13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

34. mál, mannanöfn

Ingibjörg H. Bjarnason:

Aðeins örfá orð til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu. Ummæli hv. 1. landsk. (SE) hafa algerlega lýst skoðun minni á þessu máli. Mjer hefir frá fyrstu fundist það helber hjegómi.

Jeg vil aðeins leyfa mjer að minnast á 5. gr. frv., sem jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Hún hljóðar svo:

„Nú hefir maður hlotið óþjóðlegt, klaufalegt eða erlent nafn áður en lög þessi voru sett, og getur hann þá breytt nafni með leyfi konungs.“

Þessi grein finst mjer þörf, enda mun það vera í lögum, að prestar skuli ráða foreldrum frá að skíra börn sín óþjóðleg­um eða klaufalegum nöfnum, og ætti það út af fyrir sig að vera nægileg trygging. Um hin atriðin er jeg einnig sammála því, er hv. 1. landsk. hefir tekið fram um þau. Þó mun jeg nú við atkvgr. greiða atkv. með báðum brtt., þegar af þeim orsökum, að jeg er sannfærð um, að ef þær brtt. verða samþyktar, þá verður frv. drepið í háttv. Nd.