30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

111. mál, útvarp

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg bjóst ekki við, að hæstv. atvrh. (MG) mundi taka svo í till. nefndarinnar, sem raun hefir á orðið, því að mjer skildist við 1. umr. orð hans hníga að því, sem nefndin hefir gert, að minsta kosti að nokkru leyti. Jeg ætla að minnast á 2 atriði, sem jeg gleymdi áðan. Að árgjöldum notenda er vikið í nál. og gert ráð fyrir, að þau fari ekki fram úr 30—40 kr., og vil jeg af nefndarinnar hálfu leggja áherslu á það við hæstv. ráðherra, að alt verði gert til þess að þau verði sem lægst. Þetta er mun hærra en í nágrannalöndunum. Í Danmörku er árgjaldið 10—15 kr., en í Englandi enn lægra. Að vísu yrðu hjer miklu færri notendur, en munurinn er líka mikill á upphæðunum.

Annað var það, sem jeg mintist ekki á, sem sje um till. til að fella niður heimild um að framselja sjerleyfi. Það ætti ekki að eiga sjer stað, að menn fengju sjerleyfi og gætu flaggað með þeim án þess að hafa sjálfir framkvæmd á þeim. Hæstv. ráðh. spurði, hvers vegna nefndin hefði umsteypt frv. En nefndin fór einmitt í allflestu eftir bendingum hv. atvrh. (MG) við 1. umr. málsins. Hann sagði, að enginn sjerfræðingur væri til að ráðgast við. Það er alveg rjett, en nefndin hefir gert sjer far um að tala við menn, sem hafa kynt sjer þetta mál af bókum eða komið sjer upp viðtökutækjum.

Allar þær upplýsingar, sem nefndin hefir fengið, hafa hnigið að því, að uppástunga landssímastjóra um að hafa ½ kw. í loftnet væri of lág. Það má ekki miða við, þó að stöðvar annarsstaðar dragi með því afli álíka vegalengd og hjer er um að ræða, þar sem sljettlendi er. Enda þótt svo sje í Danmörku og Englandi, hefi jeg heyrt menn segja, að miklu meiri hindranir sjeu hjer fyrir útvarpinu en þar, bæði hvað snertir landslag og birtu. Erfiðast er að hlusta bjartasta tíma ársins hjer, og því þarf stöðin að vera hlutfallslega sterkari en annarsstaðar. Sterkasta stöðin í Kaupmannahöfn hefir 2 kw. í loftnet, en í Osló er stöð fyrir aðeins suðurhluta Noregs, sem hefir um 650 w. í loftnet, og vestanfjalls eru aðrar stöðvar eins sterkar eða sterkari. Mjer virðist það því engin fjarstæða, sem nefndin hefir stungið upp á. Jeg skal ekki segja, nema hún gæti fallist á að hafa 1,1 kw. Það hefir hún ekki ráðgast um, en hún vildi tryggja, að ekki væri farið of skamt.

Ef ekki væri nema ½ kw. í loftnet, væri ekki hægt að heyra t. d. á Austfjörðum, nema með afskaplega sterkum tækjum, sem almenningi væri ókleift að eignast, þar sem þau mundu kosta 800—1500 kr. Því sterkari sem stöðin er, því ódýrari munu móttökutækin verða. Jeg álít, að við verðum að líta á það, hvernig stöðin geti komið landsmönnum að sem mestu gagni og með sem minstum útgjöldum.

Hæstv. ráðherra svaraði spurningu minni viðvíkjandi hr. Gook, og get jeg verið ánægður með það svar. Þá mintist hæstv. ráðherra á brtt. nefndarinnar. Jeg held, að óþarfi sje að tala um, að nefndin hafi móðgað þessa menn, sem um er að ræða. En mjer skildist á hæstv. ráðherra, að einhverjir litu svo á. Nefndin hefir einmitt í áliti sínu tekið fram, að hún vildi, að þessir menn fengju sjerleyfið að öðru jöfnu, en taldi óþarft að binda sig við þá, ef aðrir gætu boðið betri og hagstæðari kjör. Er þessi brtt. nefndarinnar í samræmi við ummæli hæstv. ráðherra (MG) við 1. umr. þessa máls. En annars er þeim mönnum að fjölga, sem eru andvígir því yfirleitt að veita sjerleyfi, sem löggjöfin þó hefir gert talsvert að undanfarið, því að það sje röng stefna að taka þannig fram fyrir hendur annara manna, að veita í lögum ákveðnum mönnum sjerleyfi til þessa eða hins. Sjerleyfi, sem þeir ef til vill aldrei notuðu, en stæðu í vegi fyrir því, að aðrir, sem fjármagn hefðu til, framkvæmdu það. Gæti eins farið svo hjer, að þeir menn, sem hjer er um að ræða, gætu ekki komið þessu á stofn, en svo ef aðrir menn hefðu fjármagn og vilja til að gera það, þá stæði stjórnin ekki vel að vígi að veita leyfi öðrum en þeim, sem sjerleyfi hefðu samkvæmt lögunum. (Atvrh. MG: En það er til heimild til framsals). Já, en þessa heimild til framsals var nefndin sammála um að taka út úr frv. Hæstv. atvrh. sagði, að í nál. væri talað um það, að landssímanum væri ekki treyst til að reka þetta fyrirtæki; en það er nú svo, að í brjefi landssímastjóra til nefndarinnar er það einmitt tekið fram, að landssímanum henti ekki að ráðast í þetta verk. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp það, sem þar er sagt um það efni:

