05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1926

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg á hjer enga brtt., en jeg sje, að ýmsir háttv. þm. flytja beiðnir um styrki til einstakra manna. Mjer hafa borist margar áskoranir um að flytja slíkar beiðnir, en jeg hefi neitað þeim öllum. Þarf jeg ekki að gefa aðra skýringu á því en þá, að jeg er sjálfsagt ekki nógu brjóstgóð. Ein af þessum breytingartillögum einstakra þingmanna fer fram á ferðastyrk á væntanlegan kennarafund í Helsingfors. Jeg verð að segja eins og er, að mjer hefir verið boðið á þennan fund og fleirum, sem jeg þekki, en ekki sjeð mjer fært að bindast fyrir styrkbeiðni, hvorki mjer nje öðrum til handa. Reynsla mín hefir verið sú, að þótt skemtilegt sje að ferðast og sækja slíka fundi, þá eru beinu notin af slíkum fundum fremur lítil, eða jafnvel alls engin; til þess er tíminn, sem þessum fundahöldum er ætlaður, of takmarkaður. Til þess að hafa not af slíkum ferðum, þarf að dvelja lengri tíma, en sú dvöl kostar ærið fje.

Fjvn. leit svo á, að ekki væri gerlegt að sinna neinum nýjum styrkbeiðnum nú, og þá ekki heldur þessum. Má að vísu segja, að hjer sje ekki um háar upphæðir að ræða, en þó eru þetta peningar líka, og auk þess myndu þannig fjárveitingar koma enn fleiri fjárbeiðnum af stað.

Þá vík jeg að XXIII. brtt. á þskj. 447, um að ábyrgjast 30 þús. kr. lán til ungfrú Halldóru Bjarnadóttur til að koma upp útsölu á íslenskum heimilisiðnaði. Nefndin hefir átt kost á að kynna sjer þessa beiðni, og þótt jeg viti, að hv. frsm. (JóhJóh) muni víkja að henni, þá ætla jeg þó að gera grein fyrir afstöðu minni til brtt. með nokkrum orðum.

Samband heimilisiðnaðarfjelaganna hefir áður verið hvatt til þess að koma á verslun og útsölu fyrir íslenskan heimilisiðnað af sömu konu, en þá var álitinn ógerningur að koma slíku í framkvæmd. Jeg er enn á sömu skoðun.

Flestir munu kannast við Thorvaldsensbazarinn hjer í Reykjavík. Sú stofnun hefir starfað í 25 ár, og get jeg ekki annað sjeð en að bazarinn inni hlutverk sitt vel af hendi sem útsala á íslenskum heimilisiðnaði. Fyrir nokkru var og stofnuð verslun í sömu grein, er nefnist „Nýi bazarinn“. Auk þess munu vera nokkrir fleiri útsölustaðir í öðrum kaupstöðum, til dæmis á Akureyri. Jeg hygg, að þessir útsölustaðir muni nægja framleiðslu landsmanna fyrst um sinn, og tel því óhyggilegt að verða við beiðni þessari.