12.05.1925
Efri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

104. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þessi breyting á lögunum um útflutningsgjald er afleiðing af frv., sem samþykt hefir verið hjer, stækkun ræktunarsjóðsins. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að lagt verði á dálítið nýtt útflutningsgjald, sem aflar ríkissjóði sem næst 1 milj. kr. tekjum. Á það að bæta ríkissjóði upp þá miljón, sem hann samkvæmt hinum nýju lögum um ræktunarsjóðinn á að leggja honum í viðbót við söluverð þjóðjarða. Þessar upphæðir eiga svo að vera sá fasti kjarni og sú undirstaða, sem aðaltekjulind sjóðsins, verðbrjefasalan, á að styðjast við.

Saga þessa máls er sú, að mörg undanfarin ár hefir verið tilfinnanleg vöntun á lánsstofnun fyrir landbúnaðinn og til þess að byggja hús í kaupstöðum. Sjerstaklega þó síðan veðdeildin varð miður hæf til þess að vera fasteignalánsstofnun. Í tilefni af þessum vandræðum fól þingið 1919 stjórninni að láta undirbúa þetta mál, og valdi þáverandi atvrh. (SJ) ungan og efnilegan lögfræðing, Böðvar Bjarkan, til starfsins. Dvaldi hann svo mikinn hluta úr ári erlendis og rannsakaði fasteignabanka erlendis og kynti sjer málið yfir höfuð mjög vel. Lagði hann svo fyrir Alþingi skýrslu sína, sem var heil bók, er því miður hefir aldrei verið prentuð, því að þar er margur fróðleikur, sem að gagni má verða.

Upp úr þessari rannsókn Böðvars Bjarkans komu svo veðbankalögin, sem samþykt voru 1921, þrátt fyrir mikla mótstöðu vissra manna, meðal hverra háttv. 2. þm. G.-K. (BK) var hjer í þessari deild. En í neðri deild lagðist þverast í götu þess núverandi fjrh. (JÞ). En síðan kom kreppan. Þótti þá ekki viðkunnanlegt, að nýjar stofnanir tækju til starfa, þegar aðrar voru að hrynja. Í fyrra bar svo þm. Str. (TrÞ) fram frv. um stofnun búnaðarlánadeildar við Landsbankann. Var það bygt á því, að Landsbankinn hjálpaði bændum um sjerstaklega hagstæð lán gegn fasteignaveði. Var litið svo á, að bankinn gæti bundið töluvert fje í húsa- og jarðabótum með lægri vöxtum en fje það, sem stendur í hinum áhættusömu fyrirtækjum. Það er nú orðið öllum kunnugt, að stjórnin sýndi þessu máli sömu tregðu og á leið þess gegnum þingið. Hún þverskallaðist við að setja deildina á stofn þangað til hún þorði ekki annað vegna yfirvofandi vantrausts. En það var ekki fyr en rjett fyrir þingbyrjun að hún ljet undan. Þá komu nefnilega svo sterkar kröfur utan af landi, að hún sá sjer ekki annað fært en að verða við þeim.

Þegar það varð sýnilegt, að stjórnin reyndi að eyða málinu, skipaði Búnaðarfjelag Íslands þriggja manna nefnd til þess að rannsaka það. Í nefnd þessari áttu sæti tveir forkólfar landbúnaðarins og einn útgerðarmaður, sem sýnt hefir nokkurn áhuga á búnaðarmálum. Samdi nefnd þessi svo frv. um ræktunarsjóð hinn nýja, sem búnaðarþingið samþykti.

Þegar stjórnin sá nú, í hvert óefni stefndi fyrir henni, greip hún til yfirborðsúrræða, gerði einskonar skrípamynd af frv. Búnaðarfjelagsins og lagði fyrir þingið. Þessu frv. var vísað í nefnd í Nd. og var þar tekið það ráð að taka ytra form stjfrv., en blása inn í það andanum úr frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar, í því skyni, að sá flokkur, sem er einna öflugastur hjer í þinginu, skyldi ekki finna sig móðgaðan þó þessu fátæklega frv. stjórnarinnar væri enginn annar kostur gerður en að nota af því umbúðirnar.

