05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

1. mál, fjárlög 1926

Forsætisráðherra (JM):

Jeg hefi borið fram brtt. um fjárframlag til viðbótarbyggingar við geðveikrahælið á Kleppi, sem jeg tel víst, að verði samþykt í einu hljóði. Þessi bygging hefir dregist lengi og hafa erfiðar kringumstæður valdið því. Nú er ófært ýmsra hluta vegna að draga þetta lengur, og býst jeg við, að báðar deildir fallist á það.

Jeg held, að aðrar brtt. þurfi jeg ekki sjerstaklega að minnast á. Jeg skal geta þess um ferðastyrk til þess að sækja kennarafundi, að í stað þess að veita svona einstaka ferðastyrki teldi jeg heppilegra, að dálítil fjárupphæð væri látin standa í fjárlögum í þessu skyni, sem stjórnin hefði heimild til þess að veita. Á hverju ári koma erindi um styrk í því skyni, erindi, sem stundum er ilt að þurfa að synja. Á hinn bóginn sjaldan vitað fyrirfram um þörfina. En það er óviðkunnanlegt að veita í næstu fjárlögum það, sem notað er á árinu á undan. Annars er mjer altaf illa við ýmsar fjárveitingar til einstakra manna, enda ekki laust við, að meðferð slíkra smáfjárveitinga til nafngreindra manna í fjárlögum sje stundum lítt til sóma, hvort er fyrir þingið eða mennina sjálfa.