29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Jeg skal þá fyrst leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. hv. þm. á þskj. 400 og skýra frá afstöðu nefndarinnar til þeirra, að svo miklu leyti sem hún hefir átt kost á því að bera sig saman um þær. I. brtt. er frá hv. 1. þm. Rang. (EP) um það, að styrkur til bílferða austur um sýslur verði hækkaður upp í 4000 kr. Hv. þm. (EP) misminnir um styrk þennan, að hann sje 2 þús. kr. í núgildandi fjárlögum. Hann er ekki nema 1000 kr. Þessi hv. deild hækkaði hann að vísu í fyrra upp í 2000 kr., en hv. Nd. lækkaði hann aftur. Nú hækkaði hæstv. stjórn styrkinn upp í 2000 kr., og hefir sú upphæð staðið óbreytt í hv. Nd. Fjvn. þykir nokkuð mikið að tvöfalda upphæðina, en hinsvegar gæti hún gengið inn á, að styrkurinn hækkaði upp í 3000 kr., ef hv. flm. (EP) vill nú taka till. aftur til 3. umr. En eins og till. liggur fyrir, getur nefndin ekki mælt með henni, og það því síður, sem styrkur til annara samgöngubóta fyrir Rangárvallasýslu hefir verið aukinn allverulega, og á jeg þar við styrk til skipaferða.

Brtt. II. hefir verið tekin aftur af flm. En treystist hann til þess að breyta dálítið orðalagi till. fyrir 3. umr., þá býst jeg við því, að nefndin geti þá fallist á hana.

Þá er brtt. III, um styrk til þess að gefa út landslagsuppdrátt af Íslandi með hæðalitum og hafdýpislitum, sem nefndin að vísu telur gott og þarft fyrirtæki, en þar sem undirbúningi undir það verk er enn ekki lokið, þá leit nefndin svo á, að bíða mætti með styrk til útgáfunnar til næsta þings. Þó hefir nefndin hjer óbundin atkv.

Brtt. IV og XIV, um flutning fjárveitingar til dr. Helga Pjeturss frá 14. gr. fjárlaganna í 18. gr., er samþykt af nefndinni, þar sem upplýst er, að það er gert með samþykki þess manns, sem á hlut að máli.

Þá er V. brtt., frá hv. 3. og 5. landsk. (HSn og JJ), um styrk til Tryggva Magnússonar málara. Nefndinni þótti leitt að sjá sjer ekki fært að hlynna sjerstaklega að þessum listamanni, því hún hafði löngun til þess, en sá sjer hinsvegar ekki fært að taka hann út úr listamannahópnum, en telur sjálfsagt, að hann fái styrk af því fje, sem til lista er veitt. En úr því till. um þetta er sjerstaklega fram komin og einn nefndarmanna er flutningsmaður hennar, hefir nefndin að sjálfsögðu um hana óbundin atkv.

Þá kem jeg að brtt. VI, um styrk til Listvinafjelagsins til þess að kaupa „Móðurást“ Nínu Sæmundsson. Nefndin vill síst gera lítið úr list þeirrar konu, sem er um að ræða, en eftir því, sem upplýst var í gær, þá mun hróður hennar lítið aukast þótt myndin verði keypt. Finst mjer spursmál, hvort rjett sje að setja þá mynd undir mæliker hjer, í stað þess að láta hana ganga um heiminn og efla svo frægð höfundarins og hróður Íslands. Í fjárlagafrv. því, er fyrir liggur, eru ætlaðar 3000 kr. til þess að kaupa fyrir listaverk, og sje eins nauðsynlegt að eignast þetta listaverk og talið er, mundi stjórnin geta veitt Listvinafjelaginu fje af þessum styrk. Annars skal jeg í þessu sambandi benda á, að það er orðin talsverð upphæð, sem veitt er til lista hjer á landi, þótt það sje fátækt. í 15. gr. 16. lið eru 4000 kr. til Leikfjelags Reykjavíkur; í 17. lið eru 22400 kr. ætlaðar skáldum og listamönnum; í 34. lið eru 4000 kr, ætlaðar til listasafns Einars Jónssonar og í 35. lið 9200 kr. til Einars Jónssonar. Þetta verður samtals 39600 kr. Og nú liggja fyrir hv. deild till. um að hækka þessi styrki enn um 4550 kr., og ef þær till. ná fram að ganga, yrðu alls veittar 44150 kr. til lista, og er það ekki smáræði, borið saman við margt annað. Meiri hl. fjvn. gat því ekki fallist á, að tekin væri upp sjerstök fjárveiting í þessu skyni.

