30.04.1925
Neðri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3307 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

34. mál, mannanöfn

Jakob Möller:

Mjer finst, að hjer hafi verið sögð svo mikil vitleysa, að það væri minkun að því, ef það væri ekki borið við að minsta kosti að vekja athygli á því og mótmæla.

Hv. þm. Dala. (BJ) stendur hjer upp þing eftir þing og leikur sama skrípaleikinn fyrir þdm. og áhorfendum, sjálfum sjer víst til mikillar ánægju, en ýmsum til sárrar gremju og leiðinda. Alt, sem hann segir um þetta mál, eru tómar rökvillur. Það er hægt að sýna það með ljósum dæmum, að það eru ekki ættarnöfnin, sem valda spillingu í málinu. Það varð einmitt samfara því, að sá siður var tekinn upp að bera ættarnöfn, að málið hreinsaðist stórkostlega. Ef hv. þm. Dala. vill bera saman, hvernig málið er talað og skrifað nú, eftir að ættarnafnasiðurinn hefir haldist hjer um alllangt árabil, við það, sem var á miðöldunum, þá getur hann sannfærst um, að spillingin var æðimikil áður og kemur ekki ættarnöfnunum hið minsta við. Það er bersýnileg fjarstæða. Hv. þm. Dala. þarf ekki að halda, að þrátt fyrir það þótt menn segi: jeg kom með „Ísland“, jeg kom með „Gullfoss“, þá stafi það af því, að ættarnöfn eru til í landinu. Reyndar veit jeg, að hv. þm. Dala. er ekki svo heimskur, að hann haldi þetta sjálfur. En í vöntun röksemda grípur hann slíkar fjarstæður. Og það má háttv. þm. Dala. vita, að þó bönnuð verði ættarnöfn, þá koma menn jafnt með ,,Ísland“ og með ,,Gullfoss“ eftir sem áður.

Jeg skal ekki fortaka það, að ef þinginu tækist að koma aftan að landsmönnum og banna notkun ættarnafna, að það kynni þá að vekja einhvern vindþyt — svona álíka eins og vindgang í mönnum — hjá hinum háværustu gösprurum á þeim sviðum, að þeim þyki þeir hafa gert eitthvert stórvirki, er boði nýtt tímabil í menningarsögu þjóðarinnar; en á langvarandi áhrif af slíkum frumhlaupum og vitleysu hefi jeg enga trú.

Það er augljóst, að eins og málið liggur fyrir, er þarna ekki farið fram á annað en að banna ný ættarnöfn, og þá er bersýnilegt, að þeir, sem þegar hafa ættarnöfn, bera þau til dauðadags. Verða því ættarnöfn notuð hjer á landi alt að 100 árum meira og minna, og þá er jeg smeykur um, að þessi vindgangur þjóðernisgaspraranna verði farinn að hjaðna og öll vakningaráhrifin verði heldur lítil.

Jeg vil segja hv. þm. Dala., þar sem hann var að tala um hlátur, að jeg hefi orðið var við mikinn hlátur, og jeg er ekki í vafa um, að sá hlátur hefir beinst að hv. þm. Dala. og engum öðrum. (BJ: En af hverju hlær enginn nú?). Af því það er alvara töluð, en ekki verið að leika skrípaleik.

Jeg heyri, að nú hlæja þeir hv. þm. Dala og Guðbrandur Jónsson — það staðfestir aðeins það, sem jeg segi.