14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

111. mál, útvarp

Ágúst Flygenring:

Jeg get tekið undir með hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að þetta eigi ekki að vera gróðafyrirtæki. En það getur verið menningarfyrirtæki, og því er rjett, að hið opinbera ljetti undir með því. Aftur á móti er jeg ekki trúaður á, að þetta sje eins þýðingarmikið og orð er á gert að því er snertir sjómennina. Sjóslys hjá okkur eru flest á opnum bátum og mótorbátum. Stærri skipin hafa loftskeytatæki, miklu fullkomnari en þau tæki, sem hjer er um að ræða. Móttökutækjum af þessari gerð mundi ekki hægt að koma fyrir í opnum bátum, svo að þetta hefði ekki verulega þýðingu fyrir sjómenn. (ÁÁ: Svona tæki eru notuð í Lófóten). Mjer er ókunnugt um það, en þykir ólíklegt, að það geti haft mikla þýðingu. Eftir því sem jeg þekki til í Sandgerði t. d., þá skil jeg ekki, að svona tæki gætu haft mikla þýðingu þar. Þar búa veðurglöggir menn, og jeg býst við, að þeir yrðu litlu nær, þó þeir fengju að vita álit Reykvíkinga um veðrið. Það má vel vera, að þessi tæki standi til bóta, en að svo komnu geri jeg ekki mikið úr gagnsemi þeirra fyrir smábáta.

Mjer sýnist rjett að vísa þessu máli til mentmn.