05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

1. mál, fjárlög 1926

Sigurður Jónsson:

Það er sjerstaklega ein brtt. á þskj. 447, undir tölulið XVIII., við 18. gr., sem jeg vildi minnast á, sem sje, að Kristínu Sigurðardóttur ljósmóður verði veittar 500 kr. Jeg skal taka það fram, að þessi kona hefir verið ekkja í 20 ár og dvelur nú hjá bróður sínum, sem er bláfátækur maður. Hún er búin að vera ljósmóðir í 52 ár í mjög erfiðu umdæmi. 4 danskar mílur eru til fjarlægustu bæja og vetrarferðalög erfið. Hún giftist ung manni þarna í sveitinni og hefir verið þar síðan og aldrei sótt neitt burt.

Jeg get engan mun gert á þessari ljósmóður og hinum 2, sem samþyktar voru við 2. umr. Jeg ætla ekki að gylla þetta neitt, heldur segja satt og rjett frá hennar högum, og sje jeg ekki annað en að hv. dm. verði einnig að samþykkja þetta, þar sem engin ástæða er til að gera upp á milli þessara þriggja ljósmæðra. En þegar maður fer að athuga, kemur í ljós, að júbílljósmæður, ef miðað er við 50 ár, munu ekki vera margar hjer, svo að þær yrðu aldrei neinn baggi fyrir ríkissjóð. Því hefir verið haldið fram, að sýslusjóðir gætu styrkt þær, en þeir hafa sannarlega í mörg horn að líta, enda fór þessi kona fram á hækkun á launum sínum, en það bar sáralítinn árangur.

Þá ætla jeg ekki að orðlengja þetta frekar, en fel hv. deild tillöguna í því trausti, að hún lofi þessari ljósmóður að fylgjast með hinum tveimur.