En afstaða stjórnarinnar og þeirra, sem henni fylgja, hefir helst lýst sjer í því, að hæstv. landsstjórn hefir frá byrjun lagt hina mestu stund á það að fjölga embættum í þessu sambandi, eins og jeg hefi áður vikið að, og eins hinu, að hún gæti útdeilt gæslustjórapóstunum við þessa stofnun til sinna vildarvina. Nú í dag hefir stjórnarflokknum tekist að vinna þennan sigur í hv. Nd. Og honum hefir hepnast meira. Honum hefir einnig tekist að koma því ákvæði inn í frv., að þessi stofnun skuli ekki sameinast veðbankanum, þó hann komist á stofn. Það er því ekki sýnilegt, að annað hafi vakað fyrir hæstv. fjrh. í þessu atriði en það að eyðileggja búnaðarlánadeildina sem bráðabirgðaúrlausn fyrir bændur og veðbankann sem framtíðarúrlausn fyrir landið í heild sinni, og það, sem fengist í staðinn, væri og yrði aldrei annað en tómur pappír. Það er eingöngu að þakka Búnaðarfjelaginu og nefnd þeirri, er það valdi, og andstæðingum stjórnarinnar í þinginu, ef lögin koma að gagni. Þá verður ekki komist hjá því að minnast lítið eitt á þrákelkni stuðningsmanna stjórnarinnar að stofna hjer nýtt embætti. Jeg vil minna hæstv. fjrh. á það, að hann var potturinn og pannan í því, að stofnað var í hitteðfyrra sjerstakt embætti til eftirlits með bönkum og sparisjóðum. En þegar fyrv. fjrh. (KlJ) sá, að embættið yrði ekki lagt niður eins og kosningar fjellu, veitti hann það manni, sem vel var til þess hæfur, en andstæðingur núverandi stjórnar. En þá vildu Íhaldsmenn gjarnan drepa það embætti, úr því þeirra flokksmaður gat ekki notið þess. Þeir höfðu ekki stofnað embættið vegna landsins, heldur flokksins. Jeg finn ástæðu til þess að drepa á þetta, því menn eiga von á því, að eitthvað líkt eigi nú að gerast aftur, og að þetta forstöðumannsembætti, sem hjer er stofnað í trássi við till. Búnaðarfjelagsnefndarinnar, sje ætlað manni, sem stendur nærri hæstv. stjórn og vantar atvinnu. Verður þá líklega starfið veitt í trausti hins fornkveðna, að þeim, sem guð gefur embætti, gefur hann vit til að fara með það. Sá, sem við starfinu á að taka, hefir ef til vill enga sjerstaka yfirburði yfir aðra í því að kunna að fara með peninga og knýja fram ræktun þessa lands, eins og ætti og þyrfti að vera. Aðalatriðið er fyrir hæstv. fjrh., að það sje stjórnin, sem veitir starfið sem trúrra þjóna verðlaun. Jeg sje, að hæstv. fjrh. (JÞ) lítur með velþóknun á það, að allir flokksmenn hans eru gengnir út úr deildinni. (Fjrh. JÞ: Það eru nú fleiri). Jeg álít, að það sje sem fyr vottur um það, að þeim sje nóg að vita, að það ranga á að gerast, en kæri sig ekki um að heyra um það talað. Sem sagt, það var beitt gífurlegu kappi til þess að skapa þetta embætti, og eins hitt, að Búnaðarfjelagið fengi ekki að tryggja það, að gæslustjórarnir yrðu fyrst og fremst menn, sem hefðu þekkingu og áhuga í þessu efni. Jeg hlakka til þess á næsta þingi, þegar þessi dýrlega stofnun er komin á, að geta lýst aðdáun minni á mannvalsviti stjórnarinnar, sem jeg tel víst, að svari til þeirrar elju, sem hún og stuðningsmenn hennar hafa sýnt í því að búa þessi embætti til. Þetta snertir alt sögu þessa frv., sem hjer á að ræða um. Það lítur út fyrir, að gagnið af lögunum um ræktunarsjóðinn verði einkum bitlingar fyrir 2—3 menn, sem þurfa einhvers lítilræðis við fyrir þægð sína við stjórnina, og að öðru leyti kunni að vera, að til einhverra nytja verði fyrir bændur, vegna þess að tekin voru upp í frv. aðalatriðin úr frv. Búnaðarfjelagsnefndarinnar. En eins og nú virðist til stofnað, þá er varla vert að gera sjer miklar vonir um framtíðarstarf þessarar stofnunar, þegar frá er tekið það fje, sem stofnuninni er lagt til með lögunum. Hinsvegar er mjög lítil ástæða til þess að vænta mikils af sölu brjefa, einkum ef ljelegur maður stýrir stofnuninni, sem hvorki hefir vit nje getu til þess að koma brjefunum í verð utanlands nje innan. Það er öllum kunnugt, að það gengur oft illa að selja veðdeildarbrjef, sem falla í verði vegna hinna lágu vaxta. Annars er gert ráð fyrir því, að þessi stofnun taki það háa vexti, að ef íslensk króna á að hækka upp í gullgengi á næstu 15 árum, þá eru lán með þeim vaxtakjörum mjög óhagstæð og varhugaverð. Og auk þess er engin trygging fyrir því, að brjefin seljist nema með stórum afföllum. Þess vegna, þó hv. 1. þm. Rang. (EP) sje mjög þakklátur hæstv. stjórn fyrir afgreiðslu þessa máls, þá get jeg ekki tekið undir þá lofgerð. Jeg finn ekki betur en að stjórnin hafi gert alt, sem hún hefir getað, til þess að hindra framgang málsins í gagnlegu formi. Hæstv. fjrh. hefir beitt sjer gegn því, að við fengjum sterkan fasteignabanka og verið Þrándur í Götu búnaðarlánadeildar, ekki viljað aðhyllast tillögur Búnaðarfjelagsins. Hann hefir barist hart fyrir því að stofna hjer embætti, sem fullur grunur leikur á, að sje gert til þess að koma ákveðnum manni á framfæri.

