05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1926

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vildi hjer aðeins minnast á hækkun þá á tekjuáætluninni, sem fjvn. leggur til. Ræða háttv. frsm. (JóhJóh) bar það með sjer, að hann var hækkuninni í raun og veru ekki samþykkur, enda mælti hann linlega með henni. Jeg vildi því herða á ummælum hans og taka það fram, að jeg tel hækkunina mjög vel forsvaranlega. Hæstv. fjrh. (JÞ) viðurkendi þetta líka með því að færa engin rök fyrir máli sínu, enda þótt hann hreyfði andmælum. Nefndin kynti sjer vel, hvað þessir tekjuliðir, sem hún leggur til að sjeu hækkaðir, hafa gefið af sjer undanfarin 3 ár og vonar, að reynslan sanni, að hún hafi ekki gengið of langt að þessu sinni.

Þá vil jeg einnig minnast á ummæli hæstv. fjrh. um aðstoðarlækninn á Ísafirði. Las hann upp úr gömlum Þingtíðindum máli sínu til sönnunar, og efast jeg ekki um, að hann hafi lesið rjett, en ef til vill slept einhverju úr, sem ekki væri síður til skýringar. En ráðstafanir þingsins þá munu þó aðeins hafa átt að gilda uns hann ætti kost á öðru embœtti. Nú er það kunnugt, að lítil eða engin þörf er á aðstoðarlækni á Ísafirði, en lækna vantar altaf í sum hjeruð. Þessi læknir unir sjer enn á Ísafirði og dvelur þar líklega áfram, þótt þingið hafi stundum, a. m. k. í fyrra, viljað lækka laun hans nokkuð.

Jeg átti enga brtt. við 2. umr. fjárlagafrv., en á nú hjer eina ásamt háttv. 3. landsk. (HSn), á þskj. 456, sem jeg vildi mæla nokkur orð fyrir. Fer hún fram á að veita dr. Guðbrandi Jónssyni 1200 kr. til að vinna að menningarsögu Íslands í kaþólskri tíð. Dr. G. J. fór að vísu fram á hærri styrk og býst við að þurfa hans með í 3 ár, ef honum er veittur hann á annað borð til starfs þessa. Hefir dr. G. J. unnið að fræðum þessum um tíma, en treystir sjer ekki til að halda þeirri starfsemi áfram vegna fátæktar.

Jeg sjálfur þekki þennan mann lítið, en vottorð fylgja umsókn hans frá dr. Sigurði Nordal, Matthíasi Þórðarsyni fornmenjaverði og próf. Einari Arnórssyni. Telja þeir hann mjög vel til starfsins fallinn og styrksins verðugan. Á hið sama bendir og ritgerð hans um Hólakirkju hina fornu, er hann hlaut verðlaun fyrir úr sjóði Jóns Sigurðssonar. — Jeg mun láta þetta nægja, því að jeg þekki mann þennan, eins og áður er tekið fram, mjög lítið, og þrátt fyrir það, þótt mjer væru betur kunnir verðleikar hans, myndi jeg ekki nenna að flytja honum slíka lofgerð hjer sem vant er að gera við slík tækifæri, en tel víst, að þessi styrkbeiðandi eigi það ekki síður skilið. En oft hygg jeg, að Alþingi hafi veitt fje til þess, sem óþarfara hefir verið og óvissara um árangur. Og þótt kalla megi þetta bitling, þá er hann þó álitlegri en margir aðrir. Ætlast er til í umsókninni, að stjórnin skuli hafa fulla umsjón með starfsemi þessari. En á það hefir einmitt viljað skorta um svona fjárveitingar, að haft væri eftirlit með notkun þeirra, fyr en þá stundum eftir nokkur ár.