14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3327 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

34. mál, mannanöfn

Sigurður Eggerz:

Það er auðvitað rjett hjá háttv. 1. þm. Rang. (EP), að þessar breytingar háttv. 2. þm. S.-M. (IP) eru svo að segja nákvæmlega sama efnis og brtt. hv. meiri hl. allshn., sem voru feldar hjer í gær. Munurinn er sáralítill, en þó eru þessar brtt. heldur verri, það sem það nær, því samkv. þeim eru menn látnir gjalda þess að hafa ekki fengið heimild samkv. lögunum frá 1913 til að bera ættarnöfn. Þetta er enn meiri harðdrægni í garð ættarnafnanna. Annars þarf jeg ekki að endurtaka það, sem jeg sagði um þessar brtt. í gær.

Jeg lít svo á, að með frv. þessu syndgi löggjöfin gegn þremur höfuðreglum, öllum veigamiklum. Í fyrsta lagi teygir hún sig um of inn á svið einkalífs manna með frv. Það ætti að vera, og hefir verið, einkamál hverrar fjölskyldu að taka ákvörðun um, hvaða nafn hún ber. Hið opinbera hefir svo margt á sinni könnu, að það ætti að hliðra sjer hjá að blanda sjer svo mjög inn í helgustu einkamál manna. Í rauninni hefir nafnið sömu þýðinguna fyrir ættina sem fáninn fyrir þjóðirnar. Hver þjóð ann sínum fána, og eftir því sem fleiri stórvirki eru unnin undir merki hans, því kærari verður hann þjóðinni. Svo er og með ættarnöfnin. Hver ætt ann sínu nafni, og eftir því sem ættliðirnir gera nafnið frægara, eftir því verður það ættinni kærara. Þess vegna er ekki rjett, að hið opinbera kippi burtu þeim endurminningum, sem einstaklingar þjóðfjelagsins tengja við nafn ættar sinnar. Það er of hart að gengið. Og víst er það, að ef löggjöfin gengur svo langt í þessum efnum sem frv. gerir ráð fyrir, þá stórspillir það allri virðingu manna fyrir lögum og rjetti yfirleitt.

Þetta er fyrsta höfuðreglan, sent frv. brýtur gegn. Með því broti er gerð tilraun til að fótumtroða einkalíf manna, sem löggjöfinni ætti þó að vera heilagt. Mig furðar á, að menn skuli ekki ganga lengra og beinlínis taka ættarnöfnin strax af öllum þeim, sem bera þau, já, jafnvel skipa svo fyrir, að farið sje upp í kirkjugarð og ættarnöfnin skafin af minnismerkjunum, svo að hinir látnu hljóti ekki óvirðing af að bera þau. Annars mætti meðal vor minnast nokkurra ættarnafna. Jeg get mint á Bjarna Thorarensen, Benedikt Gröndal, Sveinbjörn Egilsson og Hannes Hafstein. Vill þjóðin skafa út ættarnöfn þessara manna eða þær minningar, sem bundnar eru við nöfn þeirra?

