24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Á þinginu í fyrra bar jeg ásamt öðrum manni fram þáltill. um að skora á landsstjórnina að hefta innflutning útlendra verkamanna. Kom okkur saman um, að slík þingsályktun mundi nægja sem heimild fyrir stjórnina. Hæstv. stjórn mun að því er virðist hafa verið á sama máli, því að bæði hreyfði hún hvorki andmælum nje viðvörun um, að þingsályktun væri ekki nægileg, og eins hefi jeg heyrt, að hæstv. stjórn hafi síðar heimilað Krossanesverksmiðjunni innflutning takmarkaðrar tölu verkamanna. Sýnir það, að hún hefir litið svo á, að heimild sje til þess í lögum að gefa út reglugerð um þetta efni, eins og þáltill. fór fram á. Framkvæmdastjórinn gerði ráð fyrir því, að hann yrði að sækja um leyfi til að hafa útlenda verkamenn, því að hann hefir búist við reglugerð. En þegar engin reglugerð kom út, hefir hann þóst laus allra mála. Og þegar útlendingar eru komnir hingað, er erfitt að gera þá afturreka. Þess vegna verð jeg að álíta, að sökin í þessu máli liggi ekki hjá framkvæmdarstjóranum í Krossanesi, heldur hjá hæstv. stjórn. Um eitt af þrennu hefir hún gert sig seka:

1. Að vekja ekki athygli þingsins á því í fyrra, að þál. nægði ekki, heldur þyrfti ný lög.

2. Að vanrækja að gefa út reglugerð.

3. Að leggja ekki fyrir þingið nú frv. til laga um þetta efni, fyrst hún komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri hægt að gefa út reglugerð.

Deildin fylgdi þál. í fyrra alveg óskift. Sterkur þingvilji stóð því að baki. Hæstv. forsrh. (JM) hefir sagt, að þetta mál þyrfti mikinn undirbúning. Hæstv. stjórn hefði því fremur átt að finna til þess sem sinnar skyldu að leggja frv. um atvinnuleyfi útlendinga fyrir þetta þing.

Í umræðum hjer í dag hefir því verið beint til Framsóknarflokksins, að hann hafi verið móti því, að Krossanesmálið væri rannsakað eftir landslögum og málavöxtum. Þannig á þá að nota dagskrá hv. þm. Dala.! Í orðum hæstv. atvrh. (MG) lá það, að Framsóknarflokkurinn og þeir, sem greiddu atkv. móti dagskránni, sjeu því mótfallnir, að kærur, sem koma kynnu fram, væru teknar til greina. Ætlar stjórnarflokkurinn kannske að halda því fram, að hæstv. stjórn hafi engar skyldur framar í þessu máli, hvaða kærur, sem yfir kunna að dynja, þar sem dagskráin var feld og engin áskorun samþykt til stjórnarinnar? Það væri rökrjett ályktun af þeirri fullyrðingu hæstv. ráðherra, að helmingur þingd. hafi greitt atkvæði móti því, að með málið væri farið „að landslögum og eftir málavöxtum“. En það munu víst fæstir taka þá ásökun alvarlega. Dagskráin var bæði fávísleg og hættuleg. Dagskráin var fávísleg að þessu leyti, að í henni fólst yfirlýsing um, að deildin treysti því, að stjórnin myndi sinna lögmætum kærum. En hún var hættuleg að því leyti, að þar var gert ráð fyrir, að dómsmálastjórnin eigi ekkert frumkvæði að eiga um þetta mál — og þá sennilega ekki um önnur heldur. Það væri stórhættuleg meginregla, að dómsmálaráðherra eigi að vera daufur og blindur nema til hans sje kallað, að nú skuli hann opna augu og eyru. Það er sjálfsagður hlutur, að rjettvísin eigi oftlega frumkvæði án þess að nokkrar formlegar kærur sjeu fram komnar. Ef maður er myrtur, dettur vitanlega engum í hng, að rjettvísin eigi að daufheyrast, þar til einhver kæra kemur. Og svo er og um flest mál, sem marga varða — eins og t. d. þetta Krossanesmál — og kalla má opinber. Jeg minnist þess, að fyrir nokkrum árum var prestur nokkur borinn þungum sökum í blaðagrein. Dómsmálaráðherra skipaði þegar fyrir um, að sakamálsrannsókn skyldi fram fara. Það eru fleiri en þessar þrjár leiðir, sem hæstv. forsrh. (JM) gat um, sem eiga að liggja inn í hugskot dómsmálaráðherra. Hann á að hafa fimm skilningarvit, rjett eins og aðrir menn. Hann á að sjá og heyra sem dómsmálaráðherra, engu síður en sem Jón Magnússon. Og þegar háværar ásakanir á mannfundum og í blöðum koma fram — kemst hann ekki hjá því að taka ákvörðun sem dómsmálaráðherra, þó að ákærurnar hafi borist honum inn um eyru og augu — en ekki hinar þrjár „autoriseruðu“ leiðir, er hann gat um. Það verður vitanlega altaf „conduitéspursmál“ hvenær honum og undirmönnum hans ber að nota rannsóknar eða ákæruvaldið ex officio. En hann kemst þráfaldlega ekki hjá því — og á ekki að komast hjá því — að taka ákvörðun sem dómsmálaráðherra, þó að engar formlegar ákærur berist. Þess vegna greiddi Framsókn atkv. á móti dagskránni. Hún var sumpart fávísleg, sumpart hættuleg.

