30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

111. mál, útvarp

Magnús Jónsson:

Það bregður út af venju með meðferð þessa máls, þar sem það er hjer til 2. umr., án þess að nokkurt nál. liggi fyrir. Að vísu er ekki langt síðan málinu var vísað til nefndar, en á hinn bóginn er það oft, að þegar málum er vísað seint til nefndar, er hægt að afgreiða þau þess fyrr, því að þá er aðalstörfum þeirra lokið, og auk þess er þetta mál hvorki svo yfirgripsmikið eða nýtt, að nefndin hefði ekki átt að geta áttað sig tiltölulega fljótt á því. Eðlilegast hefði verið, að nefndin hefði vísað málinu til borgarstjóra, sem auðvitað getur gefið fullnaðarsvör fyrir hönd bæjarstjórnar, en allshn. hefir tekið það ráð, að senda það til bæjarstjórnarinnar, og get jeg ekki gert við því, eftir þeirri reynslu, sem fengin er um meðferð bæjarstjórnarinnar á málinu, þó að mjer flýgi í hug, að þetta hafi verið gert í þeim tilgangi að þvæla málið og fá ekki endanleg úrslit. En ályktun bæjarstjórnarinnar sýnir alls ekki afstöðu bæjarstjórnarinnar efnislega, til málsins, heldur alt annað. Hún er ekki um það, hvort bæjarstjórn telji heppilegra að afnema lögin eða ekki, heldur vill hún halda í einhvern ímyndaðan rjett, sem nú eigi að taka frá henni.

Með tilliti til þess, sem bæjarstjórnin hefir lýst yfir, að engum væri betur trúandi en henni til að skipa þessu máli, er ástæða til að líta á það, hvernig henni hefir gengið með það í þessi 4 ár, sem hún hefir haft vald til að setja reglur því viðvíkjandi. Hún hefir gert tvær alvarlegar atrennur og lagt þar í mikla vinnu, og allan þann kraft, sem hún hefir á að skipa, hefir hún sett á hreyfingu. Í fyrra skiftið varð enginn árangur, en síðan samdi hún reglugerð, sem var svo úr garði gerð, að stjórnaráðið sá sjer ekki fært að staðfesta hana. Hvort það hafi verið gerræði af hæstv. atvrh. (MG) að staðfesta ekki reglugerðina, skal jeg lofa honum sjálfum að útskýra, en nokkuð er það, að staðfesting náðist ekki, af því að talið var, að reglugerðin hefði seilst út fyrir það svið, sem bæjarstjórninni var heimilað, þar sem tekið er inn í reglugerðina ákvæði um að hamla innflutningi manna í bæinn. Annars er það álit manna, sem sáu reglugerðina, að hún væri alveg ótrúlega flókin lausn á jafneinföldu máli, svo að ekki sje meira sagt. Þessar tvær tilraunir bæjarstjórnarinnar hafa því báðar mistekist, og eru engar líkur til, að henni takist betur framvegis.

Að hjer sje tekið nokkurt vald frá bæjarstjórninni, er fjarri sanni. Þó að hún fengi þessa heimild 1921, ætlaði Alþingi sjer ekki að láta hann hökta við þetta til eilífðar, ef henni mistækist. Hver er eiginlega alvara bæjarstjórnarinnar og löngunin til að koma málinu í gott horf? Það sjest best, þegar reglugerðinni er synjað um staðfestingu út af lítilfjörlegu atriði. Því breytir ekki bæjarstjórnin þessu atriði? Nei, það gerir hún ekki, og sjest þá, hve viljinn var góður. Tilgangurinn var ekki sá, að láta reglugerðina koma í stað laga, heldur sá, að láta alt sitja við það sama.

Jeg hefi oft spurt ýmsa menn, sem ekki álitu vert að afnema húsaleigulögin, hvaða voði þeir hjeldu að kæmi yfir bæinn, ef það yrði gert. Ástæður þeirra hafa verið mjög smávægilegar. Þeir hafa t. d. sagt, að bæjarstjórninni væri heimilt að taka íbúðir, sem stæðu lausar. Jeg hefi spurt, hvort þetta væri notað mikið. Eitt ár dálítið, en annars mjög lítið. En því setti ekki bæjarstjórnin einfalda reglugerð um þessi atriði, í stað þess að hlaða upp löngum reglugerðum með brtt., sem allar fjellu? Aftur á móti held jeg, að húsaleigulögin geri talsverðan skaða. Það er fyrir utan eðli þeirra að standa lengur en rjett meðan ófriðurinn var. Það er enginn vafi á því, að verð á húsnæði lækkar ekki í bænum, nema meiru sje komið upp af húsum. Lögin draga nú úr hvöt manna til að byggja, á því er enginn vafi, og vinna þannig á móti sjálfum tilgangi sínum.

Er tilgangur Alþingis sá, að láta lögin standa áfram? Ef svo er ekki, hvenær búast hv. alþm. við, að tími sje til kominn að afnema þau? Hvenær er hentugri tími til þess en einmitt nú? Bæjarstjórnin er búin að sýna sína krafta til að ráða málinu til lykta.

Jeg vildi óska, þó að málinu sje stefnt í voða fyrir það, hvað orðið er áliðið þings, að hv. deild vilji lofa málinu að hafa sem greiðastan gang.