02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2200)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Þetta ár, sem var að líða, hefir verið óvenjulega gott. Eftir því sem næst verður komist, er talið, að útflutningur ársins nemi um 80 miljónum króna. Um innflutninginn eru ekki komnar jafnglöggar skýrslur, en þó er talið, að hann muni nema í kringum 55 miljónum króna. Er því hagnaðurinn af þjóðarbúskapnum þetta liðna ár um 25 miljónir, og má það heita einsdæmi, ekki einungis hvað okkur snertir, heldur einnig þó að viða sje leitað.

En þó jeg minnist á þetta góðæri, ætla jeg þó ekki að fara að rökræða um fjárhag landsins að þessu sinni, en bendi aðeins á þetta í sambandi við það, sem segir í áliti nefndarinnar, að ári vel áfram, og þó að næstu ár verði ekki slík veltiár sem þetta eina ágæta ár, sem forsjónin sendi þessari þjóð, þá muni óhætt að gera ráð fyrir, að úr þessu máli rakni það vel, að ríkið sjái sjer fært að hefja byggingu landsspítalans þegar á næstu árum.

Hinsvegar lítur nefndin svo á, að hjer sje um svo mikið alvöru- og nauðsynjamál að ræða, er enga bið þoli. Landsspítalann verður að byggja, og það sem allra fyrst. En með frv. gæti skapast kyrstaða í málinu, því peningar til byggingarinnar eru seinteknir á þann hátt, sem þar er gert ráð fyrir.

Aftur á móti er auðsætt, að því leyti, er snertir þjóðleikhúsið, að með því að draga fje frá þeirri byggingu, tefur það málið um ófyrirsjáanlegan tíma. Nefndin lítur svo á, að bygging þjóðleikhúss hjer í borginni sje nauðsynjamál, sem rjettara sje að hraða en tefja. Þjóðleikhúsið á að verða einn liður í menningarbaráttu þjóðarinnar og andlegri starfsemi hennar. Það á bæði að sýna góða list og skapa nýja list, með því að knýja fram höfunda — alíslenska höfunda — sem semja listræn verk úr lífi þjóðarinnar. Og það ætti óneitanlega að vera metnaður Íslendingum, að slíkir menn kæmu fram á leiksvið bókmenta og lista; þá mundu vakna menn, nýir andans menn, sem kunna að fara með háðið, benda á gallana og kveða niður margt það, er stendur þjóðinni fyrir þrifum. Slíkir gaman- og alvöruleikir úr lifi þjóðarinnar eru hollir og lækna margar meinsemdir hennar, vegna þess, að þeir, sem þá semja, hafa því vopni að beita, sem bitrast er allra vopna, í höndum þeirra andans manna, er með kunna að fara, en það er háðið.

Þessvegna er þjóðleikhúsið mikilsverður liður í andlegu lífi þjóðarinnar, og má ekki dragast mörg árin enn, að það rísi af grunni.

Jeg legg áherslu á þetta, af því, að sumir líta svo á, að hjer sje aðeins um venjulegt gaman að ræða. En það er meira og dýpra. Gleðin er hverjum einstakling mikils virði, og hláturinn er heilnæmur og hressandi. Þessvegna er hjer um alvarlegt mál að ræða.

Þessi lög um skemtanaskattinn eru líka nýsett, til þess að gera, og mjer finst óviðkunnanlegt að breyta þeim, svo að segja strax, og það á meðan ástæðurnar eru hinar sömu og þær voru, þegar lögin voru samin. Að sýna slíkan hringlanda í löggjöfinni, hlýtur að veikja traustið á þessari háu samkomu þjóðarinnar út á við. Okkur ætti þó að standa nær að auka álit Alþingis, heldur en að rýra það.

Jeg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta mál að þessu sinni, en legg aðeins til, að hv. deild felli frv. þetta.