Krossanesmálið var þannig afgreitt fyrir tilstilli hæstv. stjórnar, að það hlýtur að verða eldhúsdagsmál. Tveir ráðherrarnir báru þær sakir á fylgismenn þáltill., að þeir væru „að mölva æru erlends manns til að geta vegið að stjórninni“, eins og annar sagði, eða „ofurselja æru útlendings til að ná til stjórnarinnar“. Þriðji ráðherrann lagði svo ríka áherslu á það, hversu alvarleg sakamálsrannsókn væri, að helst leit út fyrir, að hann krefðist, að vissa væri fyrir, að maður reyndist sannur að sök, þá er sakamálsrannsókn væri hafin.

Það er ekki rannsóknin sjálf, sem er hættuleg, — og að dómi bestu lögfræðinga er rannsókn ekki móðgun við neinn mann, enda þarf ekki nema heilbrigða skynsemi til að sjá það, — heldur er það niðurstaðan, sem getur orðið hættuleg. Sama var um þáltill., hún var engin móðgun við hæstv. stjórn, en niðurstaðan gat orðið hættuleg. En þótt þáltill. hefði verið samþykt, þurfti hæstv. stjórn ekkert að óttast, ef hún hefði verið sannfærð um ágæti síns málstaðar.

Því valdi, sem dómsmálaráðherra hefir til þess að skipa fyrir um sakamálsrannsóknir, má misbeita á tvennan hátt, annaðhvort með því að fara gálauslega með það, eða þá að beita því of slælega. Jeg hygg, að flestir geti orðið sammála um það, að ef ískyggilegt mál er ekki rannsakað nákvæmlega, þá sje valdinu beitt slælega. Og það er hættulegt, ef sú tilfinning kemst inn hjá mönnum, að rjettvísin dragi sig í hlje af einhverjum óskjljanlegum orsökum.

Þó að stjórninni tækist að gera Krossanesmálið að flokksmáli hjer á þingi, var það ekki og er ekki flokksmál, hvorki hjer í Reykjavík nje annarsstaðar á landinu, þar sem jeg þekki til. Jeg get í þessu sambandi bent á till., sem samþykt var á þingmálafundi í einu íhaldskjördæminu, það var í Vestmannaeyjum, og borin fram að sýslumanni Eyjanna, svo að ekki er það, sem þar hefir ráðið, að þeir, sem till. fluttu eða samþyktu, hafi hjer viljað „fótum troða æru útlends manns, til þess að geta vegið að stjórninni.“ eins og tveir ráðherrarnir hafa komist að orði. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fundurinn skorar á Alþingi að krefjast nákvæmrar skýrslu af stjórninni um hið svonefnda Krossanesmál, og ef fullnægjandi upplýsingar eru ekki gefnar, er rjettlæti framkomu stjórnarinnar í því, að það þá geri það í málinu, sem skýrsla stjórnarinnar gefur tilefni til.“

