14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

104. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Jónas Jónsson):

Upp úr þessum umr. hefir það hafst, að háttv. þm. Vestm. (JJós) hefir játað, að hann elski sundrungina og samkepnina og telji þær stallsystur heilladrýgstar landi og lýð. Þá hefi jeg líka hrakið þá árás hans á mig, að jeg stuðli að sundrung innan þjóðfjelagsins. Jeg er svo mikill samvinnumaður, að jeg tel stofnun fiskhringsins sáluga jafnvel hugsunarrjett spor í áttina til betra skipulags, þó að vanmentun og gamall sjergæðingsandi eyðilegði þá framkvæmd.

Jeg skal ekki lengja þessar almennu aths. mikið, þar sem munurinn er orðinn nokkurn veginn skýr um aðalatriðin. Hv. þm. (JJós) fór ekki allskostar rjett með það, þegar hann benti á óhagræðið, sem stafaði af samhjálparfyrirkomulagi Sambandsins, en sagði jafnframt, að ekkert slíkt kæmi til greina, þegar um verslun einstakra kaupmanna væri að ræða, því ef kaupmaður færi á höfuðið, þá bæri hann einn ábyrgðina. Þetta er ekki rjett. Fyrst og fremst eru venjulega einhverjir, sem í slíkum tilfellum verða fyrir halla vegna ábyrgðar fyrir kaupmanninn, en þó er annað verra. Þessai- ábyrgðir nægja oftast nær ekki, og þess vegna verða bankarnir að bera hallann. En þeir geta ekki unnið hann upp, nema með því að hafa vextina langtum of háa. Því er það nú t. d., að skilamennirnir, eins og hv. þm. (JJós), og kaupfjelögin verða að greiða syndagjöldin fyrir gjaldþrota kaupmenn með bankavöxtum, sem með rjettu má kalla okurvexti. Þetta er hin stóra samábyrgð, sem hv. þm. (JJós) hlýtur að finna til, þegar hann greiðir forvextina af fiskkaupavíxlum sínum. Þá er hann að greiða skuldir annara kaupmanna.

Hinsvegar hefir S. Í. S. altaf staðið í skilum, og þegar hin stærri verslunarhús vantaði erlendan gjaldeyri, þá gat Sambandið selt Landsbankanum, sem seldi síðan kaupmönnum gjaldeyrinn. Þannig var það að nokkru leyti fyrir góða stjórn Sambandsins, að ýmsir vefnaðarvörukaupmenn, t. d., gátu fengið vörur frá útlöndum um tíma og greitt þær.