Þá kem jeg að brtt. VII. Nefndin getur ekki fallist á að veita svo mikla upphæð og þar er farið fram á að þessu sinni, meðal annars af þeim ástæðum, að efasamt er, að það komi að tilætluðum notum. Hæstv. atvrh. (MG) mælti og í móti brtt., og vísa jeg til þess, er hann sagði. Nefndin sjer sjer því ekki annað fært en verða á móti till., og það því fremur, þar sem verður vafasamt, að fjárveitingin komi að notum, þótt veitt yrði, þar sem búnaðannálastjóri áleit, að þurfa mundi 25 þús. kr.

Þá kem jeg að 8. lið, um verðlaun til mjólkurniðursuðu, alt að 8000 kr. Hjer er farið fram á að auka framleiðslu fyrirtækis, sem er nýlega stofnað. En það er viðsjárvert, að ýtt sje undir framleiðslu án þess að trygging sje fyrir því, að varan seljist. Þetta er álit meiri hl. nefndarinnar, einkum þar sem framleiðslan hefir ekki reynst gallalaus, eins og sjá má í Morgunblaðinu í morgun. Hv. flm. till. hefir og gefið nefndinni þær upplýsingar, að hún er í efa um, hvort það mundi verða fyrirtækinu að neinu liði, þótt það fengi lítinn styrk, og efasamt, hvort það getur haldið áfram, enda þótt það fái styrk þennan. Þannig er til þess stofnað. Eftir upplýsingum, er fyrir liggja, greiðir fyrirtækið 30 aura fyrir hvern líter af mjólk. Telja sumir landbúnaðarmenn, að þetta sje alt of hátt verð og mundu bændur geta látið sjer nægja að fá 25 aura fyrir líter, en við það mundi hagur fyrirtækisins batna. Af þessum ástæðum vill meiri hl. nefndarinnar ekki styðja þetta mál.

Þá er 9. liður á sama þskj., brtt. frá háttv. 2. þm. S.-M. (IP) um, að styrkur til hannyrðakenslu sje hækkaður upp í 1000 kr. og skift jafnt milli Þórdísar Ólafsdóttur á Fellsenda og frú Sigrúnar P. Blöndal í Mjóanesi. Það er rjett, sem hv. flm. sagði, að jeg þekki hina síðarnefndu konu, sem styrkaukans á að verða aðnjótandi, og fleiri í fjvn., svo sem hv. 6. landsk. (IHB), og við erum bæði sammála um það, að ef á að veita sjerstakan styrk til skólahalds í hannyrðum, þá verði ekki framhjá henni gengið. Hinsvegar hefir fjvn. komið fram með 1000 kr. hækkun á styrknum til heimilisiðnaðar í landinu, og lengra treystumst við ekki til þess að fara.

Hv. þm. Vestm. (JJós) hefir tekið aftur brtt. sína í 10. lið á þskj. 400, og ætlar að koma fram með hana aftur við 3. umr., vegna þess, að fjvn. gat ekki verið með henni eins og hún er.

Hv. þm. Snæf. (HSteins) hefir tekið aftur brtt. sína í 11. lið á þskj. 400, og skal jeg því ekki ræða um hana.

Þá er 12. liður á þessu þskj., um styrk til þess að undirbúa vatnsveitu í Vestmannaeyjum. Nefndinni þykir hv. flm. (JJós) vera furðuásælinn við ríkissjóð, að ætla honum að greiða 2/3 kostnaðar við það að gera kostnaðaráætlun um þetta efni. Þó blandast nefndinni ekki hugur um, að hjer er um mikið nauðsynjamál að ræða, að bæta úr vatnsskortinum í Vestmannaeyjum, en lítur svo á, að Vestmannaeyingum sjálfum beri fyrst og fremst að greiða verulegan hluta kostnaðarins. Hv. 5. landsk. (JJ) mælti mikið fram með þessari till. í gærkvöldi, og við viðurkennum líka, að það sje nauðsynlegt að hafa nægilegt og gott vatn, en jeg man ekki til þess, að ríkissjóður hafi áður kostað neina vatnsveitu, heldur sjeu þær vatnsveitur, sem nú eru, gerðar á kostnað bæjarfjelaganna sjálfra. Svo er það að minsta kosti í Reykjavík og á Seyðisfirði.

