10.02.1925
Neðri deild: 3. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

1. mál, fjárlög 1926

Fjármálaráðherra (JÞ):

Frumvarp það til fjárlaga fyrir árið 1926, sem hjer liggur fyrir, er sniðið mjög mikið eftir fjárlögunum fyrir árið 1925, er afgreidd voru sem lög frá síðasta Alþingi. Heildarupphæðir frv. tekju- og gjaldamegin eru dálítið bærri en í fjárlögunum 1925, gjöldin í frv. tæplega 83/4 miljón, en í fjárlögunum 1925 eru þau rúmlega 81/4 miljón. Hækkun gjaldanna nemur 457 þús. kr. Ástæðurnar til hækkunarinnar eru tvær. Önnur sú, að þar sem heita má, að allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda, nema til viðhalds, sjeu niður feldar úr fjárlögunum 1925, þá hefir ekki þótt rjett að gera þetta með öllu í frumvarpinu fyrir 1926; eru þó engan veginn áætlaðar venjulegar eða fullkomnar framkvæmdir, heldur minkaðar að mun frá því, sem áður var og verða þarf aftur, þegar fjárhagurinn leyfir. Munu það vera um 288 þús. kr. af hækkuninni, sem stafa af þessu. Þær 170 þús. kr., sem þar eru fram yfir, stafa eingöngu af leiðrjettingum á of lágri áætlun bundinna eða lögmætra liða í fjárlögunum fyrir 1925, og eru stærstu upphæðirnar framlag til prestlaunasjóðs og laun barnakennara; þessa liði þurfti að hækka um 65 þús. kr. hvorn fyrir sig, til þess að áætlunin nægi fyrir útgjöldunum eins og ætla má að þau verði eftir núgildandi löggjöf. Að öðru leyti eru svo í frv. smávægilegar hækkanir og lækkanir móts við fjárlögin 1925, sem jafnast upp.

Tekjur eru í frumvarpinu áætlaðar sem næst jafnháar gjöldunum, tekjuafgangur einar 16 þús. kr. Hinsvegar vona jeg, að tekjnáætlunin sje gætileg, svo unt verði í reyndinni að fá einhvern afgang, ef engin óvænt óhöpp koma fyrir og ef Alþingi fylgir sömu stefnu um takmörkun útgjaldanna, sem síðasta þing tók upp og stjórnin hefir fylgt. Það er líka mjög nauðsynlegt að fá þannig tekjuafgang, því að í frumvarpinu er ekkert áætlað fyrir afborgunum af lausaskuldum, en þær verðum við þó að borga, og skal jeg síðar víkja að því.

Lagaákvæðin um dýrtíðaruppbót opinberra starfsmanna falla úr gildi í lok yfirstandandi árs, og hefði því máske verið formlega rjett að taka enga dýrtíðaruppbót í þetta frv. Stjórnin lítur nú svo á, að ekki geti komið til mála, að uppbótin falli burtu um næstu áramót, það sje óhjákvæmilegt að setja framhaldsákvæði í einhverri mynd um hana, og ef það verður gert, þá mundi þetta frv. gefa mjög skakka mynd af útgjöldunum, ef uppbótinni væri slept úr því. Varð því ofan á að taka hana í frumvarpið og áætla 60% uppbót á launum alt upp að 4500 kr., eftir sömu reglum, sem nú gilda, og er jafnframt lagt sjerstakt lagafrumvarp fyrir Alþingi um framhald dýrtíðaruppbótarinnar.

Af tekjulöggjöfinni falla lögin um 20% bráðabirgðaverðtoll af nokkrum aðfluttum vörutegundum úr gildi í lok þessa árs. Þessar tekjur mega þó ekki missast, og eru áætlaðar í fjárlagafrv. með 450 þús. kr., og er jafnframt lagt lagafrumvarp fyrir Alþingi um framlengingu á gildi verðtollslaganna til 1. apríl 1926, þannig, að næsta Alþingi geti þá tekið ákvörðun um frekari framlengingu, með breytingum, ef svo sýnist.