Tillaga þessi er borin fram af Kristjáni Linnet sýslumanni, og samþykt með öllum þorra atkv. gegn þremur. Fleiri dæmi held jeg, að ekki þurfi að benda á. Þetta var ekki flokksmál áður en stjórnin tók það óheppilega ráð að gera það að „kabinet“-spursmáli. En nú mætti náttúrlega taka þetta mál upp aftur. Það kann að vera, að hæstv. stjórn hafi líkað það illa, að nefndina átti að skipa samkv. stjórnarskránni, og skal jeg að vissu leyti virða henni það til vorkunnar. Jeg hefði fyrir mitt leyti eins sætt mig við, að einhver föst þingnefnd hefði rannsakað þetta mál, og nú vil jeg spyrja hæstv. stjórn, hvort hún mundi ekki sætta sig við það, ef nú kæmi fram till. um að vísa þessu máli til þingnefndar, án þess að gera það að „kabinet“-spursmáli, hvort till. kæmist í nefnd eða ekki. Þá þætti mjer fullformlega frá þessu máli gengið hjer á þingi, ef stjórnin vildi lýsa yfir þessu, og þá væri komist framhjá því skeri, sem hæstv. stjórn virtist hræddust við. Jeg skal geta þess, að það er ekki eftir samkomulagi við minn flokk, að jeg kem fram með þessa fyrirspurn, heldur af því, að mjer virðist þetta sanngjörn leið, og það er einmitt í samræmi við þá till., sem jeg las upp áðan úr íhaldskjördæminu. Þessi rannsókn, sem beðið var um, fjekst nú ekki, en í stað þess fengum við, sem fylgdum henni, það framan í okkur, að við værum að tosa ærunni af útlendum manni, og er þó öllum ljóst, að við Framsóknarmenn, og aðrir, sem till. fylgdu, höfum ekkert vald yfir æru manna, hvorki útlendra nje innlendra. Æra manna er hvít eða svört án okkar tilverknaðar. Því er fleygt framan í okkur, að við sjeum að sverta mann, þótt ekki sje annað gert en að flytja fram þær háværu kvartanir, sem komið hafa víðsvegar af landinu og í fjölda blaða. Afleiðingin af því, ef þessi till. okkar hefði náð samþykki, hefði í versta lagi orðið sú, að sakamálsrannsókn hefði verið fyrirskipuð á þennan mann, og ef æra hans er hrein í þessu efni, þá hefði það orðið lýðum ljóst og maðurinn staðið rjettari eftir en áður, en ef æra hans er svört, þá hefði þetta orðið honum til áfellis, og vafalaust stjórninni líka, vegna afskifta hennar af málinu. Ef það hefði orðið uppi á teningunum, þá á svo að vera. Það erum ekki við, sem tosum í æru þessa manns; það er rannsóknin, sem á að sýna, hvernig hún er. Önnur afskifti eiga þingflokkarnir ekki að hafa af þessu máli, og það er skylda þingflokkanna að taka svo á þessu máli. Dómsmálaráðherrann er að vísu æðsti maður á sínu sviði, en yfir honum er þó þingið, og gagnvart þinginu á hann að standa reikningsskap, gagnvart flokki sínum og andstæðingum, og svo er það í löndum, sem hafa þá stjórnarskipun, sem land vort, að þar stafar aðhaldið aðallega frá stjórnarandstæðingum, og er stjórnarandstaðan því ein af höfuðtryggingum þjóðfjelagsins. Því er það, að ef við Framsóknarmenn hefðum ekki borið fram þessa till., þá hefðum við brugðist okkar „oppositions“-skyldu, þótt það sje sagt um okkur, að við sjeum að tosa ærunni af útlendum manni. Það mætti þá alveg eins segja um lögfræðinga, að þeir tosi æruna af mönnum fyrir fáeina aura í málaflutningi sínum. Þingið hefir skyldur í þessu máli, alveg eins og rjettvísin, því að þingið hefir með höndum yfirstjórn rjettvísinnar í landinu. En þessu máli er að svo komnu lokið, því að rannsókn fjekst ekki. Stjórnin gerði þetta mál að „kabinet“- spursmáli, og með því fjekk hún því framgengt, að ekki voru greidd atkv. um till. sjálfa, heldur um traust eða vantraust á stjórnina. Jeg efast ekki um, að sumir hv. þm., sem greiddu atkv. móti till., hefðu, ef þeir hefðu verið óbundnir, greitt atkv. með till. Upp úr þessu hafði stjórnin það, að það vantraust, sem hún vildi ekki fá, er felt með 14:14 atkv., en þá vaknar önnur spurning: Ætlar hæstv. stjórn að láta sjer nægja það, að geta felt vantraust; gerir hún ekki hærri kröfur í þinginu um fylgi við sig og sín mál en að geta felt vantraust? Eða ætlar stjórnin að sýna þann manndóm að æskja eftir traustsyfirlýsingu síðar á þinginu, eða þá, sem ákjósanlegast væri: ætlar stjórnin að dæma traust sitt eftir því, hvernig frv. hennar verður tekið í þinginu? Jeg vil spyrja stjórnina um þetta, ef mörg frv. hennar verða feld eða vísað til