29.04.1925
Efri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1926

Jóhann Jósefsson:

Jeg gleymdi að geta þess, þegar jeg talaði í hið fyrra sinn, að jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir till. hennar viðvíkjandi læknisekkju Önnu Gunnlaugsson. Og það, sem hv. frsm. (JóhJóh) sagði um erfiðleika hennar, er síst ofmælt.

Þá hafa þeir hv. frsm., háttv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og enda hæstv. forsrh. (JM) minst á till. mína á þskj. 400,XII, og hafa ummæli sumra þeirra verið þannig löguð, að einn hv. þm. hefir fundið ástæðu til að benda á, að þau væru óvenjulega kuldaleg og í fylsta máta órjettlát.

En þar sem jeg býst við, að þau ummæli hafi verið sprottin af þekkingarleysi á málinu, þá mun jeg ekki svara þessum hv. þm. eins og jeg annars hefði gert.

Hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) kvað það ekkert einsdæmi með mig, heldur hefði það jafnan verið svo um fyrirrennara mína, að þeir hefðu verið kröfuharðir fyrir sitt hjerað. Ekki bera nú þingtíðindin þess vott. Það er fyrst 1913, að samþykt eru heimildarlög þau, sem eru tildrög til hafnarlaganna fyrir Vestmannaeyjar. Þangað til er lítið um fjárveitingar til þessa hjeraðs.

Hv. frsm. (JóhJóh) sagði, að jeg hefði talað röggsamlega fyrir minni till. Jeg get gert honum sömu skil. Hann lagði mikla áherslu á það að sýna, að mín brtt. færi of langt. En það er ekki sanngjarnt að gera samanburð á vatnsveituverkum þar, sem svo hagar til, að lækir renna í námunda við bæina og aðeins þarf að leggja pípur að vatninu til að ná því heim. Seyðfirðingar, sem hv. frsm. mintist á, hafa að minsta kosti ekki þurft að hafa fyrir að finna vatnið fyrst. Á staðháttum þar og í Vestmannaeyjum er mikill munur. Í Eyjunum er vatnið hulið í jörðu og rannsókn verður að gera til þess að komast að, hvar og hve mikið það sje.

Það er þessi rannsókn, sem verður að gera, og það er ekki skynsamlegt að byrja á vatnsveitu fyr en sannað er, að vatn sje til, sem nægi kaupstaðnum. En þessi rannsókn kostar mikið; það verður sennilega að sökkva pípum víðsvegar í sandinn og reyna með mótordælum, hversu mikið vatnið er. Þetta vildi jeg biðja hv. þm. að taka til greina.

Þar sem nú svo hagar til, að sjerlega erfitt er að koma slíku verki sem þessu fram, er sanngjarnt, að ríflegur styrkur sje veittur til þess úr ríkissjóði. Hv. frsm. var að brýna mig með því, að ríkið hefði hlaupið undir bagga með hafnarskuldum Vestmannaeyja. Jeg hjelt, að hann væri svo kunnugur þessum málum, að hann ljeti sjer ekki detta í hug að viðhafa ummæli um þau slík sem þessi. Það er engin sanngirni í því að ætlast til, að Vestmannaeyjabær geti greitt allan þann kostnað, sem hefur orðið af byggingu hafnargarðanna, á stuttum tíma. Og ekki var það Vestmannaeyingum að kenna, að garðarnir biluðu hvað eftir annað. Þar er við sterk öfl að etja. En það, sem gert hefir verið, er þó til stórbóta. Nú er hægt að reka meiri útveg í Vestmannaeyjum en áður var. Það þýðir auknar tekjur handa ríkissjóði. Leyfi jeg mjer í þessu sambandi að minna hv. þdm. á ummæli hæstv. fjrh. við þessa umr. fjárlaganna, þau, að ríkissjóðstekjur úr Vestmannaeyjum færu óðum vaxandi.

Jeg gerðist svo djarfur að minna á, að það stæði til að leggja skatt á Vestmannaeyjar handa ræktunarsjóðnum. Þetta er álitið rjettmætt. Jafnrjettmætt er það að hjálpa Vestmannaeyingum til þess að koma vatnsveitu á hjá sjer.

Út af ummælum hv. frsm. fjvn. um brtt. frá háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) undir VIII, þá verð jeg að segja, að mig stórfurðaði á þeim rökum, sem hann viðhafði. Jeg get ekki skilið, að neinum detti í hug, að þeir menn, sem að mjólkurfjelaginu Mjöll standa, fari að framleiða meira af mjólk en markaður er fyrir aðeins til þess að fá þessar 2 kr. á kassann.

Þá beindi hv. frsm. fjvn. þeirri fyrirspurn til mín, hve mikið ætlast væri til, að ríkið legði til vatnsveitunnar sjálfrar, þegar þar að kæmi. Jeg get sagt háttv. frsm., að það kemur alt undir hag bæjarfjelagsins, hvað það treystist að leggja fram. Eins og sakir standa á bæjarsjóður erfitt. Hafnarskuldirnar eru miklar, og hefir bæjarsjóður meðal annars orðið að taka 300 þús. kr. lán til þess að standa straum af þeim. Auk þess eru Vestmannaeyingar skattlagðir með vörugjaldi til hafnarinnar, tvöfalt á við það, sem er í Reykjavík, að minsta kosti. Bæjarsjóður verður einnig að borga 260 þús. kr. fyrir útgerðina á Þór frá þeim tíma, er Alþingi vildi ekki styrkja útgerðina. Að það hafi verið skammsýni, munu háttv. þdm. vera mjer sammála um.

Það er ekki vegna þess, að bærinn vilji ekki greiða kostnaðinn við undirbúning á vatnsveitu, að jeg fer fram á þessa fjárveitingu, heldur vegna þess, að honum er um megn að kosta verkið að öllu leyti ásamt öðrum framkvæmdum sínum. Það er líka ýmislegt, sem Vestmannaeyjabær verður að kosta að öllu leyti sjálfur, sem ríkið annast að öllu eða nokkru annarsstaðar, t. d. vegirnir. Styrk til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum hefir ríkið engan veitt, sem þó er gert annarsstaðar. Það er því ekkert undarlegt, þótt farið sje fram á þá fjárveiting, er hjer ræðir um. Ásakanir hv. frsm. fjvn. voru ekki rjettmætar, en jeg vil ekki taka hart á þeim, vegna þess, að hann er ókunnur staðháttum í Vestmannaeyjum og veit ekki. hvernig þar hagar til.