05.05.1925
Efri deild: 68. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1926

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það eru aðeins tvær brtt., sem jeg aðallega ætla mjer að ræða um að þessu sinni. Önnur þeirra er frá hv. 5. landsk. (JJ) um fjárveitinguna til fiskifulltrúans á Spáni og Ítalíu, sem hv. þm. vill lækka um 4000 kr. og álítur, að ekki muni þurfa að ætla nema um 18. þús. kr. alls til að kosta þennan mann, en jeg tel engar líkur til, að hægt verði að komast af með minna en þá upphæð, sem áætluð var. Síðasta þing veitti til þessa 10 þús. kr., gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá, og gerði stjórnin nú ekki annað en að taka upp í frv. ákvæði, sem samþykt var á síðasta þingi. Vitanlega er þetta áætlunarupphæð, og er ekki að vita, nema áætlun stjórnarinnar reynist of lág, en jeg tel sjálfsagt, að það verði látið standa, sem stjórnin hefir gert í þessu, en brtt. hv. 5. landsk. verði ekki samþykt.

Hin brtt. er frá hv. 1. landsk. (SE) og hv. 2. þm. S.-M. (IP), um að stjórninni sje falið að leita samninga um skeytasamband við umheiminn o. s. frv. Jeg lít svo á, að stjórnin þurfi enga heimild frá þinginu til að gera þetta, því jeg tel það hreint og beint skyldu stjórnarinnar að leita þessara samninga áður en einkaleyfi „Stóra norræna“ er á enda, og jeg tel stjórnina meira að segja hafa heimild til að gera samninga um þetta. Jeg skal leyfa mjer að benda á, að ef stjórnin hefir ekki heimild til að leita samninga, þá hefir hún þegar framið lögbrot í því efni, því að sumum atriðum þessara samninga er þegar alllangt komið. Um síðustu áramót voru útrunnir samningarnir milli Danmerkur og Mikla norræna ritsímafjelagsins um sæsíma fjelagsins milli Englands og Danmerkur, og með því að taka á rjettum tíma þátt í þeim samningum, er af því leiddu, hefir miklu verið bjargað fyrir þetta land. Jeg fer ekki út í þetta að sinni, því að það er augljóst, að dráttur á upptöku slíkra samninga getur ekki leitt til neins góðs. Jeg vil og benda á það, að ef ekki takast samningar við „Stóra norræna“, hlýtur að þurfa þó nokkurn tíma til þess að koma loftskeytasarabandi í kring, og tíminn frá næsta þingi til ágústmánaðar mundi tæpt duga til þess. Jeg verð því að leggja á móti þessari brtt., bæði af þessu og af því, að allir hljóta þegar að skilja, að stjórnin þarf alls enga heimild til að gera það, sem henni ber skylda til að framkvæma.

Það er auðvitað satt, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að samningarnir eru okkur mjög þýðingarmiklir, en þó veltur það mjög á því, til hve langs tíma samið er. Ef samið er aðeins til 2–4 ára, og þá megi segja samningunum upp, þá er málið ekki svo stórvægilegt; en hvernig þetta verður, get jeg að öðru leyti ekkert sagt um ennþá.