13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3260 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

104. mál, útflutningsgjald

Eggert Pálsson:

Jeg vildi út af ræðu hv. 5. landsk. (JJ) segja nokkur orð. Jeg ætla ekki að svara hinum illgirnislegu aðdróttunum hans í minn garð og annara íhaldsflokksmanna að því er snertir meðferð ræktunarsjóðslaganna. Jeg ætla líka að láta hann eiga sig með hrakspár sínar um það, að ræktunarsjóðslögin muni verða þjóðinni að litlum notum. Reynslan mun leggja sinn dóm á þær, og reynslan er ólygnust. Jeg ætla aðeins að svara þessum hv. þm. fáum orðum út af því, sem hann beindi til landbúnaðarnefndar út af meðferð hennar á frv. hans um byggingar- og landnámssjóð. Hv. þm. bar alla sök á mig og meðnefndarmann minn, háttv. 3. landsk. (HSn), fyrir að landbn. hefir setið á frv. þessu.

Sannleikurinn er sá, að við háttv. 3. landsk. vorum reiðubúnir að senda málið þegar í stað til deildarinnar aftur. En þriðji nefndarmaðurinn, flokksbróðir hv. 5. landsk., hv. 2. landsk. (SJ), æskti þess, að málið væri látið bíða, að minsta kosti þangað til sjeð væri fyrir enda ræktunarsjóðsfrumvarpsins. Og þar sem þessi hv. þm. er í alla staði heiðvirður maður og okkur skildist, að hann hefði óþægindi af frv. þessu, þá urðum við við þessum tilmælum hans. Þetta býst jeg við, að hv. 5. landsk. (JJ) hafi vitað og viti, og hafi enda verið og sje ánægður í hjarta sínu með meðferð nefndarinnar á frv. hans. Því við nánari yfirvegun hefir hann hlotið að sjá, að frv. hans var ekki frambærilegt, þótt honum hefði orðið á að varpa því inn í þingið. Ef hv. þm. hefði verið mjög óánægður með þessa meðferð á málinu, myndi hann hafa haft einurð á því, fyr en að þinglausnum var komið, að nefna það, annaðhvort einslega eða opinberlega, annaðhvort við nefndina eða hæstv. forseta, að hann vildi fá málið fram. En það hefir hann ekki gert fyr en nú, að komið er að þingslitum. Jeg hefi líka ástæðu til að efast um, að hann hafi nokkru sinni ymprað á því einslega við þann flokksbróður sinn, sem sæti á í nefndinni, því að jeg trúi því trauðlega, að hann hefði skelt skolleyrunum við þeirri ósk hv. 5. landsk., og dulið okkur hina meðnefndarmenn sína þess, að hv. 5. landsk. vildi fá málið fram og hann sjálfur æskti eftir að svo yrði gert. En þrátt fyrir það, þótt háttv. 5. landsk. hlyti þannig að vita, hver orsökin var, að umrætt frv. kom ekki frá nefndinni, og hann væri sjálfur alls ekki óánægður með þá ráðstöfun, þá hikar hann þó ekki við nú að skella skuldinni fyrir dráttinn á þessu máli á okkur tvo, háttv. 3. landsk. og mig. Slík framkoma dæmir sig sjálf og sýnir, eins og svo margt fleira, hversu ósýnt hv. 5. landsk. er um það að feta götu sannleikans og sanngirninnar, þótt í smáu sje.