05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

1. mál, fjárlög 1926

Ingvar Pálmason:

Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að tefja tíma hv. deildar lengi. Jeg er riðinn við nokkrar brtt., bæði á þskj. 447 og 456. Brtt. á þskj. 447, undir tölulið V, sem jeg er meðflutningsmaður að, mun jeg ekki fara mörgum orðum um. Það ætla jeg að láta eftir meðflutningsmanni mínum, hv. 1. landsk. (SE). Um brtt. einstakra þm. mun jeg heldur ekki tala, að minsta kosti ekki fyr en þeir hafa gert grein fyrir þeim.

Fyrri brtt., sem jeg flyt einn, er á þskj. 447, undir tölulið XVII, um hækkun á styrk til Goodtemplarareglunnar. Jeg skildi þannig atkvgr. við 2. umr. um 4000 kr. hækkun á styrknum, að hv. þdm. væru mjer í raun og veru sammála um, að hækka bæri þennan styrk, en það, sem á milli bæri, væri það, að háttv. deildarmönnum fyndist jeg taka of djúpt í árinni. Nú hefi jeg lækkað upphæðina um helming og vænti þess, að tillagan megi nú fá fram að ganga.

Síðari brtt. er á þessu sama þskj., undir tölulið XXI, um að ríkið ábyrgist 100 þús. kr. lán fyrir Búðahrepp. Það má segja svipað um þessa tillögu og þá fyrri, að jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um hana, þar sem jeg við 2. umr. lýsti þeim ástæðum, sem væru á bak við þetta. Jeg hefi nú lækkað upphæðina um 10 þús. kr. og vil minna á, að þessi upphæð er sú sama og Alþingi hefir áður lofað að ábyrgjast. Jeg vænti þess, að nú sje búið að færa tillöguna í þann búning, að hv. deild sjái ekki ástæðu til að ganga á bak orða sinna. Jeg læt svo útrætt um þessa tillögu, því að jeg tel ástæðulaust að tefja tímann með mælgi um hana, þar sem jeg gerði ítarlega grein fyrir henni við 2. umræðu.

Þá er brtt. á þskj. 456, sem jeg flyt ásamt hv. 2. þm. G.-K. (BK). Hún er þess efnis, að tekinn verði upp í 18. gr. fjárlaganna ellistyrkur til Guttorms Vigfússonar uppgjafaprests. Mig brestur hæfileika til að lýsa þessum mæta manni svo sem verðugt er, enda mun þess ekki gerast þörf, þar sem óhætt er að fullyrða, að þessi prestaöldungur er þjóðkunnur maður. Hann er nú 80 ára að aldri og hefir verið prestur í 53 ár. Að rekja prestsferil hans mun ekki þurfa, en í 37 ár hefir hann verið prestur á Stöð í Stöðvarfirði, sem er eitthvert allra tekjurýrasta brauð á landinu. í eftirlaun mun honum bera samkv. eftirlaunalögum hjer um bil 790 kr. Jeg hefi að vísu ekki fyllilegar heimildir fyrir því, en ef nokkru skakkar, er það lítið. Hann er nú þrotinn að heilsu og næstum því búinn að missa sjónina. Kona hans er nokkru yngri, en samt orðin gömul og lasburða. Þau eiga 5 uppkomin börn, en jeg býst við, að hv. Alþingi láti sjer ekki sæma að segja við slíkan mann, að börn hans geti sjeð fyrir honum, þegar hann eftir jafnlanga þjónustu, þrotinn að heilsu og kröftum, segir af sjer. Eftirlaunin hrökkva skamt, og jeg veit, að ekki þarf að brýna hv. Alþingi mikið til þess að veita þennan styrk. Til merkis um að hjer er um mann að ræða, sem ekki er hægt að telja neinn hversdagsmann, má geta þess, að hann var sjerlega góðum hæfileikum gæddur til að búa menn undir skólanám og að hann hefir mjög mörgum af lærdómsmönnum okkar veitt slíkan undirbúning. Meðal þeirra eru núverandi rektor mentaskólans, Geir Zoega, Finnur próf. Jónsson, Jóhannes Sigfússon o. fl. Jeg er viss um, að óþarft er að eyða fleiri orðum um þessa tillögu og mig brestur hæfileika til að minnast þessa ágætismanns á Alþingi eins og vert væri. Jeg ætla því að láta staðar numið, í þeirri fullu vissu, að tillagan nái fram að ganga, og að því er jeg vona, í einu hljóði.