Til þess að útkoman á landsreikningi verði á sínum tíma eins góð, eða heldur betri, en áætlun fjárlaganna, þurfa tekjurnar að vera gætilega áætlaðar. En þó er það ekki nóg. Gjöldin þurfa líka að vera gætilega, þ. e. nægilega hátt, áætluð. Við samningu þessa frv. hefir verið reynt fyrst og fremst að áætla öll bundin gjöld með fullri upphæð, en bundin kalla jeg þau gjöld, sem samkvæmt lögum, samningum eða eðli málsins eru þannig ákvörðuð, að framkvæmdarvaldið getur ekki með ráðstöfunum sínum haft áhrif á þau til lækkunar. Hinsvegar getur verið varhugavert að hækka áætlanir um þau gjöld, sem ekki eru þannig bundin, þótt reynslan bendi til, að hækkunar þurfi, því að ef of langt er farið í því efni, gæti það máske dregið úr hvöt framkvæmdarvaldsins til sparsamlegrar meðferðar á landsfje. Slíkir liðir eru því ekki alstaðar í frv. hækkaðir eftir því, sem þeir áður hafa reynst.

Í samráði við hagstofustjóra hafa verið gerðar nokkrar breytingar á niðurröðun tekna og gjalda, til gleggri sundurliðunar, og er helsta nýungin sú, að gjaldamegin er tekin upp ný 17. grein og þar talin öll gjöld til almennrar styrktarstarfsemi, sem áður hafa verið talin hingað og þangað innan um óskyld útgjöld. Þó hefir tekist að halda að mestu þeirri greinaskiftingu í frv., sem venja undanfarinna ára er búin að festa.

Jeg skal svo, eins og venja er, gefa yfirlit yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs á nýliðna árinu, með þeim fyrirvara, að innborgunum og útborgunum ársins er ekki lokið, og geta því enn orðið nokkrar breytingar.

Svo sem yfirlit þetta ber með sjer, hafa tekjurnar farið 3 milj. kr. fram úr áætlun fjárlaganna. Þetta stafar að talsverðu leyti af tekjuaukalöggjöf síðasta Alþingis, sem gekk í gildi í byrjun annars ársfjórðungs 1924. Verðtollurinn er í yfirlitinu innifalinn í stimpilgjaldinu; nákvæm aðgreining á honum og gamla stimpilgjaldinu hefir ekki fengist, en líklega nemur verðtollurinn um 830 þúsund krónum. Þá er gengisviðaukinn, 25% af öllum aðflutningsgjöldum, vitagjaldi og fleira, og virðist nema um 670 þús. kr., og er það þá hálf önnur miljón kr. sem stafar frá nýnefndri tekjuaukalöggjöf. Af öðrum tekjuliðum hafa þessir farið mest fram úr áætlun:

Símatekjur 400 þús. kr. Útflutningsgjöld 260 þús. kr. Tóbakseinkasala 150 þús. kr. *) Vínfangatollur um 150 þús. kr. Aukatekjur 100 þús. kr. Stimpilgjöld 100 þús. kr. *)Vitagjöld 80 þús. kr. Pósttekjur 50 þús. kr.

Undir áætlun hafa orðið :

Tekju- og eignarskattur 200 þús kr. Tekjur af bönkum 80 þús. krónur.

Gjöld þau, sem sundurliðunin í yfirlitinu telur, hafa farið tæplega 1 miljón og 200 þús. fram úr áætlun fjárlaganna, og eru þar af 700 þús. kr. umframeyðslur á fjárlagaliðum, en 480 þús. krónur eru greiðslur samkvæmt öðrum heimildum. En þar að auki þykir mjer þörf að áætla um 170 þús. kr. í ofanálag fyrir ógreiddum gjöldum, sem ekki kynni að vera gert ráð fyrir í sundurliðuninni. Af gjaldaliðum fjárlaganna hafa þessir farið mest fram úr áætlun:

7. gr. Vextir af skuldum 357 þús. kr. 11. gr. B. Ýmisleg gjöld um 95 þús. kr. 12. gr. Læknaskipun og heilbrigðismál (þar í berklastyrkur 255 þús. kr. umfram áætlun, sem var 75 þús. kr.) 320 þús. kr. 14. gr. B. Kenslumál 80 þús. kr. 19. gr. Óviss gjöld og gengismunur 80 þús. kr.