Af því að svo margir sækja til Vestmannaeyja víðsvegar að af landinu, mundi nefndin þó vilja veita nokkurn styrk til þessa, og ræður því hv. flm. til að taka till. aftur og koma með aðra til 3. umr., er seilist ekki svo djúpt í vasa ríkissjóðs. Svo er mjer og spurn á því, hver á að kosta vatnsveituna sjálfa, þegar í hana verður ráðist að undirbúningnum loknum. Er það einnig meiningin að krefjast 73 kostnaðarins við að gera vatnsveituna sjálfa úr ríkissjóði ?

Hv. flm. (JJós) talaði um ræktunarsjóðinn og skatt þann, sem lagður er á landsmenn út af honum, og að Vestmannaeyingar mundu hafa lítið gott af sjóðnum. (JJós. Hvað láta Vestmannaeyingar mikið í ríkissjóð. Hvað sagði hæstv. fjrh. (JÞ) um það?). Hann sagði, að stór hluti af tekjum ríkissjóðs kæmi þaðan, en jeg veit líka, að Vestmannaeyjar eru eina sveitarfjelagið, er nýtur styrks úr ríkissjóði, þar sein ríkið verður að borga fyrir að hafa gengið í ábyrgð fyrir það til hafnargerðar þar, og er farið að borga skuld þá, er það stendur í ábyrgð fyrir.

Þá er 13. liður. brtt. hv. 2. þm. S.-M. (IP) um styrk til Goodtemplara. Hann mælti fyrir þeirri till. og vildi bera hana saman við þær tekjur, er ríkið hefir af áfengisversluninni. Jeg lít svo á, að bindindisstarfsemi sje góð, en jeg fæ ekki betur sjeð en að hún sje fullkomlega styrkt með 6000 kr. Styrkurinn hefir verið tvöfaldaður á mjög skömmum tíma, og virðist fjvn., að hjer við megi sitja. Aðalstjórn þessa fjelagsskapar er nú flutt til Akureyrar, og má vera, að aukinn kostnað leiði af því, en á því ber ríkissjóður enga ábyrgð.

Þá eru það þessar blessaðar júbilljósmæður. Það er langt frá því, að jeg álíti að þær eigi ekki að fá heiðurslaun fyrir starf sitt, en það eiga þær að fá úr sýslusjóði, en ekki ríkissjóði. Það er nú svo um þessa fyrstu júbilljósmóður, að hún ætlar ekki aðeins að draga á eftir sjer dilk, heldur dilka. Hv. 2. landsk. (SJ) ætlar að koma með þá þriðju og háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefir eina slíka á sínum örmum. Þær eru því ekki eins sjaldgæfar og menn skyldu halda. Verður því eitt yfir þær allar að ganga, og jeg fyrir mitt leyti vil ekki, að þær sjeu teknar á ríkissjóð nema að litlu leyti, og þá í sama hlutfalli og hann greiðir laun ljósmæðra. Meiri hl. nefndarinnar er þessu fylgjandi. En jeg játa það, og eins nefndin, að kona sú, er hæstv. forseti (HSteins) ber fyrir brjósti. eigi það skilið, að henni sje sómi sýndur. Býst jeg við, að sumir nefndarmenn greiði málinu atkv. til 3. umr., en þá má búast við brtt. frá nefndinni. Jeg get ekki sjeð, að menn þurfi endilega að binda sig við það, að ljósmæður hafi verið starfandi í 50 ár. Hví má ekki sýna þeim sóma, ef þær hafa gegnt starfi sínu í 49 ár, 45 eða 40 ár! Þetta tímatakmark er því út í loftið. Mjer finst það ekki mikið, þótt þessum júbilljósmæðrum yrði veitt viðurkenning úr sýslusjóði, en jeg veit ekki orsökina til þess, að það hefir ekki verið gert.

