún sprottin af þessu, að menn sjá eftir aðstöðunni til að smala kjósendum til kosninga. En þar sem jeg viðurkenni ekki rjettmæti þeirra ástæðna, þá tel jeg það enga ástæðu.

Hitt ætti að vera jafnsjálfsagt, að setja engin ytri skilyrði, sem hindra menn að taka þátt í kosningu að eigin hvöt og vilja. En það gerir kjördagur á hausti altaf að meira og minna leyti um kjósendur, sem búa í sveitum — einkum þó kvenfólk — og gæti gert alveg stórkostlega, ef mikið bæri út af með veður. Hinsvegar hefi jeg sýnt, að kjördagur á vori hindrar á engan hátt nokkra kjósendur, sem af eigin hvöt og áhuga vilja neyta kosningarrjettar síns. Að neita sveitamönnum um þá rjettarbót að færa kjör daginn til vors, er því líkast því að taka með annari hendinni það, sem gefið er með hinni.

Af þessum framannefndu ástæðum er jeg því alt annað en ánægður með þá afstöðu, sem hv. allshn. hefir tekið til flutnings kjördagsins. Hinsvegar er jeg nefndinni þakklátur fyrir það, að hún mælir þó með öðru aðalatriði frv. — kjördeildaskiftingunni — því að það út af fyrir sig — ásamt öðrum smærri ákvæðum í frv. — er þó nokkur rjettarbót, ef fram gengur.

Þess vil jeg geta, að þó að leiðrjetting á kjörtímanum fyrir sveitamenn nái ekki fram að ganga að þessu sinni, þá hlýtur krafa um þá leiðrjettingu að koma fram aftur og aftur. Hinsvegar getur auðvitað komið til álita að koma þeirri rjettingu á á einhvern annan hátt en hjer er lagt til.

Loks skal jeg taka það fram, að jeg mun ekki leggja mig í nokkrar harðvítugar deilur um kjördaginn, enda þótt enn verði teknar upp þær einskisverðu ástæður, sem færðar hafa verið á móti færslu hans. En jeg mun láta nægja fyrir mitt leyti að láta frv. koma til atkvæða.

Þar sem þetta var samþykt hjer í deildinni í fyrra, þá tel jeg líklegt, að svo verði nú. Hv. Ed. hefir óbundnar hendur að fella úr, ef hún getur ekki fallist á þessi atriði, en láta hitt ganga fram, sem hún getur aðhylst.