Hjer við bætast svo þær greiðslur, sem alls ekki eru teknar upp í gjaldahæð fjárlaganna:

Til Eimskipafjelags Íslands 60 þús. kr. Greiðslur samkvæmt sjerstökum lögum:

Vegna hafnargerðar í Vestmannaeyjum 115 þús. kr. Flóaáveitan 98 þús. kr. Sektarfje landhelgissjóðs frá 1923 63 þús. kr. Húsagerð (Kleppsspítali) 30 þús. kr. Væntanleg fjáraukalög 41 þús. kr. Ýmislegt 71 þús. kr.

Þessar umframgreiðslur nema samtals um 1 milj. 410 þús. kr. Undir áætlun hafa orðið gjaldaliðirnir:

Afborganir fastra lána 94 þús. krónur. Landssíminn 115 þús. kr. Verkleg fyrirtæki 170 þús. kr., — en þó kunna einhver ótalin útgjöld að breyta þessu nokkuð.

Eftir því sem nú er unt að sjá, virðist þá muni verða tekjuafgangur árið 1924, er nemur 11/2 miljón króna. Af þessum tekjuafgangi hefir nú þegar verið greitt upp í lausaskuldir ríkissjóðs, þær er voru í árslok 1923, milli 600 og 700 þús. kr., en sá tekjuafgangur, sem þar er fram yfir, ætti þá á sínum tíma að koma fram sem aukning á sjóðseign um áramót. Slík aukning var öldungis nauðsynleg, því að sjóðurinn var orðinn svo lítill, að fyrri hluta ársins 1924 þurfti að taka talsverð skyndilán, sem svo voru borguð síðar á árinu. Vona jeg, að komist verði hjá slíkum lántökum á þessu ári.

Sjeu nú aðalupphæðir tekna og gjalda bornar saman við landsreikninginn fyrir 1923, kemur það í ljós, að tekjurnar 1924 eru sem næst alveg jafnar gjöldunum eins og þau voru 1923, rúmlega 11,1 milj. kr. Ef gjöldin hefðu orðið eins mikil 1924 og árinu áður, þá væri um engan tekjuafgang að ræða. En þau verða að því er sjeð verður rúmlega 9,6 milj. kr., eða 11/2 miljón lægri en gjöldin 1923, og það er tekjuafgangurinn. Hinsvegar samsvarar þessi tekjuafgangur líka sem allra næst þeirri upphæð, sem tekjuaukalöggjöf síðasta Alþingis hefir aflað ríkissjóði á árinu 1925, þar sem gengisviðaukinn og verðtollurinn hafa gefið samtals 1l/2 milj. kr. Án þessa tekjuauka væri ekki um neinn afgang að ræða, þrátt fyrir lækkun útgjaldanna.

Þá skal jeg minnast ofurlítið á afkomu liðna ársins, að því er tekur til fjármála og peningamála alment. Árið var veltiár, útfluttar vörur námu 80 milj. kr., og er það hærri upphæð en nokkru sinni fyr, bankarnir hafa losað sig úr 8 milj. kr. lausaskuldum erlendis og safnað rúmlega annari eins innieign þar, auk þess sem aðrir landsmenn hafa vafalaust grynt eitthvað á sínum erlendu skuldum. Margt stuðlaði að þessari hagstæðu útkomu, góðviðri á aðalvertíðinni, hagstæð veðrátta til fiskverkunar, mikil fiskiganga, fundur nýrra fiskimiða og dugnaður landsmanna til að nota sjer þetta.

Mjer telst svo til, að útflutt vörumagn alls hafi orðið 62% meira að vöxtum en árið 1914, og að vörumagnið á mann hafi orðið 45% meira en 1914. Alment er talið, að verðið á afurðum vörum hafi verið hátt og að hagstæð verslun eigi talsverðan þátt í góðri afkomu ársins; en þetta er misskilningur. Verðið á afurðum okkar hefir verið í lægra lagi, ef rjett er gefið upp til lögreglustjóranna. Jeg hefi athugað, að eftir verðlagi 1913–14 hefðu fengist um 32,3 milj. kr. fyrir hið útflutta vörumagn, en í reyndinni höfum við fengið um 43 miljónir gullkróna. Verðhækkunin á vörum okkar frá 1914 hefir þá verið úr 100 upp í 133 eða svo; en hin almenna verðhækkun á móti gulli í heiminum var meiri en þetta, líklega fullum 10% meiri, og er það útflytjendum vorum til athugunar, að betur má, ef vel skal vera, þótt miklu betur hafi tekist salan en næsta árið á undan. Að mönnum hefir fundist verðið hátt, stafar meðfram af sjónhverfingum lággengisins.