Þá er 16. liður á þskj. 400. um að veita Kristjáni Linnet bæjarfógeta lán til þess að koma upp embættisbústað. Hæstv. stjórn er þessu meðmælt og álítur þetta ekki athugavert. Þar er jeg á öðru máli. Mjer finst þetta fordæmi þess, að þá er embættismaður kemur og segist ekki fá það hús, er honum líkar, þá eigi viðlagasjóður að hlaupa undir bagga. Hv. flm. till. talaði um, að erfitt væri að fá húsnæði í Vestmannaeyjum, en mjer er spurn: Hvað er orðið af húsi fyrverandi bæjarfógeta þar? Jeg veit ekki betur en að stjórnin hafi íhlutunarrjett um það. Mjer finst, að Vestmannaeyingar sjálfir gætu lánað bæjarfógetanum þessar 15000 kr. með aðgengilegum kjörum. Jeg þekki persónulega þennan bæjarfógeta, met hann mikils og mjer þykir persónulega vænt um hann, en þar fyrir verð jeg að leggjast á móti þessu, vegna þess, að jeg álít, að það muni draga dilk á eftir sjer.

Þá er 17. liður. Hæstv. fjrh. (JÞ) mintist á ábyrgðarheimild þá, sem hjer er um að ræða, og bað hv. þdm. að leysa sig undan þessum vanda. Hann benti á það, að upphæð sú, — 110 þús. kr. —, sem hjer væri farið fram á, væri svo há, að um 230 kr. kæmu á hvert nef í þorpinu, sem telur 556 íbúa, og finst mjer nokkuð erfitt fyrir sveitarfjelag að bæta við sig slíkum skuldaþunga. Eftir því sem jeg gat skilið af ræðu háttv. flm., þá hefir aðeins komið fram tilboð um að vinna þetta verk, en hann vissi ekkert um það, hvort tilboðinu mundi verða tekið eða að nokkur von væri um að fá slíkt lán með sæmilegum kjörum, enda þótt ábyrgð ríkissjóðs fengist fyrir láninu. Eins og jeg hefi þegar tekið fram áður, og sömuleiðis hefir hæstv. atvrh. (MG) látið hið sama í ljós, þá eiga hvorki stjórn ríkisins nje fjvn. þingsins að hvetja bæjarfjelög nje aðra til að leggja fje í fyrirtæki, sem vafasamt er um, að gefi arð af sjer fyr en ef til vill seint og síðar meir, og leggur því fjvn. Ed. á móti þessari brtt.

Um brtt. á þskj. 408 er það að segja, að þegar fjvn. hjelt fund með sjer í morgun klukkan 9, var þetta þskj. ekki komið fram, og hefir nefndin því ekki haft tækifæri til öll í heild sinni að taka afstöðu til þessarar brtt., og veit jeg því ekki, hvernig hv. samnefndarmenn mínir líta á þetta mál, en jeg fyrir mitt leyti álít, að þessi till. um skólastofnunina komi allhastarlega eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir þingið, og ef jeg man rjett, var frv. um skólahald á Staðarfelli sent til mentmn., en þaðan hefi jeg ekki enn sjeð neitt nál. um það mál. Jeg hefi því ekki haft tækifæri til að gera upp með sjálfum mjer, hvort rjett sje að stofna þennan húsmæðraskóla eða ekki, en á brtt. sjest ekki, hvort þetta á að verða ríkisskóli eða einkastofnun. En það skiftir og nokkru máli. En það er ljóst, að skólinn á að vera á ríkiseign og á ríkið að lána bæði jörð og húsnæði og veita skólanum að auki rekstrarstyrk árlega, en þó skildist mjer á háttv. frsm. mentmn., að skólinn ætti að vera einkaskóli, og þykir mjer það líklegra. En það hygg jeg, að væri einsdæmi í þingsögu okkar, er einstök nefnd (mentmn.) færi að gerast svo umsvifamikil að ráða þannig fram úr þessu máli, án þess að þingið alt fái að segja álit sitt þar um, — byggja jörð ríkissjóðs, ákveða eftirgjaldið og greiðsluskilyrðin o. s. frv. Mjer skildist svo, sem skólinn mætti vinna af sjer eftirgjald jarðarinnar með jarðabótum og að skólinn ætti að byrja þegar í næstu fardögum. En þá yrði að reka burt af jörðinni þann embættismann ríkisins, sem þar býr nú, og byggja annarsstaðar yfir hann eða lána honum til þess fje úr viðlagasjóði. Jeg skýt því þess vegna til háttv. flm. brtt., hvort það væri ekki sæmilegri kurteisi gagnvart fjvn. að taka þessa brtt. aftur til 3. umr., til þess að fjvn. geti fengið tækifæri til þess að bera sig saman um hana.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að þeim brtt. fjvn., sem andmælum hafa sætt við þessa umr., og skal jeg reyna að vera ekki margorður, til að lengja ekki þessa umr. úr hófi fram, enda hefir hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) svarað sumu af því. En frá sjálfum mjer vil jeg bæta því við það, sem hann sagði um styrkinn til læknisvitjana úr Kjós og hv. 2. þm. G.K. (BK) lagðist mjög á móti, að jeg á bágt með að trúa því, að svo sje, sem hv. þm. sagði, að læknirinn væri svo þungur, að enginn hestur bæri hann, og gæti hann þess vegna ekki ferðast nema í bifreið eða sjóveg, og ætti hann því mjög erfitt með að sinna þessum læknisferðum. Þessu á jeg sein sagt ekki gott með að trúa. Því að þótt þessi læknir sje bæði hár og gildur að vallarsýn, ætti hann þó að vera bær góðum hesti, og ekki er hann heklur svo við aldur ennþá, að hann geti ekki ferðast þess vegna. Hann mun vart vera miklu þyngri en t. d. hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), sem ferðast einhestis á Nú tímum milli Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar, og hefir engum hesti orðið að sök, svo kunnugt sje. En sje svo, að læknirinn treystist ekki að taka þessar ferðir á hendur innan síns læknishjeraðs, ætti hann heldur að sækja um eitthvert annað og hægara embætti. Hann er bæði í svo góðu áliti sem læknir og hefir auk þess þann embættisaldur, að hann ætti að fá það hjerað, er hann sækti um, en hans vegna er ekki hægt að ætlast til, að stofnað verði þarna nýtt læknishjerað. Hitt er algengt, að aldraðir og lúnir einbættismenn sækja um önnur ljettari embætti. Jeg hefði t. d. aldrei sótt í burtu frá Seyðisfirði, ef jeg hefði ekki sjeð fram á, að með aldrinum mundi jeg ekki geta þolað það erfiði, sem embættisferðir mínar um Norður- Múlasýslu höfðu í för með sjer. Það er að vísu langt að sækja lækni ofan úr Kjós til Reykjavíkur eða til Hafnarfjarðar, en þó er það ekki lengra eða erfiðara en t. d. ofan af Hólsfjöllum að Brekku í Fljótsdal, og svo mætti víðar upp telja.

