29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

1. mál, fjárlög 1926

Guðmundur Ólafsson:

Aðeins örfá orð út af ummælum hv. 1. þm. Rang. (EP). Hann byrjaði á því að segja, að jeg hefði vítt hann og aðra einstaka þingmenn, sem komið hefðu fram með brtt. En þetta er misskilningur. Jeg byrjaði miklu frekar með því að fara lofsamlegum orðum um þá fyrir að hafa talað vel fyrir brtt. sínum. Það eina, sem jeg sagði, var, að þeir væru ósparsamari en fjvn. Jeg vjek ekki einu orði að till. hans, en sagði, að tillögur einstakra þingmanna myndu eiga óvenju góðum undirtektum að fagna.

Þá sagði þessi háttv. þm., að ekki sæti á mjer að vera að vita einstaka þingmenn, þó að þeir kæmu fram með tillögur. Þetta hefir mjer aldrei dottið í hug. Og þó að jeg sje í fjvn., þá bera till. hennar þess lítinn vott, því jeg kom ekki fram öllu, sem jeg vildi og þurfti, en hefi þó viljað hlífast við að koma fram með brtt.

Jeg gleymdi síðast að minnast á VI. till. á þskj. 400.

Það er nú búið að lýsa listakonunni svo vel, að jeg mundi hafa fylgt styrknum til Listvinafjelagsins, ef farið hefði verið fram á sömu upphæð og í hv. Nd. En þar sem búið er að hækka upphæðina frá því, sem þar var, sje jeg mjer ekki fært að fylgja henni, einkum af því jeg býst við, að henni verði síður lífs auðið, þegar hún kemur til háttv. Nd., ef hún verður hækkuð.

Jeg get þessa, ef flm. till. vilja athuga þetta til 3. umr.