Gengi íslensku krónunnar var í byrjun ársins 53.8% af gullverði, lækkaði síðan fyrstu mánuði ársins og náði lágmarki 12. mars; var það þá 46.8% af gullgildi. Síðan hækkaði gengið, stóð í maí og júní nálægt 50% af gullverði, og hækkaði úr því jafnt og þjett upp í 63.1% af gullverði í árslok. Hækkunin hjelt einnig áfram eftir áramótin, og gengið er nú um 65.4% af gullverði. Auðvitað er það hin mikla framleiðsla, samfara hagstæðari verslun en undanfarin ár, sem hefir gert þessa hækkun mögulega, en að hækkunin hefir gengið jafnt og rólega, án þess að gengið sveiflaðist upp og niður, er að minsta kosti að talsverðu leyti að þakka starfi nefndar þeirrar, gengisnefndarinnar, sem skipuð var á miðju árinu samkvæmt ákvörðun laganna um gengisskráningu og galdeyrisverslun frá 4. júní f. á. Vegna þess, hve gengið var lágt allan fyrri hluta ársins, hefir meðalgengi peninga vorra yfir árið í heild ekki verið nema hjer um bil 53% af gullverði, og hefir meðalgengið ekki orðið svo lágt nokkurt undanfarið ár; hafði t. d. verið um 59% árið 1923.

Í sambandi við gengi peninganna þykir mjer rjett að gera grein fyrir seðlaútgáfu bankanna á árinu og afskiftum stjórnarinnar af henni. Í ársbyrjun voru seðlar í umferð frá báðum bönkunum tæpar 6 milj. kr., og 1. apríl var upphæðin komin niður í 51/4 milj. kr., hvorttveggja lægra en verið hafði nokkru sinni á sama tíma árs síðan 1918. Hinn 1. júlí var veltan komin upp í 6.4 milj. kr., og var þetta líka lægra en verið hafði á sama tíma síðan 1918. Eftir gildandi lögum átti Íslandsbanki að draga inn 1 milj. kr. af seðlum sínum fyrir 31. okt., en 30. júní skrifaði bankastjórnin ráðuneytinu og benti á, að gjaldmiðilsþörfin mundi ekki leyfa þennan inndrátt án þess að aðrir seðlar væru gefnir út í staðinn, og að vegna hækkandi verðlags mundi þurfa þar til viðbótar aðra miljón, og lagði til, að ríkisstjórnin hlutaðist til um, að Landsbankinn setti í umferð samtals 2 milj. kr. samkvæmt heimild í lögum nr. 7, frá 4. maí 1922. Um þetta var leitað álits stjórnar Landsbankans, og taldi hún í svari sínu 12. júlí eigi mögulegt að framkvæma lögmæltan seðlainndrátt án stórfeldrar röskunar á atvinnulífi þjóðarinnar, en leggur hinsvegar mikla áherslu á, að seðlaútgáfan sje takmörkuð svo freklega sem unt er, og þess vegna haft aðhald sem mest má verða. Eftir tillögu þessarar bankastjórnar var svo Landsbankanum, með brjefi 17. júlí, heimilað að setja í umferð 11/2 milj. kr. í seðlum, en báðum bönkunum tilkynt, að ráðuneytið legði „áherslu á það, að hvorugur bankinn noti aukningu seðlamagnsins til aukinna útlána í neinni mynd, og að stjórnir beggja bankanna geri alt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að draga inn sem mest af umferðaseðlunum í haust, þegar gjaldmiðilsþörfin væntanlega fer að minka.“

Þessi aukning reyndist ónóg. Ýmist eftir beinni beiðni Landsbankans eða eftir meðmælum frá honum, var honum með sömu skilyrðum heimilað að gefa út til viðbótar:

30. sept. 1 milj. kr.

7. okt. 1/2 milj. kr.

31. okt. 3/4 milj. kr.

