04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3241 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

111. mál, útvarp

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil taka það fram, að ákvæðin í 2. tölulið frv. eru sett til þess að hafa ákvæðin um afl stöðvarinnar svo rúm sem verða má, ef hentugra þætti að hafa fleiri en eina stöð, og það yrði álitið of dýrt að varpa frá einni stöð út um alt landið.

Það hefir ekkert nýtt komið fram hjá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Eftir till. hans er alt óákveðið og leyfishafar geta þá frekar hamrað á stjórninni, að hún leyfi þeim að setja upp litla og ónóga stöð. Nefndin fór sem næst því, sem ætlað er, að þurfi til þess að stöðin dragi um alt landið, því samskonar stöðvar í Englandi draga svona langt, ef engar sjerstakar hindranir eru fyrir hendi. En þess ber að gæta, að stöðin verður að vera tiltölulega sterkari hjer sökum þess hve bjart er mikinn hluta ársins, og því erfitt að varpa út, eins og þeir menn munu geta skýrt frá, sem starfað hafa hjer við loftskeytastöðvar, bæði á skipum og í landi. Þess vegna er enn frekari ástæða til að leyfa stjórninni ekki að fara niður fyrir 1,1 kw.

Viðvíkjandi 2. brtt. hv. þm. (ÁÁ) er það að segja, að sú venja, að skip greiða ekki gjald af loftskeytatækjum sínum mun vera bygð á því, að skipin eru ekki staðbundin eins og móttökutækin í landi. Skipin fara milli margra landa og fá skeyti frá mörgum löndum; því ættu þau að greiða jafnt árgjald til stöðva í ýmsum löndum, ef þau greiddu nokkuð á annað borð. Íslensku togararnir fá t. d. oft betra samband við England en stöðina hjerna, og millilandaskipin okkar eru alt að helmingi ársins í útlöndum, og standa þá í sambandi við stöðvar þar. Þykist jeg vita, að það sje af þessu, að ekki er talin ástæða til að taka gjald af skipum.

Viðvíkjandi síðustu brtt. hv. þm. (ÁÁ) verð jeg að segja, að jeg sje enga ástæðu til að ganga lengra í því að gæta hags leyfishafa en þeir sjálfir fara fram á. Þeir hafa aðeins beðið um að fá að vera skattfrjálsir í 5 ár, og það er nóg að verða við því. Hinsvegar gæti jeg verið með því að fella klausuna um skattfrelsið alveg niður.