29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

1. mál, fjárlög 1926

Ingvar Pálmason:

Áður en gengið er til atkvæða, vil jeg fara nokkrum orðum um þær brtt., sem jeg er viðriðinn á þskj. 400. Er þá fyrst brtt. IX. Henni var ekki óvingjarnlega tekið af hv. frsm. (JóhJóh) að því leyti, að hann játaði, að ef um styrk til einstakra kvenna til þess að halda uppi hannyrðakenslu væri að ræða, þá stæði þessi kona áreiðanlega með þeim fremstu. Að öðru leyti gat fjvn. ekki fylgt henni, því að hún taldi, að fje það, sem veita ætti til hannyrðakenslu, ætti frekar að veita til fjelaga en á einstök nöfn. í þessu get jeg verið nefndinni sammála, og læt því skeika að sköpuðu, hvernig fer um tillöguna.

Þá er brtt. XIII. Háttv. frsm. fór nokkuð fljótt yfir hana. Hann gat þess aðeins, að hann væri hlyntur bindindisstarfsemi í landinu og vildi styrkja hana með fjárframlögum. Þetta er gott út af fyrir sig, en jeg hygg, að varla sje til maður, sem gefi öðruvísi svör. Jeg skal vitanlega játa, að styrkurinn til Stórstúku Íslands er töluverður, en ef starfi hennar á að miða áfram, þá er hann alt of lítill.

Háttv. frsm. gat þess, að styrkurinn hefði nýlega verið hækkaður úr 3000 kr. upp í 6000 kr. Þetta er rjett. En ástæðan fyrir þeirri hækkun mun hafa verið sú, að Alþingi hafði á tilfinningu sinni, þegar vínsalan var leyfð aftur, að auka bæri bindindisstarfsemina. Þá gat og hv. frsm. þess, að tillaga þessi myndi komin af því, að stjórn stórstúkunnar væri flutt til Akureyrar, og af því myndi vera aukinn kostnaður. En þetta er tilgáta hjá hv. frsm. Aukakostnaður við þann flutning er enginn. Ástæðan fyrir tillögunni er því ekki sú, heldur hitt, að bæði jeg og aðrir, sem verjum starfskröftum okkar í þarfir þessa málefnis, finnum glögglega, hve aflvana við erum, þegar fjármagnið er lítið, sem úr er að miðla. Er það því ósk okkar, að þessi styrkur verði hækkaður.

Háttv. frsm. gat þess ennfremur, að jeg hefði komið með samanburð um styrk til Stórstúku Íslands og tekjur af áfengisversluninni. Þetta er rjett, og jeg vil leyfa mjer að koma með annan samanburð. Styrkur þessi er ekki nema rúmlega helmingur af launum eins manns, sem vinnur við áfengisverslunina. Og ef maður hugsar sjer hann notaðan til þess að launa manni til að útbreiða bindindisstarfsemi í landinu, þá hrekkur hann ekki nema fyrir árs launum hans ásamt ferðakostnaði. Þessi samanburður er því rjettmætur. Og mjer finst, að örlitlum hluta af áfengisgróðanum sje ekki betur varið á annan hátt en hlynna að bindindisstarfseminni í landinu.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að síðustu brtt. minni, heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að ábyrgjast alt að 110 þús. kr. lán til Búðahrepps í Suður-Múlasýslu til rafveitu. Tillaga þessi hefir mætt allmiklum andmælum. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir óskað að verða leystur undan því að veita þessa ábyrgð. Virtist hann draga þá ályktun, að með þessari rafveitu væri hreppsfjelagið að binda sjer stærri byrði en það gæti borið. Jeg skal ekki fara mikið út í þessa sálma. En þrátt fyrir föðurlega umhyggju hæstv. ráðherra fyrir hreppsfjelagi þessu, þá hygg jeg, að hreppsnefnd Búðahrepps telji sig eins færa að dæma um, hvað mikið megi á hreppsfjelagið leggja eins og hæstv. fjrh.

Hæstv. ráðherra gat þess, að á þessum tímum ætti ekki að vera að gefa hvorki hreppsfjelögum eða öðrum undir fótinn, svo þau rjeðust í vafasöm fyrirtæki. En ef þetta á að vera aðvörun til Búðahrepps, þá kemur hún of seint, því að Alþingi er búið að gefa hreppsfjelaginu hvatningu fyrir fimm árum síðan. Er þetta því að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann.

Hvað undirbúning undir þetta fyrirtæki snertir, þá er það víst, að hann er kominn allvel á veg, og það mikið fyrir það, hversu vel Alþingi hefir tekið í málið. Ef því ætti að fara að brigða þetta loforð nú, sem mörg undanfarin þing eru búin að gefa, kæmi það á versta tíma, þar sem búið er að ákveða að framkvæma verkið.

Jeg er þess fyllilega viss, að hlutaðeigandi hreppsfjelag hefir skoðað vandlega huga sinn, áður en það ákvað að leggja út í þetta fyrirtæki. Sjest það best á því, að ábyrgðarheimildin er fyrst gefin 1920. En 1924 er fyrst byrjað á verkinu, og þá með fullri vissu, að enn standi ábyrgð ríkissjóðs fyrir láninu. Hvernig sem á þetta er litið, er ekki hægt að telja þessa ábyrgðarbeiðni sambærilega við aðrar ábyrgðarbeiðnir, sem fyrir þinginu hafa legið. Hjer er aðeins um að ræða að uppfylla gamalt loforð.

Treysti jeg því fastlega, að hv. deildarmenn taki með í reikninginn, þegar þeir greiða atkvæði um þessa till., að hjer er um að ræða að uppfylla þrefalt loforð, og sömuleiðis, að með því að fella tillöguna er hreppnum gerður mikill fjárhagslegur ógreiði.