Samtals var þá búið að gera ráðstafanir til að setja í umferð 33/4 milj. kr. umfram þær 6 milj. er Íslandsbanki mátti hafa úti eftir 31. okt., og gömlu Landsbankaseðlana 3/4 milj. kr., eða seðlaveltan var komin alt að 101/2 milj. króna. Samkvæmt skýrslum bankanna hefir seðlaveltan í heild verið á mánaðamótum:

30. sept. 1924 9 milj. 979 þús.

31. okt. 1924 10 milj. 15 þús.

30. nóv. 1924 8 milj. 984 þús.

31. des. 1924 8 milj. 621 þús.

31. jan. 1925 8 milj. 295 þús.

Hámarki náði seðlaveltan í nóvember snemma, komst upp í 101/4 milj. kr., og mun aldrei áður hafa orðið eins mikil, nema haustin 1919 og 1920.

Þessi mikla aukning seðlaveltunnar var auðvitað mjög varhugaverð, og ráðuneytinu var það ljóst, að skylt var að neyta allra ráða til þess að sporna móti henni. Ástæðan fyrir seðlaþörf bankanna haustmánuðina var yfirleitt ávalt ein og hin sama, nefnilega kaup þeirra á erlendum gjaldeyri. Þeir hafa á liðna árinu keypt erlendan gjaldeyri fyrir eitthvað 17 milj. kr. umfram það, er þeir seldu. Þennan mismun urðu þeir að borga með íslenskum krónum. Nokkuð greiddu þeir með skuldajöfnuði við seljendur; þar að auki gátu þeir notað afborganir, sem þeim guldust frá öðrum hjerlendum skuldunautum. En þetta reyndist ekki nóg, seðlaaukningu þurfti til viðbótar. — Sú spurning liggur nærri, hvernig farið hefði, ef neitað hefði verið um seðlana, og svarið liggur í augum uppi. Þá hefðu þeir orðið að hætta að kaupa þann erlenda gjaldeyri, sem bauðst; verð hans hefði hríðfallið í bili, meðan framboðið var mest, en hækkað síðan aftur. Ef neitað hefði verið að nokkru eða öllu um þær 21/4 milj., sem heimilaðar voru á einum mánuði. frá 30. sept. til 31. okt., einmitt þegar útflutningur og sala á aðalafurðum landbúnaðarins var að byrja, þá hefði þar af leitt stórkostlegt verðfall á einmitt þeim erlenda gjaldeyri, sem fjekst, fyrir þessar afurðir, og þar með óverðskuldað stórkostlegt tap fyrir landbúnaðinn. Undir þessum kringumstæðum varð ráðuneytið að telja sjer skylt að heimila þá seðlaútgáfu, sem þurfti til þess að bankarnir gætu haldið erlenda gjaldeyrinum í því verði, sem gengisnefndin skráði.

Þetta er í eðli sínu alveg hið sama sem að leyfa seðlabanka á venjulegum tímum að gefa út seðla til að kaupa fyrir þá gull, og það er jafnan talið sjálfsagt. En hitt væri alveg óleyfilegt, að prenta seðla til þess að lána þá út. Slíkt leiðir beint út í verðfall peninganna. Og þegar svona stendur á, að óvenjumikla seðla hefir þurft að láta úti vegna kaupa á gulli eða erlendum gjaldeyri, þá er ekki nóg að hefta útlánin meðan seðlaveltan er að aukast; það verður að hefta þau þangað til svo mikið er inn komið af seðlunum aftur, að seðlaveltan þykir hæfileg. Slík útlánahöft eru ekki annáð en brýn og óhjákvæmileg ráðstöfun til þess að halda uppi genginu, eða gildi peninganna.

Þetta hefir bæði bönkunum, gjaldeyrisnefndinni og stjórninni verið ljóst. Bankarnir sendu út aðvörun til skiftavina sinna um aðhald í ráðstöfunum, og ráðuneytið sendi, eftir beiðni gjaldeyrisnefndarinnar, áskoranir í sömu átt til allra sparisjóða og sveitarstjórna. Seðlaveltan hefir líka farið minkandi seinustu mánuðina, en þó er hún enn þá svo mikil, meira en þriðjungi hærri en í fyrra á sama tíma, að full ástæða er til að fara varlega.