Þá vil jeg minnast á aðra höfuðregluna, sem er brotin með frv. þessu. Og hún er engu minni en hin og síst minni synd að brjóta á móti henni. Hún er sú, að þegar löggjafarvaldið hefir gefið einhverjum manni ákveðinn rjett, þá á sá maður að mega fulltreysta því, að hann fái að halda þeim rjetti. En hjer er langt frá, að svo sje; með þessu frv. er brotið þvert á móti þeirri reglu. Og því miður er það ekki í fyrsta skifti hjer á hinu háa Alþingi, að þessi regla er brotin. Þess er skamt að minnast, að fyrir nokkru tók meiri hl. þessarar hv. þd. lögákveðinn rjett af embættismönnum þjóðarinnar, rjett, sem þeir höfðu nýlega fengið hjá þessu sama þingi. Því ber ekki að neita, að það er andi byltingarinnar, sem kemur fram á hinu háa Alþingi, þegar slíkar ráðstafanir eru gerðar. Og jeg get ekki varist því, að jeg er hálfhissa á, hversu þessi andi byltingarinnar á föst tök hjá hv. íhaldsflokki — Íhaldsflokki, takið eftir því. Það ætti þó að vera alkunnugt, hvað íhaldsflokkur merkir. Eins og menn vita, telja menn ýmsa ókosti á íhaldsflokkum allra landa, en sá er af öllum talinn aðalkostur þeirra, að þeir vaki yfir gömlum og góðum siðum þjóðfjelagsins og gæti þess, að ekki sje tekinn af mönnum sá rjettur, sem þeir hafa löglega hlotið. Þeir eru skoðaðir sem einskonar trygging, sem nokkurskonar kjölfesta, til þess að gætt sje þess, að hinu gamla og góða sje ekki fleygt burtu úr þjóðfjelaginu. En því ver og miður sje jeg ekki betur en að í hinum hv. stjórnarflokki, í hv. Íhaldsflokki hjer geri andi byltingarinnar sig gildandi hvað eftir annað. Hv. Íhaldsflokkur hefir lagt fylgi sitt til, að tekinn sje rjettur af embættismönnum þjóðarinnar, og frá honum hafa komið till. um að rýra æðstu stofnun þjóðarinnar, svo sem hæstarjett, stofnanir, sem eru einskonar hyrningarsteinar þjóðfjelagsins, og nú kemur þessi hv. flokkur enn og vill ekki láta einkalíf manna í friði, heldur taka af mönnum nöfn þeirra. (Forseti HSteins: Háttv. þm. Dala. (BJ) hefir borið fram þetta frv.). Það er rjett, að hv. þm. Dala hefir borið fram frv., en mátturinn til að koma frv. áleiðis liggur annarsstaðar. Hæstv. forsrh. (JM) greiddi atkv. með því í gær, og verð jeg að líta svo á, að hann sem form. hæstv. stjórnar beri aðalábyrgðina og sje nokkurskonar fáni þeirra hugsjóna, er vaka fyrir hv. Íhaldsflokki. Jeg hefi áður fundið ástæðu til, og finn enn, að benda á það hjer, að úr því flokkurinn hefir tekið sjer þetta nafn, ber honum að gæta þess, að hann kafni ekki undir nafni, og gleyma ekki hver eru aðaleinkenni hvers einasta íhaldsflokks, sem til er í heiminum. Nafnið eitt gefur beint tilefni til þessara ummæla. Hitt skal jeg játa, að allir flokkar, sem styðja þetta frv., eiga skilið sama lastið. En það er ekki af hlutdrægni, að jeg hefi sjerstaklega vikið máli mínu að hv. Íhaldsflokki, heldur af því, að hann með því að taka þetta nafn hefir lýst yfir því, að hann telji það skyldu sína að vaka yfir því, sem hjer er um að ræða. En ókostirnir við íhaldsflokkana eru svo margir, að þeir mega ekki við því að varpa kostunum fyrir borð.

Jeg hefi nú minst á tvær höfuðreglur, sem brotnar eru með þessu frv. Þá kem jeg að þeirri þriðju. Og þó hinar sjeu stórar, er hún síst minni en þær. En það er sú regla að setja ekki þau lög, sem allir, bæði guð og menn, vita, að ómögulegt er að framkvæma. Jeg efast um, að það sje nokkur lifandi maður á hinu háa Alþingi, sem trúir því, að hægt sje að framkvæma það, sem hjer er um að ræða. Sjerstaklega þegar litið er á það, hvað hjer er í rauninni verið að gera, sem sje það, að taka nöfn af mönnum, sem þeir hafa tekið sjer í skjóli laganna. Mönnum, sem dálítið eru kunnugir hjer í bæ, er þetta fullljóst. Þeir vita, að iðulega hringir frú Petersen upp og spyr frú Sigurðsson, hvort hún vilji ekki koma og spila bridge við hana og frú Andersen og frú Sveinsson. Það er aldrei nefnd svo húsfreyja í bænum, að ekki sje hún kend við sen eða son. Það, sem því er verið að gera með þessum lögum, er hjer um ræðir, er það, að undirstrika þetta sen og son með því að banna mönnum að taka upp sæmileg ættarnöfn. Í gær lýsti jeg því svo greinilega, hversu ómögulegt er að framkvæma þessi lög, að jeg get nú látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg þá sagði um þetta.

Í dag hefi jeg sýnt, að með þessu eru þverbrotnar þrjár höfuðreglur löggjafarvaldsins, sem allar eru svo stórar, að ein ætti að nægja til þess að koma í veg fyrir, að frv. yrði samþykt. Af þessum ástæðum legg jeg eindregið með því fyrst og fremst, að brtt. verði feld, og í öðru lagi, að sjálft frv. nái ekki fram að ganga.