14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

111. mál, útvarp

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að játa. að vantrú mín á menningarhlið þessa fyrirtækis hefir að ýmsu leyti styrkst við að hlusta á ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann talaði um, að lesa mætti Íslendingasögur og varpa út yfir landið. — það yrði þá einhverskonar kvöldvökulestur hjer í Reykjavík, sem landsmenn fengju að njóta. Jeg býst nú ekki við, að þessi tæki verði svo almenn, að þau komist inn á hvert heimili, og þá tel jeg betra, að fólkið læri að lesa og lesi síðan sjálft. Öðru máli er að gegna með hljóðfærasláttinn. Á þennan hátt er hægt að ná í hljóðfæraslátt, sem annars er ekki kostur á hjer, og það er einkum nauðsynlegt vegna þess, að hjer er mönnum bannað að kaupa hljóðfæri. Er víst litið svo á, að þau sjeu lítið nauðsynleg, en þetta útvarp á þá kannske að koma í staðinn fyrir hljóðfæraleysið.

En það, sem hv. þm. (ÁÁ) mintist á, að þetta ljetti mönnum enskunám, þá er það í mínum augum ekki mikið menningaratriði, þar sem um er að ræða eitthvert lakasta mál heimsins. Það kann að vera, að nauðsynlegt þyki að stofna slíka kenslustöð til þess að keppa við þá menn, sem eru að draga fram lífið með því að kenna þetta mál. (ÁÁ: Er þýska betri?). Það veit hv. þm. of vel til þess, að hann þurfi að spyrja, að þýska er miklu betur bygt mál. En hinsvegar minnir þetta mig á hina fögru ræðu hans um lögreglu á sjó, þar sem hann talaði um, að gott væri að búa undir arnarvæng Englendinga. Hann mun ætla sjer að hlusta þar á þennan dásamlega arnarsöng. Jeg leyfi mjer að efast mjög um þá miklu menningu, sem þetta á að hafa í för með sjer. En það kemur fram hjer sem oftar, að þessi hv. þm. (ÁÁ) þenur sig um alt, hvort sem hann hefir vit á því eða ekki.

Jeg vil halda mig við það, sem jeg hefi áður tekið fram, að bót getur að þessu verið fyrir smábáta. Þó að jeg hafi ekki mikla þekkingu á þessum tækjum, þykir mjer líklegt, að þau geti gagnað smábátum víðar en í Lófót. Jeg vil leyfa mjer að benda á að það er ekki rjett að segja Lófóten. Þetta er gamalt orð og er kvenkyns. — Jeg tel rjettara að vísa þessu máli til sjútvn. heldur en til hinnar ágætu mentmn., sem mun þegar vera hlaðin ennþá þýðingarmeiri störfum og stefnir vafalaust að enn hærra marki en hjer getur verið um að ræða.