Jeg hefi viljað skýra nokkuð ítarlega frá þessu, bæði vegna þess, að málið er í sjálfu sjer svo mikilsvert, og vegna þess, að stjórnin hefir orðið fyrir dálitlu aðkasti út af því, að hún vildi ekki um mánaðamótin okt.–nóv., þegar seðlaveltan var sem allra hæst, neyða Landsbankann til að byrja á lánveitingum samkv. lögum frá 4. júní f. á., um stofnun búnaðarlánadeildar. Þessi lánadeild tók svo til starfa jafnskjótt og inndrætti seðla var svo langt komið, að með nokkru móti þótti forsvaranlegt að hvetja til þess, að nokkur bankalán yrðu veitt, og það var ekki fyr en um síðustu mánaðamót.

Þá læt jeg útrætt um liðna árið að sinni og sný mjer að þeim viðfangsefnum, sem fram undan eru. Skal jeg þá fyrst drepa lítið eitt á almennar horfur.

Það er almenn reynsla, að góðæri freistar manna til ýmiskonar áræða og framkvæmda, jafnvel til ljettúðar og eyðslu. Sagan sýnir greinilega, að góðæri í fjármálum, eða hækkandi hagsveifla, stendur aldrei nema örfá ár í senn, og endar með fjárkreppu, sem verður því harðari og skaðvænni fyrir atvinnulífið, sem menn hafa verið örari til áræðanna og ljettúðugri á uppgangsárunum. Þessu lögmáli lútum vjer eins og aðrir. Á rólegum tímum virðist hækkun hagsveiflunnar, eða góðæri í fjármálum, geta staðið yfir í 3 til 5 ár, en á umbrotatímum vilja sveiflurnar verða tíðari og styttri. Er skemst á að minnast, að síðasti uppgangstíminn hjá oss stóð ekki nema rúmlega eitt ár, 1919, og á eftir kom sú fjárkreppa og það hrun, sem vjer höfum ekki yfirstigið til fulls ennþá. Vjer megum nú ekki við því, að sá uppgangstími, sem byrjaði snemma á síðastliðnu ári, endi með neinu hruni. Framkvæmdamennirnir í landinu verða að hafa glöggar gætur á því að ráðast nú ekki í annað eða meira en það, sem þeir geta af eigin efnum fleytt yfir næstu fjárkreppuna, þegar hún kemur.

Auk hinnar almennu vitneskju um það, að sjerhver uppgangstími endar með fjárkreppu, eru í þetta sinn tvær sjerstakar ástæður fyrir hendi, sem gera það knýjandi nauðsynlegt að viðhafa mestu gætni. Önnur er sú, að vegna undangenginna breytinga á peningagildinu er jafnvægið milli tilkostnaðar og afrakstrar við atvinnuvegi landsmanna sem stendur alveg gengið úr skorðum. Með öðrum orðum, vegna undanfarinnar hækkunar á íslensku krónunni hefir verðið á afurðum landsmanna að krónutali lækkað hlutfallslega, en tilkostnaður innanlands við öflun afurðanna stendur enn þá í því háa krónutali, sem samsvaraði lággenginu fyrri hluta árs 1924. Meðan þetta stendur svo, er tap á atvinnurekstrinum alveg yfirvofandi, ef nokkuð ber út af um afurðamagn eða afurðasölu. Vona má, að þessi jafnvægisröskun lagfærist með tímanum á þann hátt, að tilkostnaðurinn lækki að krónutali, og lagi sig þar með eftir hinu hækkaða peningagildi, en ógætileg aukning eða útfærsla á atvinnurekstrinum tefur fyrir lagfæringunni. Hin sjerstaka ástæðan, sem nú knýr til þess að fara gætilega, er óvissan um gildi peninganna eða gengi þeirra á komandi árum. Ef gengi íslensku krónunnar heldur áfram að hækka, þá má búast við, að röskunin á jafnvæginu milli tilkostnaðar og afrakstrar haldi áfram að endurtaka sig hvað eftir annað, jafnvel þó lagfæringu verði náð um stundarsakir.

Aðvaranir bankanna, gengisnefndarinnar og stjórnarinnar hafa naumast verið teknar nægilega til greina. Einhver aukning á fiskiflota landsmanna var sjálfsögð eftir svona veltiár, en aukningin á togaraflotanum sýnist vera ógætilega mikil, þó vona megi, að fram úr rætist.

