13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3319 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

34. mál, mannanöfn

Sigurður Eggerz:

Það er auðvitað ágætt, að hv. 5. landsk. þm. (JJ) tók máli háttv. flm. (BJ), en hann þurfti þess bara ekki gagnvart mjer, því jeg hefi sýnt það við ótal tækifæri, að jeg hefi tekið málstað hans, þegar ranglátlega hefir verið ráðist á hann. Og þótt jeg ráðist á þetta frv. hans, þarf hann þess ekki með, að hv. 5. landsk. verji hann. Annars hefi jeg sýnt það hjer á þingum, að hvort sem mótstöðumenn mínir hafa verið fleiri eða færri, þá hefi jeg fyllilega þorað að sigla fullum seglum, og svo mun enn. Í dag hafa þeir hist, Heródes og Pílatus, íhaldið og framsóknin, og var svo sem auðvitað, að það hlyti að hafa verið í einhverju stórmáli.

Hv. 5. landsk. var að tala um, að þessi hreyfing ætti sjer einnig stað með frændum vorum Norðmönnum. Minti hann á, að þeir hefðu breytt nöfnum bæja sinna, Kristiania í Osló og þessháttar. Það er rjett, að svo hafa þeir gert. En jeg hefi ekki orðið þess var nje heyrt þess getið, að nokkur hreyfing væri uppi í Noregi um að leggja niður ættarnöfn. Jeg veit ekki annað en að synir Björnsons haldi enn ættarnafninu Björnson, og synir Ibsens munu víst síst hyggja á að hætta að kalla sig Ibsen. Jeg fæ ekki betur sjeð en að þessum stórmennum, þessum mikilmennum, sem gert hafa norskar bókmentir að heimsbókmentum, hafi tekist að gera landi sínu ómetanlegt gagn og sóma, þótt þeir bæru ættarnöfn. Eða hefir nokkuð heyrst um það, að Mikkelsen sje að hugsa um að leggja niður nafn sitt? Nei, þetta ræktarleysi, að heimta af mönnum, að þeir leggi niður nöfn þau, sem þeir hafa borið og þeim þykir vænt um, það þekkist hvergi nema hjer.

Þá sýnir það vel virðing Alþingis fyrir sinni eigin löggjöf og er harla einkennilegt, að lagt er til, að þeir, sem fengu sjer ættarnöfn fyrir 1912, skuli halda þeim, en að þau skuli taka af þeim, sem fengu þau eftir að lögin voru sett 1912. Einmitt mennirnir, sem í skjóli laganna hafa tekið upp nöfnin og greitt gjald fyrir þau, einmitt þeir eiga að missa þau. Nú ætlar Alþingi að koma til þeirra og segja: Við meintum ekkert með lögunum frá 1912. Þau rjettindi, sem yður voru gefin þá, skulu nú tekin af yður.

Það er áreiðanlegt — því þori jeg að halda óhikað fram, —- að það er ekki verið að vinna íslenskri tungu neitt gagn með þessu, eins og látið er í veðri vaka. Það er óhjákvæmilegt lögmál, sem hver tunga breytist eftir, og því verður ekki breytt með neinni löggjöf, og þær breytingar, sem tungan hlýtur að taka, verða aldrei stöðvaðar með lögum. Það er líka því minni ástæða til þessarar löggjafar, ef það er rjett, sem svo margir hv. þm. segjast trúa, að löngun manna í ættarnöfnin sje að hverfa. Og hvaða ástæða er til þess að setja slík lög, ef allir eru hættir við að taka sjer ættarnöfn? Það er auðvitað ágætt að reyna að hafa áhrif á smekk þjóðarinnar í þá átt, að menn láti ekki skíra börn sín ónefnum. En það eru ýms önnur nöfn en bein ættarnöfn, sem hjer má minnast á. Í Þýskalandi er það siður, að menn sjeu „von“ hitt og þetta; í Frakklandi heitir það „de“. Þessi útlendi siður hefir nú flust hingað til lands. Jafnvel hv. flm. frv. (BJ) kallast Bjarni Jónsson frá Vogi, og það er vitanlegt, að einn hv. þm. í þessari þd. heitir Jónas frá Hriflu. Eftir að búið er að samþykkja þessar brtt., verða því þrír ættarnafnaflokkarnir. Fyrst þeir, sem fengu ættarnöfn fyrir 1912, sem eru einskonar aðall, svo þeir, er tóku upp ættarnöfn eftir 1912 og verða nokkurskonar milliflokkur, og loks verða það allir „fonarnir“, frá Hriflu og Vogi, og þeir verða nú líklega allra fínastir. Ef menn eru því svo hræddir við ættarnöfnin, sem þeir láta, vil jeg skjóta því til þingsins, og einkum til hæstv. stjórnar, hvort hún vilji ekki taka til ítarlegrar yfirvegunar, hvort ekki stafi hin mesta hætta af „fonunum“; einkum þar sem hjer er um mjög mikilhæfa menn utan þings og innan að ræða, og má því búast við, að þeir hafi mikil áhrif á smekk manna, svo að fult verði hjer af „fonum“ eftir nokkur ár.

