02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2203)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Hæstv. forsrh. byrjaði varnarræðu sína á því, að jeg hefði fátt eða ekkert nýtt sagt í þessu máli. Það er nú vanalegast, að nefndarálit sjeu sá grundvöllur er framsöguræðan byggist á, og hefi jeg þegar getið þess, að svo væri og hjer. (Forsrh.: Jeg sagði það.) Jeg mun ekki hefja neina þrætu um það atriði, en snúa mjer heldur að aðalefninu í ræðu hæstv. forsrh. Hann sagði meðal annars, að þetta liðna ár hefði verið óvenjulega gott, en ekki mætti treysta því, að svo yrði framvegis. Það er hverju orði sannara, að síðastliðið ár hefir verið frábærlega vel hagstætt. Að vísu má vel vera, að ríkissjóður hafi ekki borgað mjög mikið af skuldum sínum, en hitt er vist, að hagur landsmanna hefir stórum batnað, og að mörg fyrirtæki, er áður stóðu höllum fæti, eru nú sterk orðin. Og á hverju skyldi hagur ríkissjóðs byggjast, nema á hag þjóðarinnar!

Á undanförnum þingum hefir mönnum orðið mjög tíðrætt um hið bága ástand ríkissjóðs. Þrátt fyrir það er sannleikurinn sá, að hjer eru ríkisskuldirnar miklu minni tiltölulega en nokkursstaðar annarsstaðar á Norðurlöndum. Á þessu síðasta ári hefir þjóðin grætt meira en nemur öllum skuldum ríkissjóðs.

Hæstv. forsrh. varði sparnaðarnefnd með miklum ákafa, enda þótt hvergi sje tituprjónsstunga til hennar í nál. eða ræðu minni. Hann sagði, að það væri rangt, að sú nefnd hefði viljað bíða með byggingu landsspítala, uns nægilegt fje hefði safnast á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Um það hefir heldur ekki eitt orð verið sagt, heldur aðeins hitt, að sú gæti afleiðingin orðið, ef frv. yrði samþykt.

Þá bar hann saman þörfina á landsspítala og þjóðleikhúsi. Með alveg sama rjetti gæti hann borið landsspítalann saman við alla aðra liði fjárlaganna. Mjer heyrðist svo á hæstv. forsrh., að landsspítalinn ætti að ganga fyrir öllu öðru. Ef svo er — og jeg efast ekki um nauðsyn þess máls — þá verður þjóðin alt of lengi að bíða eftir honum, eigi að reisa hann fyrir þennan hálfa skemtanaskatt.

Þá sagði hæstv. forsrh. og, að sum af frv. mínum hefðu verið sannarlegir vonargemlingar. Hann virtist styggjast mjög við það, að jeg greip fram í fyrir honum, alveg eins og hjer væri mál á ferðinni, sem stjórnin ætti að velta á. Það er rjett, að mörg af sparnaðarfrv. mínum náðu ekki samþykki Alþingis, en í þeim var þó farið fram á sparnað, sem um munaði. Nægir í því efni að minna á frv. um samsteypu sýslumannaembættanna. Sjest nú best, hve sá sparnaður, sem þar er farið fram á, er mikill, þegar tekið er tillit til hins aukna skrifstofukostnaðar sýslumanna, sem núverandi stjórn hefir orðið að taka til greina — og sjálfsagt var að taka til greina.

Þegar jeg nú lít á þann sparnað, sem er á uppsiglingu í þeim tveim frv., er komið hafa frá hv. sparnaðarnefnd, þá get jeg ekki annað, en spurt hæstv. forsrh., hvort á því muni vinnast, að nefndin starfi áfram. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að engin önnur leið til verulegs sparnaðar er fær, nema sú, sem jeg stakk upp á, einmitt í þeim frv., sem hæstv. forsrh. kallaði vonargemlinga.

Þá kom hæstv. forsrh. með þá samlíkingu, að nefndinni færist í þessu máli líkt og manni, sem bygði sjer sumarbústað, en ljeti börnin sin svelta. í samlíkingunni sýnist mjer koma fram lítill skilningur á þýðingu góðs þjóðleikhúss. Jeg er sannfærður um, að þó að þjóðleikhús gerði ekki annað en framleiða nokkur skopleikaskáld, sem ljetu háðið skella á ýmsum þeim sljóleika, sem dafnar mjög vel í skjóli hinna ráðandi, stærri flokka í landinu, þá væri það eitt nægilegt til þess að rökstyðja nauðsyn þjóðleikhúss.

Jeg verð að telja það t. d. hreinan og beinan sljóleika, þegar hæstarjetti vorum er breytt úr fimm manna dómi í lítilfjörlega þriggja manna nefnd, sem kýs sjer oddamann eins og hreppsnefnd. Jeg kalla það sljóleika, að utanríkismálum vorum sje komið þannig fyrir, að með þau fari maður, hversu góður sem hann er, sem er undirmaður utanríkisráðherra Dana. Jeg get heldur vart kallað það annað en sljóleika, að forsætisráðherra skuli ekki fara sjálfur utan, til að leggja lagafrv. fyrir konung, þar sem þetta er þó að minsta kosti orðin föst venja, og sýnast mætti, að forsætiráðherrann hefði næg erindi erlendis, þar sem búið er að leggja niður sendiherraembættið í Kaupmannahöfn.

Jeg var neyddur til að víkja að þessu atriðið í sambandi við þjóðleikhúsið, því ef það gæti orðið til þess að eyða einhverju af þeim sljóleika, sem jeg drap á, teldi jeg það vel farið.

Af sömu ástæðu hefi jeg jafnan verið styrktarmaður háskólans, barnaskólamentunarinnar, unglingafræðslunnar.

Og því fleiri segl, sem dregin eru upp á hinni dökku skútu afturhaldsins, þess meiri þörf á því, að efla allskonar menningu hjá þjóðinni, svo að hún læri að þekkja hvítt frá svörtu.