Þá skal jeg loks víkja nokkrum orðum að horfunum um fjárhag ríkissjóðs og um stefnu þá í fjármálum ríkisins, sem jeg tel, að vjer eigum að fylgja næstu árin. Að nokkru leyti er þessi stefna þegar ákveðin af þjóðinni með úrslitum síðustu kosninga, og af þessu Alþingi, sem fram gekk af þeim kosningum. — Í fyrra, á fyrsta þinginu eftir kosningarnar, var sú stefna tekin afdráttarlaust og ágreiningslaust milli þingflokkanna, að stöðva tekjuhallann, að sjá um, að gjöld ríkissjóðs færu ekki fram úr tekjum. Jeg þykist vita, að engin hætta sje á, að hvikað verði frá þessari braut. En spurningin, sem úr þarf að leysa, er þessi: Hvað á að gera við skuldirnar, og fyrst og fremst lausaskuldirnar ?

Í landsreikningnum fyrir 1923 má sjá, að skuldir ríkissjóðs eru í lok þess árs taldar rúml. 18 milj. og 62 þús. kr., og eru þá danskar krónur taldar án gengismunar og sterlingspund ekki með fullum gengismun þeim, sem nú er. Síðan sá LR var saminn, hefi jeg þó fundið tvær skuldir, sem jeg vissi ekki um áður, og veit ekki til, að nokkurntíma hafi verið taldar í LR; önnur í dönskum krónum, um 135 þús., tilheyrandi Vífilsstaðahælinu, en hin í íslenskum krónum, smáskuld til jarðeldasjóðs, tilheyrandi Eiðaeigninni, hvorttveggja samningsbundin lán. Af allri skuldaupphæðinni eru í LR um 41/4 milj. taldar lausaskuldir, en þar við ber að bæta einni af þeim upphæðum, sem taldar eru með fastaskuldum, en það er 1/2 milj. kr. til Landsbankans, sem upphaflega var samningsbundin skuld, en er fallin í gjalddaga fyrir nokkrum árum, án þess að afborganir hafi farið fram eða nýr samningur verið gerður. Lausaskuldirnar voru því í reyndinni 43/4 milj. kr. Þar af má telja samkvæmt framanskráðu, að greiddar hafi verið á árinu 1924 upp undir 3/4 milj. kr., og eru þá fullar 4 milj. eftir.

Nú er um tvent að velja: Annaðhvort að reyna að borga þessar lausaskuldir á stuttum tíma, 3–4 árum, eða breyta þeim í samningsbundin afborgunarlán. Það væri ef til vill unt að fá talsverðu af þeim breytt í 15 til 20 ára lán með 61/2 til 7% vöxtum. Jeg ræð eindregið til að fara hina leiðina, reyna að greiða þetta á fám árum, og jeg held, að það verði mögulegt, ef engin stórfeld óhöpp koma fyrir. En það kostar talsverða sjálfsafneitun, því að verklegar framkvæmdir ríkissjóðs verða af skornum skamti á meðan.

Í mínum augum mæla margar mikilvægar ástæður með því að reyna að greiða lausaskuldirnar á stuttum tíma. Fyrst sú, að meðan útgjöldin í 7. grein fjárlaganna. vextir og afborganir lána, gleypa 1/4 allra tekna ríkissjóðs, þá verður hvort sem er ávalt mjög erfitt að hafa nokkurn afgang til verklegra framkvæmda. Ef lausaskuldirnar væru festar með lántöku til lengri tíma, þá mundi bætast við núverandi útgjöld 7. greinar afborgun þeirra, 200 til 300 þús. kr. árlega, og greinin halda áfram að vera afskaplega þungur baggi um langt áraskeið. Önnur ástæðan er sú, að mest af þessum lausaskuldum er í dönskum og íslenskum krónum, en báðar eru sem stendur ekki nema um af gullvirði. Þær geta hækkað, enginn getur fortekið nema þar komist upp í gullverð, en því meir sem þær hækka, því meira raunverulegt verðmæti þarf skuldunauturinn (ríkissjóður) að láta af hendi til greiðslu vaxta og höfuðstóls. — Mjer finst sjálfsagt fyrir ríkissjóðinn, eins og fyrir aðra skuldunauta yfirleitt, að nota sjer lággengið, eftir því sem getan leyfir, til þess að greiða skuldir sínar með raunverulegum afföllum. Þriðja ástæðan er sú, að slík skuldagreiðsla er sú besta aðstoð, sem unt er að láta peningastofnunum og þeim atvinnuvegum. er lánsfje nota, í tje á þeim erfiðu árum, sem búast má við, að nú sjeu framundan. Við skuldagreiðsluna, einkum innlendu skuldanna, losnar fjármagnið, verður handbæri til útlána, atvinnuvegunum til eflingar.