hennar aftur, eða ekki afgreidd, ætlar hún þá að fara, eða eins og sjálfsagðast er, þegar enginn flokkur getur myndað sterka stjórn, ætlar hún þá að rjúfa þing og leggja fyrir þjóðina áhugamál sín, sem hún fær ekki samþykt? Það væri samboðið þingræðisstjórn og holt fyrir stjórnmálalíf þjóðarinnar. Ef ástæða var til að taka svo í Krossanestill., að gera hana annaðhvort að trausti eða vantrausti, væri þá ekki rjettara að láta slík ummæli fylgja þeim frv., sem stjórnin ber fram? Væri ekki sæmilegra að óska þess trausts, sem liggur í fylgi við áhugamál stjórnarinnar, en að heimta, að felt sje það „vantraust“, sem liggur í ósk þings og þjóðar um rannsókn á ískyggilegu máli? í Englandi er það t. d. svo, að stjórnin gerir öll sín frv. að fráfararatriði; má segja, að alt fram að stjórn McDonalds hafi stjórnir þar gert þetta, og það mætti ekki minna vera en að „parlamentarisminn“ væri svo sterkur hjer, að stjórnin gerði eitthvað af sínum helstu málum að fráfararatriði. Það væri ein af þeim mestu umbótum, sem hægt væri að gera á stjórnarfarinu í okkar landi, að stjórnin legði svo mikla áherslu á helstu mál sín. Strit hinna síðustu ára við að sitja ætti að hverfa úr íslenskum stjórnmálinn. Jeg vildi t. d. nefna eitt aðalmál hæstv. stjórnar, frv. það, sem hún hefir borið fram um ríkislögreglu. Ætlar hæstv. stjórn að gera það mál að fráfararatriði ? Jeg skal fúslega viðurkenna það, að stjórnin virðist ekki halda frv. fram í sinni upphaflegu mynd. En þingið hefir ekki ástæðu til að halda annað en að stjórnin haldi mjög ákveðið fram þeirri till., sem kom fram í framsöguræðu hæstv. forsrh., um 100 manna sveit í Reykjavík og smásveitir úti um landið. Ætlar stjórnin þá ekki að leggja mikla áherslu á, að sú tillaga nái fram að ganga? Hæstv. dómsmálaráðherra (JM) hefir íhugað þetta mál og komist að þeirri niðurstöðu, að framkvæmdarvald ríkisins væri ekki nógu sterkt, og að það væri jafnvel stórhættulegt að una við núverandi ástand, svo að nú þyrfti „að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofan í.“ En ef þingið segir nei, ætlar hann þá ekki að koma og segja: Gott og vel, en jeg ber ekki ábyrgðina lengur, nema því aðeins, að jeg fái að ráða þessu ! Það hefir komið fram við umr., að mikil áhersla er lögð á þetta mál, og við, sem andmæltum því. reyndum að gera það eftir bestu samvisku. Okkur var líkt við götustráka og drykkjurúta, og í sjálfu stjórnarblaðinu var sagt í háði frá því, að jeg hefði í ræðu minni um málið sagt margt bæði prestslegt og kristilegt. Þetta um prestslega götustráka og kristilega drykkjurúta veit jeg að vísu ekki, hvernig ber að skilja, en það er ekki mesta alvaran við þetta mál, þó að manni verði svolítið hverft við að líta á sig með augum andstæðinganna. En einmitt þetta, sem jeg benti á, fullvissar menn um, að stjórninni er þetta mikið áhugamál, og þá vildi jeg spyrja um það, hvort þetta stórmál eigi ekki að verða „kabinet“-spursmál, eins og sú till., sem hv. þm. Str. (TrÞ) bar fram. Svo er það um öll aðalmál í öðrum löndum, |þar sem stjórnmálaþroski er mestur, en hjer hefir sá manndómur ekki þekst á seinni árum. Hjer fara aldrei fram aukakosningar um mál, heldur er kosið á fjögra ára fresti um öll mál í einu, og fer þá svo stundum, að þingið verður alt í einum graut, þegar það kemur saman. Jeg held því, að sú höfuðlækning, sem íslenskt stjórnmálalíf þarfnast, sje ekki það að lengja kjörtímabilið. heldur að láta aukakosningar fara oftar fram um ýms mál. Sumar stjórnir kasta frá sjer stórum meiri hl. til þess að fá úrskurð þjóðarinnar um ýms mál. Það er sannarlega ekki það eina, sem við þurfum að gera, að setja lög og samþyktir um ýms efni, smá og stór; hitt er líka mikils um vert, að við sköpum hollar venjur í stjórnmálalífinu, hollar þingvenjur og holla stjórnarháttu um það, sem við eigum við að búa í framtíðinni.

Jeg kem með tvær spurningar, sem jeg legg fyrir stjórnina. Þær eru þessar: Í fyrsta lagi, hvort hún myndi ekki þola, að Krossanesmálið væri rannsakað á þann hátt, sem jeg nefndi áður, af þingnefnd, og í öðru lagi, hvort hún gerir ekki eitthvað af sínum frv., og þá aðallega ríkislögreglufrv., að fráfararatriði. Jeg vænti þess að fá ákveðið, ótvírætt svar.