11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Forsætisráðherra (JM):

Það má vel rjett vera, sem hv. 1. landsk. (SE) heldur fram, að frv. þetta sýni dálitla breytingagirni, því að lögin, sem farið er fram á að breyta, eru ekki gömul. En þó að svo sje, þá stendur ekki mikið öðruvísi á nú en á þingi 1923, þegar núgildandi lög voru sett. Þá var alveg nýlega búið að ráðstafa skemtanaskattinum handa Reykjavíkurbæ, en síðan kipti þingið að sjer hendinni og svifti bæinn rjetti til að ráðstafa skattinum eftir eigin geðþótta. Þó að frv. þetta nái nú fram að ganga, þá er aðeins höfð svipuð aðferð og höfð var árið 1923. Að vísu get jeg vel skilið, að til sjeu menn, sem eru á móti því að skifta skattinum þannig; það er svo um þetta mál sem flest önnur, að um það geta verið Skiftar skoðanir, og við því er ekkert að segja.

Þegar hv. 5. landsk. (JJ) er að gefa það í skyn, að jeg hafi tekið frv. þetta upp af götu minni, og að mjer sje jafnvel ekki meira en svo umhugað, að það nái fram að ganga, þá er því til að svara, að jeg hefði vitanlega ekki borið það fram, ef að jeg áliti það ekki í alla staði rjettmætt, hver sem afdrif þess kunna að verða. Einnig talar hv. þm. (JJ) um rán í sambandi við frv. þetta, án þess að bera það saman við sögu málsins á undanförnum þingum. En það má aðeins segja, að nái frv. samþykki, þá sannist hið fornkveðna, að illur fengur illa forgengur, því að skatti þessum var þá „rænt“ 1923, frá Reykjavíkurbæ, handa leikhússjóðnum.

Hv. 5. landsk. (JJ) og jeg munum vera samdóma um það, að skynsamlegra muni yera að hafa væntanlegan landspítala minni en gert var ráð fyrir 1923, enda minnist jeg þess ekki, að teikning sú, sem þá lá fyrir, hafi beinlínis verið samþykt af þinginu. Annars mun bráðlega verða skýrt frá því, hvernig stjórnin hefir hugsað sjer, að ráðast mætti í byggingu landsspítalans, án þess að ofvaxið verði ríkissjóði að standast kostnaðinn. Þó get jeg nú þegar getið þess, að það mun ekki verða kleift á þessu ári, með því líka að fyrst verður að reyna að koma byggingu Kleppsspítalans, sem nú er vel á veg komin, undir þak að minsta kosti. Hinsvegar verður því varla neitað, að landsspítalann munar meira en lítið um þær 25 þús. kr. árlega, sem frv. fer fram á að leggja til hans. Segjum svo, að gert sje ráð fyrir, að lagt verði til spítalans 150–200 þús. kr. árlega, — og alt að því helmingur þess fjár komi frá kvenþjóðinni; þá er ekki hægt að neita því, að það munar um minna en 25 þúsund kr., upp í 75–100 þús. kr., sem ríkissjóðstillagið yrði þá árlega.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta að sinni. Hv. þm. hafa ekki haft á móti því, að það verði athugað í nefnd, og máske verður því einmitt vísað til nefndar, sem þeir eiga báðir sæti í, hv. 1. landsk. (SE) og hv. 5. landsk. (JJ). Verður þá altaf tækifæri til þess að athuga frv. nánar og gefa frekari skýrslur í sambandi við það. — Að því er snertir dæmið, sem hv. 5. landsk. (JJ) tók, um veg í Miðfirði og símalínu á Austurlandi, þá er því til að svara, að það væri í alla staði rjettmætt og sjálfsagt, að veita fremur fje til símalínunnar, ef meira riði á henni en vegarspottanum.