Vjer skulum þá hugsa oss, að lausaskuldirnar yrðu greiddar á þrem árum, þær væru úr sögunni í árslok 1927. Þá er að athuga, hver breyting verður á samningsbundnu skuldunum á þessu tímabili. Fyrsta íslenska ríkisskuldin, símalánið frá 1908, var borguð upp á síðasta ári. Á næstu þrem árum eiga þessi lán að hverfa, af þeim sem talin eru í LR 1923:

Upphæð í árslok Árleg afborgun.

1923.

Lán hjá dönskum bönkum 1912 133333 33333

Skipakaupalán í Handelsbanken 825000 200000

Íslandsbankalán frá 1918 500000 100000

Reikningslega tilheyra síðustu greiðslurnar af tveim síðastnefndu lánunum, samtals 125 þús. kr., árinu 1928, en falla báðar í gjalddaga 2. janúar, og verður því í reyndinni að greiða þær af tekjum ársins 1927. Þannig lækka afborganir fastra lána samkv. 7. gr. á þessum tímamótum um 1/3 milj. kr. Jafnframt ber oss að greiða um miljón kr. árlega í afborganir af öðrum fastaskuldum, og telst mjer svo til, að í árslok 1927 muni eftirstöðvar þeirra nema tæpum 10 milj. kr., og mest af því eru lán með lágum vöxtum, svo að gjöldin í 7. gr., afborganir og vextir af lánum, ættu úr því ekki að verða hærri en hjer um bil 1 milj. kr. árlega, eða um helmingur þess, sem nú er. Þar sem vjer þá jafnframt værum losnaðir við greiðslurnar af lausaskuldunum, mundi árlegur útgjaldaljettir nema fullum 2 milj. kr., sem verja má eftir því sem ástandið þá útheimtir, annaðhvort til hækkunar á sköttum eða til aukningar á framkvæmdum, eða að nokkru til hvors fyrir sig.

Er þessi greiðsla lausaskuldanna á þrem árum þá ekki of þungbær? Það er hún ekki, ef bærilega árar. Ekki þarf annað en að halda tekjum og gjöldum í svipuðu horfi og síðastliðið ár. Tekjuafgangur eins og var 1924 borgar lausaskuldirnar að fullu á þrem árum.

Það er skoðun stjórnarinnar, að vjer eigum að setja oss það ákveðna mark, að borga lausaskuldirnar að fullu á þessum þrem árum. Auðna ræður, hvort það tekst að ná markinu, en hugur háttvirtra þingmanna ræður hálfum sigri í slíku máli; því má ekki gleyma.

Eitt af því fáa úr nútíðarstarfsemi Íslendinga, sem verulega vakti athygli erlendra manna, var það, að vjer bjuggum skuldlaust. Vjer vorum „ríkið án ríkisskulda“, og fyrir þetta öfunduðu útlendingarnir okkur og mikilsvirtu okkur, hvenær sem á það var minst. Eftir styrjöldina miklu stynur nú öll Norðurálfan undir óbærilegri byrði ríkisskulda, og einnig oss hefir hrakið æðilangt úr þeirri hollu stefnu, sem áður var haldin. Þó eru ríkisskuldirnar ekki orðnar oss nálægt því önnur eins sligunarbyrði og flestum hinum ríkjunum; þær eru ekki meiri en svo, að með öflugu átaki getum vjer hrist þær af oss. Fyrirmynda í starfsemi vorri eigum vjer að leita oss þar, sem þær eru bestar, og í þessu efni finnum vjer enga fyrirmynd betri en fjármálastjórn vors eigin lands eins og hún var fram að styrjöldinni miklu.