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje hægt að heimta það, að þeir, sem búnir eru að búa til sögu á bak við nafn sitt og ættar sinnar, sjeu neyddir til að leggja það niður, og bak við hverja ætt er ákveðin saga, stór eða lítil, eftir því sem það er nú dæmt. Jeg mótmæli því eindregið, að þetta sje gert í þjónustu ættfræðinnar. Að vísu skal jeg játa, að jeg er enginn ættfræðingur, en mjer finst það liggja í hlutarins eðli, að ef ákveðnar ættir hafa sitt sjerstaka nafn, þá er þar til fastur þráður til að rekja sig eftir. Þess vegna virðist mjer, að með ættarnöfnunum sje verið að greiða götu ættfræðinnar, en ekki, að með þeim sje lagður steinn í götu hennar

Að öðru leyti býst jeg nú við, að örlög Karþagóborgar sjeu fyrir sjeð, þar sem hinir stóru flokkar hafa komið sjer saman um að leiða til sigurs þetta þjóðþrifamál í einingu andans og bandi friðarins. Það þýðir því sjálfsagt ekki fyrir mig að andmæla þessu. En þrátt fyrir það hefi jeg viljað sýna hv. 1. þm. Rang. (EP), að jeg þori vel að sigla fullum seglum í þessu máli sem öðrum. Og jeg hefi áður haft tækifæri til að sýna það í þessari hv. deild, að svo hefir oft farið á hinu háa Alþingi, að þau mál, sem jeg stóð fastast með er þau voru í minni hluta, unnu oftast sigur að lokum. En jeg vil nú enda mál mitt með því að vekja eftirtekt hv. deildar á því, að jeg tel það mjög óheppilegt af hinu háa Alþingi að samþykkja lög, sem það fyrirfram veit, að verða algerlega fótum troðin. Því það vita bæði guð og menn, rjettlátir og ranglátir, að þessi lög verða algerlega fótum troðin og að engu metin. Og jeg held satt að segja, að okkar lögregla hafi nóg að gera, þó það Sisyfusarverk, sem hjer er á ferðinni, verði ekki lagt á axlir hennar. Það er sannarlega mjög merkilegt, ef Alþingi ætlar nú að fara að gefa lög til þess að auka stórkostlega ólöghlýðni í landinu; því það er áreiðanlegt, að meiri hluti borgaranna mun eiga örðugt með að sýna þessum lögum virðingu. Nei, það munu allir meta þau eins og tóman hjegóma, eins og þau líka eru. Jeg vil líka skjóta því til hæstv. forsrh. (JM), hvort hann telji sig hafa svo miklu lögregluliði á að skipa hjer á landi, að það geti framkvæmt þessi lög. (JJ: 7 þús. menn ættu að geta það). Nei, þó það væru 7000 manns, þá dygði það ekki til. En kannske hv. 5. landsk. hafi hugsað sjer að vera með þessu frv. til þess að geta rökstutt atkv. sitt með 7 þús. manna lögreglunni, ef það frv. kæmi til þessarar hv. deildar. En þá verð jeg að líta svo á, að Hafliði verði dýr allur; þá fer hún að verða dýr þessi löggjöf, ef það þarf 7 þús. manna lögreglulið til þess að gæta hennar. En jeg er viss um, að ef duga ætti, þyrfti miklu fleiri, — miklu fleiri. Því lít jeg svo á, að það borgi sig betur, eins og það yfirleitt borgar sig altaf best, að lofa málum, sem snerta eins fast og þetta persónulegt frelsi manna, að vera í friði fyrir löggjöfinni. Það er líka hætta á því, að ef þetta frv. verður samþykt, þá fái fornöfnin ekki lengi að vera í friði. Enginn maður á landinu má þá lengur vera tryggur um heiti sitt. Hann getur búist við því, að löggjafarvaldið komi til hans einhvern góðan veðurdag og segi: Nú máttu ekki lengur heita það, sem þú hefir heitið frá því 1912, eða í nokkur ár. Nú verður þú að láta skíra þig annað.