Háttv. 2. þm. G.-K. (BK) talaði um litlar fjárframlögur til samgöngubóta Kjósarbúum, en jeg man þó eftir Hvalfjarðarbátnum, sem styrktur er, og Kjós liggur þó að Hvalfirði, og svo er Kjalarnesvegurinn. (HK: Hann er landssjóðsvegur hvort sem er). Já, en þessi vegur kemur einnig Kjósarbúum að liði. — Fjvn. mun ekki breyta neitt um skoðun sína í þessu máli, en heldur fast fram þessari brtt.

Hæstv. atvrh. (MG) mun svara aths. þeim, sem komið hafa gegn 16. brtt. fjvn., og tala jeg því ekki um hana.

Háttv. 1. þm. Rang. (EP) mótmælti till. fjvn. um styrk til húsabóta á Skútustöðum, en nefndin heklur sjer við það, sem áætlað er í frv. til húsabóta á prestssetrum, og er það venja, að til þeirra er að jafnaði tekið eitthvert lán, og sjer nefndin enga nauðsyn til bera, að höfð sje önnur aðferð við þennan stað. En hinni spurningunni skiftir nefndin sjer heldur ekki af, þ. e. hvort presturinn, sem þar var áður, sækir þangað aftur eða ekki.

Þá er hjeraðsskóli Suðurlands. Háttv. 5. landsk. (JJ) og háttv. 1. þm. Rang. (EP) töluðu á móti brtt. fjvn. og töldu sannað, að samkomulag næðist ekki milli Árnes- og Rangárvallasýslna um stofnun og rekstur eins hjeraðsskóla fyrir báðar sýslurnar. Fjvn. álítur, að fari svo, að ekki náist samkomulag um þetta mál milli Rangárvalla- og Árnessýslna, þá eigi ekki að greiða þennan styrk; hann verður þá ekki notaður. En það ætti að liggja hverjum manni í augum uppi, að það mundi leiða til fjárhagslegra vandræða bæði fyrir hlutaðeigandi sýslufjelög og ríkissjóð, ef stofna ætti hjeraðsskóla í hverju sýslufjelagi. Þess vegna er það nauðsynlegt, að fleiri en eitt eða tvö sýslufjelög sameinist um þetta, til þess að geta orðið styrks aðnjótandi. Enda hafa og önnur sýslufjelög á landinu sagt það, að þau geti sameinast um slík mál.

