02.03.1925
Efri deild: 20. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2210)

19. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Það er rjett, að embættisheiti Krabbe er „Kommitteiet“, eða á íslensku hefir hann verið kallaður stjórnarfulltrúi. Hvort hann er settur eða skipaður, skiftir engu máli í því sambandi, sem jeg talaði um. Hæstv. forsrh. þarf ekki að lýsa Jóni Krabbe fyrir mjer, enginn hefir viðurkent hann meira en jeg. Það er aðeins alt fyrirkomulagið, sem jeg rjeðst á, og sem jeg hlýt að ráðast á.

Jeg vil aðeins bæta því við það, sem jeg sagði um utanríkismálin, að vjer verjum að eins 30 þúsundum til þeirra, en hvað er það, samanborið við hinar Norðurlandaþjóðirnar, þó tekið sje tillit til stærðarhlutfallanna. Þetta aðeins til að sýna, hvað hlægilegt það er, að halda því fram, að kostnaður við utanríkismálin sje að setja oss á höfuðið.

Hæstv. forsrh. talaði um, að frv. hefði áður verið send símleiðis. Jeg hefi aldrei andmælt því, en aðeins tekið fram, að hitt ætti að vera aðalreglan. Jeg er heldur ekki trúaður á, að ekki hafi verið neitt fleira til erinda fyrir hæstv. forsrh. — Hverjum þeim, er alvarlega hugsar um utanríkismálin, getur ekki dulist það, að of mikið er gert til að breiða yfir sjálfstæði vort. Það er draumurinn um landshöfðingjadæmið, sem er að endurfæðast í hugum þeirra manna, sem hafa gleymt, hvað vjer höfum til sjálfstæðisins unnið.