Sannleikurinn er sá, að það er mjög óviðfeldið og ónærgætið af hinu háa Alþingi að grípa svo langt niður í einkalíf manna sem hjer er gert. Það á að vera hin gullna regla, að gefa ekki lög um annað en það, sem nauðsyn krefur; þá fyrst eru lögin haldin í heiðri af borgurunum og þeim hlýtt. En að gefa lög um þau efni, sem engin nauðsyn ber til, að lög sjeu gefin um, það er mjög óviturlegt. Ef því þetta frv. verður samþykt, er hjer gengið inn á mjög óviturlega braut. Þeir, sem trúa því, að þetta verði til þess að koma betra skipulagi á íslenska tungu, vaða í villu og svima. Meðan smekkurinn er ekki í lagi, er tungunni hætt, en það er ekki til neins að lögbjóða eitt eða annað um smekkvísi manna. Smekkinn verður að skapa á alt annan hátt.

Jeg get af þessum ástæðum með mjög góðri samvisku fyrst og fremst greitt atkv. á móti brtt., sem skipa mönnum í þrjá flokka, þá, er fengu ættarnöfn fyrir 1912, þá, er fengu ættarnöfn eftir 1912, og svo alla „fonana“. Hvað þá snertir, vil jeg endilega, að hæstv. stjórn, ef hún stenst þá hríð, sem nú er að henni gerð í háttv. Nd., athugi rækilega, hvort þeir spilli ekki þjóðinni með nöfnum sínum. Og þar sem um slíkt stórmál er að ræða, væri sjálfsagt að lengja þingið um nokkra daga til þess að sú rannsókn geti farið fram. Vildi jeg gjarnan heyra álit hæstv. stjórnar á þessu máli, einkum hæstv. forsrh. (JM), sem jeg sje, að er ekki staddur hjer nú. Eða kannske það sje meiningin að leysa þingið upp og láta kjósa um þetta stórmál. Hver veit líka nema það sje pólitískt „trick“ að koma þessu í gegn. Ætli það verði ekki líkt og stjórnarskrárbreytingin, að þegar hv. Íhaldsflokkurinn og hv. Framsóknarflokkurinn hafa hjálpast að að drepa þetta mál, þá leggi hv. Íhaldið alla áherslu á að sýna, að hv. Framsókn hafi drepið það, og hv. Framsókn, að hv. Íhald hafi drepið það, og láti svo þjóðina kjósa um, hvorum hún trúir betur. Jeg veit, að það hefir mjög verið rætt um það, hver hafi drepið stjórnarskrárbreytinguna. Jeg get glaður sagt það, að jeg var einn þeirra, sem átti drýgstan þátt í því, enda var þá einfaldur leikur á borði, þar sem báðir hinir flokkarnir í hjarta sínu vildu koma henni fyrir kattarnef. Ef til vill á að leika einhvern líkan leik hjer.