„Af ýmsum ástæðum, einkum fjárhagslegum, hentar það ekki landssímanum að byrja á þessu verki sjálfur, eins og nú standa sakir.“

Svo að það er ekkert annað en það, sem staðið hefir í erindi landssímastjóra áður, og nefndin þóttist sjá, að hann treystir sjer ekki að ráðast í þetta af fjárhagslegum ástæðum. Jeg hefi áður minst nokkuð á stöðina og hvers vegna nefndin hefir hækkað skilyrðið um afl stöðvarinnar, svo að jeg þarf ekki frekar að orðlengja um það.

Hæstv. atvrh. sagði, að hjer hefði verið hlustað á stöð í Englandi, sem hefði kw. í loftnet, og líka á stöð í Ameríku, sem hefði sama kraft. Þetta getur verið; loftið hefir kannske verið sjerstaklega gott þá, til þess að hægt væri að heyra svo langt að, eða móttökutækin sjerstaklega góð. Það er dálítið misjafnt, hvernig heyrist, en aðallega fer það eftir því, hvað menn leggja í móttökutækin. Jeg vil í sambandi við þetta víkja að því, að það er sennilega óhjákvæmilegt, ef slík útvarpsstöð er rekin hjer, að bæta loftskeytastöðina, sem sögð er að hafa úrelt tæki, því að þeir menn, sem hafa móttökutæki hjer, vita það fullvel, að þegar hún er að senda út skeyti, þá geta þeir ekki hlustað á aðrar stöðvar á meðan, svo að það er óhjákvæmilegt, þegar útvarpsstöðin kemur, að loftskeytastöðin verði bætt og fái nýtísku tæki, enda mun það standa til.

Þá mintist hæstv. ráðherra (MG) á brtt. nefndarinnar, 3. liðinn, till. um að fella úr frv. heimild stjórnarinnar til að ákveða, hvaða móttökutæki megi nota og hver ekki. En jeg skal segja hæstv. ráðherra (MG) það, að jeg lít svo á og nefndin öll, að það sje í sambandi við það, að nefndin hefir á seinni staðnum lagt til að fella niður rjett sjerleyfishafa til einkasölu á viðtökutækjum, því að ef það er ákveðið í reglugerð, hvaða tæki má nota og hver ekki, þá verður að vissu leyti einkasala á þeim, svo að það er beint í sambandi hvað við annað, og ætti því ekki, eftir meiningu nefndarinnar, að koma inn í reglugerðina, hvaða viðtökutæki skuli notuð og hver ekki. Það eru auk þess ýmsir menn, sem búa sjer til viðtökutæki sjálfir, og þá gætu þeir á þann hátt komið upp ódýrari tækjum, sem þeir annars ekki gætu, ef það væri fyrirskipað, hvaða tæki skuli notuð, kannske frá einhverri ákveðinni verksmiðju.

