13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3267 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

104. mál, útflutningsgjald

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer inn í umr. þeirra hæstv. fjrh. (JÞ) og háttv. 5. landsk. (JJ). En vegna ummæla hæstv. fjrh. vildi jeg aðeins enn leggja áherslu á, að jeg er sannfærður um, að ríkisveðbanki er besta fyrirkomulagið. Og þó þetta frv. verði samþykt, og þó till. um sameiningu verði feld, þá er samt ekki loku skotið fyrir það, að sameining verði í framtíðinni. Jeg hefi áður skýrt allítarlega frá þessari aðstöðu minni.

Þá er hin takmarkalausa ábyrgð ríkissjóðs á ræktunarsjóðnum mjög athugaverð. Það getur verið, að ríkissjóður tapi ekki á þessu, en erlendis mun það þykja mjög einkennilegt og mun síst verða til að auka lánstraust vort, að vjer tökumst á hendur slíka ábyrgð á banka, en eftir undanfarandi ára reynslu erlendis eru menn mjög hræddir við slíkar stofnanir.

Þar sem ræktunarsjóðurinn hefir svo mjótt bak, þá má vera, að ómögulegt hefði verið að stofna hann án slíkrar ríkissjóðsábyrgðar, en öðru máli er að gegna með ríkisveðbankann, sem mundi fara á stað með sterkari stoð, meira stofnfje o. s. frv. Enda þegar rætt var um ríkisveðbankann, þá datt engum í hug að láta ríkissjóð hafa nema takmarkaða ábyrgð á honum. Jeg tel því sjálfsagt að sameina ræktunarsjóðinn ríkisveðbankanum, en hafa hann ekki sjerstakan eins og hjer er farið fram á, en fullnægja lánsþörfinni í sveitum og bæjum með sömu stofnuninni, ríkisveðbankanum. Jeg er sannfærður um, að ástæðan til þess, að ríkisveðbankinn hefir ekki þegar verið settur á stofn, er tregða Landsbankans. Sannarlega sje jeg ekki eftir því fje, sem ætlast er til, að ríkissjóðurinn leggi til þessarar lánsstofnunar, en jeg óska aðeins þess, að um leið og ríkissjóður tekur á sig slíkar byrðar, þá megi það verða landbúnaðinum að verulegu gagni. En ennþá er aðalhnúturinn í þessu máli óleystur, nefnilega sá, hvernig eigi að útvega landbúnaðinum ódýr lán; því það fer alveg eftir sölu brjefanna, en engin vissa eða líkur eru til, að þessi brjef seljist viðunandi. Það hefir aðeins lítið verið rannsakað erlendis, hvernig brjef þurfi að vera úr garði gerð til þess að seljast þar. Eggert Claessen bankastjóri, sem hefir í einni utanferð sinni athugað málið, fer meðal annars þessum orðum um málið:

„Jeg hefi því fyrir mitt leyti komist að þeirri niðurstöðu, að rjettast sje fyrir okkur að gerbreyta fasteignalánafyrirkomulagi okkar og taka upp lánafjelagafyrirkomulagið danska. Það lánafjelag í Danmörku, sem þykir hafa best fyrirkomulag, er Östifternes Kreditforening. Þegar jeg kom til London á leið til New York í lok október, voru 4½% verðbrjef frá Östifternes Kreditforening seld í London fyrir 95%. Þessi verðbrjef eru orðin þekt þar. Þykir það sjerstaklega tryggilegt að því er lánafjelög þessi snertir, að virðingagerðir á fasteignum eru framkvæmdar af mönnum, sem eru í fjelögunum og sameiginlegri ábyrgð fyrir lánunum. Enda hefir aldrei komið fyrir í Danmörku, að veðin hafi ekki verið nægileg fyrir lánunum. Ef við nú tækjum upp alveg sama fyrirkomulag sem Östifternes Kreditforening, ættum við að geta notið góðs af því áliti, sem verðbrjef þess lánafjelags hafa öðlast, og því fengið góðan, fastan markað í London fyrir verðbrjef okkar. Á þennan hátt tel jeg ekki einungis mögulegt, heldur einnig hagkvæmast að greiða úr þeim óbærilegu vandræðum um fasteignalán, sem við eigum nú við að búa, svo framarlega sem menn yfir höfuð telja það fært að stofna meiri skuldbindingar fyrir Ísland erlendis en þegar er orðið. „Því auðvitað er það, að ef verðbrjefin verða seld ytra, þá þarf árlega að greiða þangað í erlendri mynt vexti og afborganir.“

En þetta mál þyrfti, eins og jeg hefi vikið að oft áður, að rannsaka mjög ítarlega.

Jeg er sannfærður um, að þörfin á lánum til húsabygginga einnig í bæjum og kaupstöðum er svo mikil, að Alþingi getur ekki daufheyrst við henni. Þeir, sem byggja nú, verða að sæta afarkostum og fá alls ekki lán í bönkum. Og meðan ekki fást sæmileg lán til þess að byggja, verður húsaleigan einhver allra örðugasti þáttur í dýrtíðinni. Þar sem nú þörfin bæði í sveitum og kauptúnum fyrir ódýr, löng lán er svona mikil, bæði til húsabygginga og ræktunar, þá er auðvitað eðlilegast í þessu litla landi að fullnægja þessari þörf með einum banka. Spursmálið fyrir landbúnaðinn er óleyst með ræktunarsjóðnum. Ef ríkisveðbankinn og ræktunarsjóðurinn yrðu hvor út af fyrir sig, þá sje jeg ekki betur en stofnað verði til athugaverðrar samkepni milli brjefa beggja stofnananna. Það er mín innileg ósk, að þessu mjög svo vandasama máli verði ekki flaustrað af.