11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2216)

22. mál, sóknargjöld

Sigurður Jónsson:

Eins og greinargerð frv. ber með sjer, þá voru sóknargjöldin hækkuð á þingi 1921. Þá kom einnig fram tillaga um það, að hækka prestgjöld, líkt og nú er ráð fyrir gert. En nefnd sú, sem fjallaði þá um málið, vildi ekki fallast á þetta og lagði til, að kirkjugjaldið eitt yrði hækkað. Nú kemur þetta mál aftur fyrir þingið, og jeg get ekki annað sagt en það, að mjer finst það vel við eiga að hækka þetta gjald eins og kirkjugjaldið. En í þessu sambandi get jeg ekki látið vera að geta þess, þar sem þetta er eitt af sparnaðarfrv. hæstv. stjórnar, að mjer hefir virst við fljótan lestur, að sparnaður sá, er þau stefna að, sje að miklu leyti fólginn í því, að færa gjöldin til, ljetta á ríkissjóði og íþyngja að sama skapi einstaklingum og fjelögum, svo að sparnaðurinn verður aðeins tilfærsla og í rauninni enginn. Vænti jeg þess, að nefndin athugi þetta, og aðrar sparnaðartillögur af líku tæi, sem fram kunna að koma.