14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

111. mál, útvarp

Bjarni Jónsson:

Mjer þykir góðs viti að þetta frv. er um útvarp. Það er lipurt orð og rjett hugsað og rjett myndað. Og þó ekkert annað ynnist með frv., þá hefði það þó gert mikið gagn. Á þá sennilega að berast út um landið sú speki og mikla menning, sem lýsir sjer í tali manna á þessum stað. Jeg skal minna á, að mjer hefir verið kappsmál og jeg hefi reynt að koma því á, að skrifarar hjer í þinginu lærðu „stenografi“, eða hraðritun, og það hefir ekki strandað á því, að skrifararnir sjálfir væru ófúsir að læra eða gætu ekki orðið fullfærir fyrir næsta þing, heldur því, að hv. þingmönnum hefir víst þótt viðsjárvert, að ræður þeirra kæmu fram eins og þær eru haldnar. En jeg vil benda á, að ekki væri síður hættulegt að hafa eitthvert eyra hjer í salnum, sem tæki við ræðunum, og munn einhversstaðar utan við, sem flytti þær út um alt land. Hv. þingmenn ættu að ugga að sjer áður en það er orðið um seinan. En þó að jeg efist nokkuð um menningaráhrifin hjeðan, þá býst jeg við, að mörgu yrði varpað út, sem ekki hefir meira menningargildi en það, sem hjer er haft fyrir stafni. Það er þó eitt atriði í þessu máli, sem líta verður á. Það er, ef þetta eykur öryggi manna á sjónum, þannig að skip sem ekki hafa loftskeytatæki, geta fengið fregnir úr landi. Mannslíf hvert verður ekki metið til fjár. Jeg hefi heyrt. að margir hafi komist við út af þessu mikla manntjóni, sem nú hefir orðið við strendur landsins. Það kennir margur þegar kemur að hjartanu. og menn verða vafalaust fúsir á að stuðla að því, að mannhættan á þessu sviði minki.

Það er eftirtektarvert, að komið hefir fram við umræðurnar, að mönnum virðist vera mesta kappsmál, að þeir, sem að fyrirtækinu standa, græði ekki á því; hafi aðeins vexti og hreint ekki meira. Sjest af þessu, að menn vilja ekki kosta miklu til öryggis sjómannanna. En þessu fyrirtæki fylgir talsverð áhætta. 100 þús. kr. er töluvert mikill höfuðstóll hjer á landi, og það eru meiri líkur til þess, að þetta beri sig ekki fyrst í stað. Segi jeg þetta til þess að benda á, að samræmi verður að vera í umhyggju manna fyrir sjómönnunum. Jeg hefi oft staðið menn að því, að þeir hafa með atkvæði sínu gert alt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að drepa menn. Það má kannske segja líkt og Sókrates, að gott sje að vakna upp einhvern daginn með eilífð glaða kringum sig, eða þá að sofa eilífum svefni, — hvorttveggja sje gott. En hvað sem því líður, þá er ekki óalgengt hjer, að menn, sem áhuga hafa fyrir einhverju gagnlegu starfi, sjeu drepnir með mestu stillingu.

Annars mun jeg fylgja þessu frv. með atkvæði mínu.