14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3192 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

111. mál, útvarp

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil benda á það út af ummælum hv. þm. V.- Ísf. (ÁÁ), að jeg sje ekki betur en fyrir það sje girt, að fyrirtæki þetta verði óhæfilegt gróðafyrirtæki, þar sem ákveðið er, að stjórnin setji gjaldskrá. Hvort hún yrði í svipaða átt og hv. þm. (ÁÁ) vildi, get jeg ekki sagt nú. Jeg geri ráð fyrir, að 10% ágóði verði álitinn nógur. Þessu atriði málsins er því að mínu viti borgið. Jeg býst við, að erfitt sje að gera þetta að áhugamáli einu og að það vilji verða fjármál með. Og er alveg vonlegt, að hluthafar vilji hafa vexti af fje sínu.

Þar sem allshn. hefir allmikið með málið farið, finst mjer rjett, að hún fjalli um það framvegis, og býst jeg við, að það verði fljótar afgreitt með því.