Hv. 5. landsk. (JJ) lagði mikla áherslu á það, að Árnesingar hefðu mann, sem vel væri til fallinn að veita þessum skóla forstöðu; en skólastofnunin mætti ekki dragast, til þess að maðurinn gæti komist að skólanum, því að hann væri þegar við aldur. Hv. 5. landsk. (JJ) brýndi mig og á því, að þar eð þessi maður væri mjer nákominn, bæri mjer skylda til að vinna að því, að hann hlyti þessa stöðu. En það er öðru nær en að jeg taki tillit til þess háttar hluta. Jeg lít á málin frá sjónarmiði almenningsheillar og án tillits til persónulegra hagsmuna. Þess vegna eru engir hlutir fjær mjer en þessi. Jeg álít, að þó að búið sje að safna allmiklu fje til þessa skóla Árnesinga, og loforð sjeu til fyrir einhverju í viðbót, verði þó sá skóli fult eins dýr og þingeyski skólinn, og það þótt Árnessýsla fengi allan þennan styrk. Það myndu samt vanta um 50 þús. kr., og yrðu sýslubúar því að taka lán til þess, sem á vantar, og mun það fullerfitt fyrir sýslufjelagið að bæta slíkum bagga ofan á þær byrðar, sem fyrir eru, og auk þess er enn ótalinn allur rekstrarkostnaður skólans. Jeg fæ því ekki sjeð, að Árnesingar geti risið undir þessu. Jeg gleymdi að taka það fram áðan um þennan væntanlega skólastjóra hv. 5. landsk (sjera Kjartan Helgason), að hann gegnir nú svo veglegum og þýðingarmiklum embættum og gerir þar svo mikið gagn, að jeg tel vafasamt, að hann fengi meira áunnið annarsstaðar eða í annari stöðu. Jeg álít og, að það sje alls ekki glæsilegt fyrir mann, sem er orðinn 60 ára, að taka að sjer nýtt starf, — fara að stjórna skóla, sem hlýtur að vera af vanefnum stofnaður og vanta alt til alls og enginn getur sagt um, hversu lengi verður hald ð uppi. Nefndin heldur sjer við það, að með því að sýna fram á það, að ef 2–3 sýslufjelög bindist samtökum um stofnun skóla, þá verði þeim veittur styrkur og að líkur eru til, að sá styrkur kæmi þá og að betri notum, viti menn eftirleiðis, hvað þeir eigi að gera í þessum efnum.

Háttv. 5. landsk. (JJ) hafði og á móti brtt. fjvn. um að fella niður styrkinn til sundlaugar við alþýðuskóla Þingeyinga, og við það hefi jeg ekki að athuga. Fjvn. álítur auðvitað ágætt, að sundlaugar komist upp sem allra víðast á landinu, en álítur, að ekki sje ástæða til, að ríkið leggi fram alt fje til þessa á þessum eina stað á landinu, því rjettara sje, að jafnt gangi yfir alla.

Hæstv. atvrh. (MG) mótmælti lækkun fjvn. á fjárframlagi til Búnaðarfjelags Íslands og gaf í skyn, að fjvn. Nd. hefði gefið bindandi loforð um þá upphæð, er þar var samþykt. Þetta er fjarstæða, sem jeg á bágt með að trúa, að fjvn. Nd. geri bindandi samning um fjárveitingar, enda þótt viðkomandi ráðherra sje því samþykkur. Mjer finst, að fjvn. Ed. sje skylt að mótmæla þess háttar framferði sem óþolandi. Þrátt fyrir það að hæstv. ráðherra segði, að fjelagið gæti ekki komist af með minni upphæð en 200 þús. kr., voru þó ekki áætlaðar til þess nema 150 þús. kr. í fjárlagafrv. stjórnarinnar upphaflega. Hæstv. atvrh. taldi þessa niðurfærslu óvænlega til samkomulags milli deildanna, þar eð Nd. mundi breyta þessu aftur, þótt þetta yrði gert hjer. Þessi 50 þús. kr. hækkun var samþykt í Nd. með 15:13 atkv., svo ekki hafa allir verið svo mjög hrifnir af henni. Enda þótt fjvn. Ed. sje ekki á móti því að hækka í frv. framlag til Búnaðarfjelags Íslands, telur hún þó of stórt stökk úr 150 í 200 þús. kr., þegar ekki er upplýst um neinar sjerstakar framkvæmdir, sem fjelagið hafi í ráði fram yfir það, sem venjulegt er. Fjvn. getur því ekki vænst annars en að þessi háttv. deild samþykki þessa brtt.

