11.02.1925
Efri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (2217)

22. mál, sóknargjöld

Einar Árnason:

Jeg ætla ekki að vekja neinar deilur um þetta frv. að sinni. Eins og greinargerðin ber með sjer, er það samið af nefnd, sem skipuð var samkvæmt ályktun síðasta þings til þess að athuga og gera tillögur um sparnað á ríkisfje. Og það er að vísu sjáanlegt, að með því má spara ríkinu nokkurt fje. En eins og hv. 2. landsk. (SJ) tók fram, þá er slíkt í raun rjettri enginn sparnaður. Þetta frv. sparar ekki neitt fyrir þjóðfjelagið í heild. Hjer er aðeins að ræða um tilfærslu á kostnaði ríkissjóðs yfir á einstaklinga þjóðfjelagsins. Jeg hafði litið svo á, að það væri ekki eingöngu hlutverk sparnaðarnefndarinnar að spara fyrir ríkissjóð, heldur þjóðfjelagið í heild. En hjer er allur sparnaðurinn falinn í því að hækka um helming persónulegt gjald. Jeg get fallist á það, að rjettmætt sje að leggja lágt persónugjald á menn í einstöku tilfelli. En verði slík gjöld mörg og há, þá verða þau ósanngjörn. Jeg get ekki stilt mig um að benda á það, að í tveim frv., sem hæstv. stjórn hefir nú lagt fyrir þingið, er gert ráð fyrir mjög háu persónugjaldi. Hjer á jeg við frv. um sjúkratryggingar. auk þessa. Jeg hugsa, að ef ganga á lengra inn á þá braut, þá muni efnalítilli alþýðu þykja nóg um. Þetta vildi jeg taka fram strax, til athugunar nefnd þeirri, sem fær frv. þetta til meðferðar, svo að henni sje það ljóst, að til eru þeir menn, sem ekki munu fylgja langt þessu frv. eða öðrum, sem leggja á alþýðu há nefgjöld. Mun jeg ekki sjá mjer fært að fylgja þessu frv. eins og það er lagt hjer fyrir.