Hvað viðvíkur hinum lið þessa máls, þeim skatti, sem hjer er um að ræða, þá vil jeg geta þess, að upphaflega var það ætlun búnaðarfjelagsnefndarinnar, að það yrði aðeins bráðabirgðaskattur, sem lagður yrði á útfluttar vörur um nokkurra ára skeið í því skyni að afla sjóðnum veltufjár. En þessu var breytt í hv. Nd. fyrir áhrif útvegsmanna, og skal jeg ekki lasta það, því það stefnir að nokkru leyti í rjetta átt. Því þegar þetta útflutningsgjald, sem er að meira leyti greitt af sjávarafurðum, gengur til strandvarnanna, þá er ekki annað hægt að segja um það en að það sje skynsamlegt. Þegar bætt er á nýjum kostnaði, þá er rjett, að þingið sjái fyrir nýjum tekjum. Nú er gert ráð fyrir því, að bygt verði nýtt strandvarnaskip, og ganga þá tekjurnar af þessum skatti að miklu leyti til þess að gera það út. Og það hefði farið betur t. d. þegar berklavarnalögin voru sett, að menn hefðu þá gert sjer ljósan þann kostnað, sem af þeim leiddi, og miðað lögin við þá raunverulegu gjaldstofna, sem fyrir hendi voru til þess að mæta kostnaðinum. Jeg get því ekki annað en játað, að jeg kann í aðalatriðunum vel við þetta frv., þó máske mætti finna að einstökum atriðum, t. d. láta útflutningsgjaldið skiftast milli strandvarnanna og ræktunarsjóðsins. Jeg tel því rjett að samþykkja þetta frv. um útflutningsgjald, ekki eingöngu vegna bráðabirgðahjálpar við ræktunarsjóðinn, heldur líka til þess að tryggja rekstur strandvarnaskipsins. En jeg vildi ekki láta það hjá líða að láta það koma fram, að ekki er hægt með skynsamlegu viti að búast við því, að þessi lánsstofnun hafi mjög mikla þýðingu, þó hún sje að vísu spor í áttina, þegar þess er gætt, að alt það fje, sem til hennar er lagt, andvirði þjóðjarða, framlag Landsbankans og þessi nýi skattur, nemur ekki meiru en svarar andvirði fáeinna togara. Það er því ekki rjett að gera sjer neinar tyllivonir um þetta úrræði, því fremur sem lánin verða dýr og óhagkvæm, og engin vissa fyrir því, að nokkuð verulegt sje hægt að leggja upp úr sölu verðbrjefa. Jeg get mint háttv. 1. þm. Rang. (EP), sem er form. landbúnaðarnefndar, á það, að hann hefir nú saltað fyrir mjer frv., sem töluvert hefir verið talað um hjer og hann sjálfur óskaði eftir að fá að drepa við 1. umr. Jeg býst við því, að þó að þessi hv. þm. hafi greitt atkvæði á móti því máli nú og síðan saltað það, þá muni það ekki verða svo til lengdar. Jeg býst við því, að þegar bændur og allur landslýður sjer, hve fánýtt þetta úrræði er fyrir alla þá, sem nýbýli vilja reisa og nýræktun efla, — þegar það er komið í ljós, hve langt sú hjálp nær, sem hæstv. fjrh. (JÞ) lagði til með frv. sínu, þá verði frv. mitt haft í meiri metum en það hefir átt að fagna hjá hv. form. landbn. (EP) og hv. skrifara hans (HSn).