Hæstv. atvrh. (MG) og hv. 2. þm. S.-M. (IP) mæltu á móti brtt. fjvn. um hækkun á styrknum til búnaðarfjelaganna, en hv. 1. þm. Rang. (EP) mælti með þeirri brtt., og læt jeg mjer nægja að skírskota til ummæla þess háttv. þm., og eru þeir margir, sem líta svo á, að styrkur til búnaðarfjelaga komi landbúnaðinum að einna bestum notum.

Um lækkunina á framlagi til Fiskifjelags Íslands er hið sama að segja og um Búnaðarfjelag Íslands, en hæstv. atvrh. gaf í skyn, að þar væru einnig loforð gefin í Nd. og að fjelagið gerði sjer von um þá upphæð, sem þar var samþykt; en jeg skírskota til þess, sem jeg sagði um Búnaðarfjelag Íslands, að jeg álít þetta alls ekki bindandi fyrir fjvn. Ed., enda þessi upphæð einnig hærri en í frv. til fjárlaga hafði upphaflega verið áætlað.

Um 43. brtt. fjvn. tek jeg það fram, að vegna þess að það hefir verið upplýst í umræðunum af 2. þm. G.-K. (BK) o. fl., að eigendur jarða þeirra, er fyrir skemdunum urðu, væru of hart leiknir, ef vænst yrði jafns tillags annarsstaðar að móts við ríkissjóðsstyrkinn, tekur fjvn. þessa brtt. aftur til 3. umr.

Þá hefir bæði hæstv. atvrh. (MG) og hv. 1. landsk. (SE) mælt með því, að styrkurinn til Lúðvíks Jónssonar fái að standa í fjárlögunum, en fjvn. leggur til, að hann verði niður feldur. Fjvn. álítur, að það heyri beint undir verksvið Búnaðarfjelags Íslands að styrkja tilraunir eins og þá, sem hjer er um að ræða, og beri því hreint og beint skylda til að styrkja þær umbætur í búnaði, sem líklegar eru til frambúðar og Búnaðarfjelag Íslands hefir viðurkent, að sjeu styrks verðar. Geri það ekki þetta, bregst fjelagið þeirri skyldu, er á því hvílir, og liggur þá næst að athuga, hvort ekki væri rjettara, að ríkið hætti að halda fjelaginu við lýði, en stofnaði heldur sjerstaka deild í stjórnarráðinu fyrir búnaðannál. til þess að öll ábyrgð þeirra mála hvíldi á atvinnumálaráðherranum. Það getur alls ekki komið til mála að veita Búnaðarfjelagi Íslands háan árlegan styrk og veita auk þess sjerstaklega fje til almennra búnaðarframkvæmda, sem heyra beint undir verksvið Búnaðarfjelagsins.

Um hækkun á styrknum til Breiðafjarðarbátsins Svans er það að segja, að fjvn. álítur, að Alþingi sje fyllilega búið að gera skyldu sína gagnvart útgerðarmönnum þessa báts, með því, sem þingið samþykti í fyrra, og þess vegna sje nægilegt að veita nú þessar 4000 kr. í viðbót.

Hv. 1. landsk. (SE) hjelt því fram, að upphæð sú, sem ætluð væri til að bæta upp fjárhagslegt tjón fyrverandi sendiherra vors, væri of lág; en því er þar til að svara, að stjórnin fór ekki fram á hærri fjárveitingu en þá, er fjvn. leggur til, að verði veitt.

59. brtt. tekur fjvn. aftur til 3. umr., og þarf því ekki að ræða þann lið.

Nú held jeg, að jeg hafi svarað öllum þeim andmælum, sem brtt. fjvn. hafa mætt, og vænti þess, að þurfa ekki að taka oftar til máls við þessa umræðu, sem orðin er alllöng; en fyrir hönd fjvn. leyfi jeg mjer að mælast til þess af þessari hv. deild, að brtt. fjvn. verði yfirleitt allar teknar til greina og samþyktar.