Hæstv. ráðh. (MG) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) töluðu báðir um það, að það myndi vera óheppilegt að veita ekki þessu fjelagi einkasölu. Jeg er nú, eins og kannske hæstv. ráðherra (MG) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM) vita, ekkert sjerstaklega hræddur við að hafa einkasölu á sjerstökum vörutegundum, og kannske ekki eins hræddur við það og þeir, en jeg hefi í þessu tilfelli talið rjettara, að ekki væri veittur rjettur til einkasölu, af því að menn geta þá valið á milli tækja og tekið þau, sem eru af nýjustu gerð, og eins geta menn þá sjálfir búið sjer til tækin, sem þeir ekki mega, ef þeir verða að kaupa einhver ákveðin. Annars fer náttúrlega um þessa verslun eins og í hinni venjulegu „frjálsu samkepni“. Annars sagði hæstv. ráðherra og eins hv. 3. þm. Reykv., að það mundi kannske verða til þess að setja niður árgjaldið, ef þeim væri heimiluð einkasala, en mjer finst, að það sje einungis að taka úr einum vasanum og láta í hinn, og að þeir geti þá alveg eins tekið það í beinum skatti með árgjöldum, eins og með óbeinum skatti, með því að leggja meira á viðtökutækin. Það kemur alveg í sama stað niður, nema að því leyti, að þá eru menn bundnir við að nota þau tæki, sem fjelagið selur, en fjárhagslega er þetta enginn gróði fyrir notendur. Svo hefir heldur ekki verið minst á stofngjaldið; það væri náttúrlega æskilegt, að það yrði sem lægst, og jafnvel hentugt fyrir fjelagið að hafa ekkert stofngjald, svo að það væri líklega rjett vegna hagsmuna væntanlegra sjerleyfishafa að fella niður þetta stofngjald, sem þeim er nú heimilað að leggja á.

Hæstv. ráðherra (MG) sagði, út af orðum mínum um skattskylduna, að þetta væri gróðafyrirtæki, að enginn mundi fara að gera þetta af eintómum mannkærleika. Jeg veit það ekki, en jeg get hugsað mjer, að menn vildu leggja fram fje í þetta með það fyrir augum að koma þessari menningarbót á, án þess að taka tillit til þess, hvort þeir græddu á því eða ekki. Við sjáum til dæmis, að herra Gook á Akureyri hefir fengið talsvert fje í gjöfum til þess að koma fyrirtæki sínu á stofn, svo að þar hafa menn verið fúsir til þess að leggja fje fram í þessu skyni, og getur verið, að það sje af mannkærleika, eins og hæstv. ráðherra (MG) orðaði það. (Atvrh. MG: Já, það er nú í sjerstöku augnamiði). Jeg sje ekki annað en að þeim innlendu mönnum, sem að þessu standa, detti ekki í hug að gera þetta í gróðaskyni, þó að þeir vilji sjálfsagt verða skaðlausir af því, heldur mest af áhuga fyrir því að koma þessari menningarbót á, enda mundi það líka illa þokkað, ef fjelagið, sem að þessu starfaði, hefði stórgróða af því.

Því, sem hæstv. ráðherra (MG) sagði fleira, þarf jeg víst ekki frekar að svara. Hv. 3. þm. Reykv. kom með flestar þær sömu athugasemdir og hæstv. ráðherra (MG), og hefi jeg svarað þeim flestum jöfnum höndum. Það hefir verið sagt, að í nöfnum þeirra manna, sem nefndir eru í frv., felist trygging fyrir því, að þetta fyrirtæki verði stofnað á heppilegum grundvelli. Jeg vil ekki neita því og jeg tel víst, að þeir fái leyfið, þó að heimildin sje ekki einskorðuð við nöfn, og þar með útilokað, að aðrir geti komið til greina; get jeg þar vísað til þess, sem áður hefir verið sagt þar um. Athugasemd hæstv. ráðherra (MG) viðvíkjandi því, hvers vegna stöðin eigi að vera svona sterk, hefi jeg svarað áður og sýnt fram á, að ekki væri hyggilegt fyrir landsmenn, ef allir ættu að hafa gagn af henni, að hún sje miklu minni en það, sem stungið hefir verið upp á, og eins og jeg sagði áður, er ekkert að miða við það um stöðvar í öðrum löndum, þó að þær sjeu ekki hafðar eins sterkar, þar sem ekki er við samskonar erfiðleika að stríða eins og í þessu hálenda landi.

Jeg held svo, að það hafi ekki verið fleira, sem komið hefir fram af athugasemdum. Jeg held, að till. nefndarinnar sjeu áreiðanlega til mikilla bóta og geri það tryggilegra fyrir landið, að stöðin komi að notum, ef þær verða samþyktar, og það er þó það, sem við fyrst og fremst verðum að hugsa um. Það er enginn að tala um að gera þeim mönnum, sem að málinu standa, neina sjerstaka erfiðleika, heldur aðeins að tryggja það, að ekki verði bygð hjer svo lítil stöð, sem aðeins geti náð til nágrennis Reykjavíkur, og kannske eitthvað til Suðurlandsundirlendisins, en hvorki til Austfjarða nje Vestfjarða, svo að þeir hlutar landsins verði útilokaðir frá að hafa nokkur not hennar, en það er jeg hræddur um að verði, ef fylgt er því, sem í frv. stendur.