13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3311 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

34. mál, mannanöfn

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Það er viðkunnanlegra að láta nokkur orð fylgja nál. á þskj. 534, en ekki ætla jeg að fara mörgum orðum um það. Það er enginn vafi á því, að frv. það, sem hjer liggur fyrir á þskj. 437, það er borið fram í byrjun af sjerstakri umhyggju fyrir íslensku máli; það er tilraun í þá átt að vernda íslenska tungu, vitanlega ekki alment, heldur aðeins að því er snertir sjerstakan orðflokk, sem sje eiginnöfnin, þó ekki öll, heldur aðeins mannanöfnin. Það er ekki hægt að neita því, að mörg af þeim mannanöfnum, sem við höfum, eru mjög óíslenskuleg, en með tíð og tíma mun það reynast svo, að nafn, þótt ekki sje af norrænum stofni, kemur til að hljóma eins og nafn, sem er fullkomlega íslenskt. Má t. d. benda á nöfn eins og Jóhannes, Jón og Jóhann; þau eru vitanlega ekki íslensk, en enginn finnur annað en að þau sjeu það, og þó eru jafnvel nöfnin Jón og Jóhann ekkert annað en afbökun úr nafninu Jóhannes. Þó að breyta ætti um og gera ættarnöfn útlæg, eða takmarka notkun þeirra að mun, þá þarf að viðhafa mikla varfærni í þessum efnum, a. m. k. fyrst í stað.

Það eru sterkar og þó viðkvæmar taugar, sem tengja nafnið við ættina, taugar, sem standa í nánu sambandi við ættrækni, og þá tilfinningu verðum við að telja mikils virði. Jeg hygg líka, að ættrækni sje óvíða ríkari en einmitt hjá Íslendingum, og er þeim mun meiri ástæða til að virða þá tilfinningu og ganga ekki mjög frekt að niðurskurði allra ættarnafna. Það er eðlilegt, að nafn, sem hefir tengt ættliði saman um áratugi og jafnvel aldir, hafi náð miklum tökum á ættinni og að menn taki sárt að sjá því kipt burtu með einu lagaboði. Þess vegna vill meiri hl. ekki ganga að frv. óbreyttu. Meiri hl. vill taka fult tillit til slíkra tilfinninga og ekki ganga um of í berhögg við persónulegt frelsi manna. Leggur hann því til, að þau nöfn, sem hafa náð svo mikilli festu meðal heilla ættbálka, fái að standa framvegis.

Öðru máli er að gegna um hin nýrri ættarnöfn. Þau hafa ekki fest mjög djúpar rætur enn, og því fremur sök sjer, að þau verði afnumin. En hinsvegar hafa menn keypt sjer þessi nöfn og tekið þau upp í þeirri trú, að þeir hafi þar með aflað sjer og sínum rjettar til að bera nöfnin um ókominn tíma. Er því ekki rjett að svifta menn þessum nöfnum, sem þeir hafa keypt, endurgjaldslaust, enda er ekki gengið út frá því í frv. Þar er svo ákveðið, að þeir, sem hafa keypt ættarnöfn, fái að bera þau alla æfi og ennfremur þau börn þeirra, sem þegar eru fædd, en svo ekki lengur. Þessu ákvæði sjer meiri hl. enga ástæðu til að breyta frá því, sem hv. Nd. hefir samþykt. Meiri hl. leggur enga höfuðáherslu á 2. brtt. sína á þskj. 534. Því er jafnaðarlega svo varið, að sektir renna annaðhvort í ríkis- eða sveitarsjóð. Ef sektarákvæði frv. helst óbreytt, þá er það undantekningarákvæði í íslenskum lögum og getur orðið óviðfeldið í framkvæmdinni. Svo getur staðið á, að ekkert unglingaskólahald sje í því hjeraði, þar sem maður verður brotlegur gegn lögunum, og eiga sektirnar þá líklega að ganga til unglingaskóla einhversstaðar annarsstaðar samkv. frv. Virðist meiri hl. því rjettara, að sektirnar renni altaf í einn sjóð, ríkissjóð, enda mun hann veita styrk til unglingaskóla hjer eftir sem hingað til, og kemur þetta þá í sama stað niður.

Vona jeg að þurfa ekki að fara fleiri orðum um brtt. meiri hl., en að öðru leyti vill hann ganga að frv.