14.05.1925
Efri deild: 77. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 3334 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

34. mál, mannanöfn

Guðmundur Ólafsson:

Mjer virðist ekki laust við, að það sje kominn hálfgerður leikur í hv. þdm. Þeir hafa talað svo mikið undanfarið og næstum eingöngu um það sem ekki hefir verið til umr.

Mjer þykir það harla einkennileg brtt., sem hv. 2. þm. S.-M. (IP) hefir nú komið með. Jeg var að bera þessa brtt. saman við aðra brtt., sem hjer var feld í gær, og er mjer ómögulegt að sjá annað en að efnið sje nákvæmlega það sama í báðum, en þessi er ofurlítið öðruvísi að orðfæri. Hjelt jeg því, að slíkt væri ekki leyfilegt samkv. þingsköpum, og skal því til stuðnings, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fáein orð úr 32. gr. Þar segir:

„Breytingartillögu um atriði, sem búið er að fella í deild, má eigi bera upp aftur í sömu deild á sama þingi.“

Jeg þarf ekki að lesa lengra. Engum mun dyljast, að hjer er í rauninni alveg um sömu brtt. að ræða og þá, er feld var í gær. Að vísu er það nýtt í þessari brtt., að konur þeirra manna, sem rjett hafa til þess að bera ættarnöfn, mega nefna sig ættarnafni manns síns. En þetta munu allir telja sjálfsagt, og er það engin efnisbreyting. Jeg verð því að furða mig á, að hæstv. forseti skuli ekki þegar hafa vísað þessari brtt. frá.

Jeg hefi ekkert klökknað við þær hjartnæmu umr., sem hjer hafa heyrst, síst við hinar hljómmiklu ræður hv. 1. landsk. (SE). Furða jeg mig á — sem fleiri — að hann skuli taka það svo illa upp, að við styðjum flokksbróður hans.

Allir vita, að síðan lögin voru sett 1913 hafa þau verið mjög misbrúkuð, því menn hafa tekið upp ættarnöfn, sem eru sannkölluð ónefni.

Jeg vil snúa því við, sem hv. 1. landsk. sagði. Hann sagði, að þeir hefðu verið meiri vitmenn, sem settu lögin 1913, en við. Jeg sný því við og tel okkur, sem nú viljum afnema lögin, meiri vitmenn en þá, sem settu þau.

Brtt. sýnist mjer síst til bóta, því hún fer fram á, að þeir, sem fengið hafa nöfnin ólöglega, haldi þeim, en hinir, sem hafa tekið þau upp samkv. lögum, missi þau. Jeg mun því greiða atkv. á móti henni, en með frv.