13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2226)

22. mál, sóknargjöld

Guðmundur Ólafsson:

Frv. þetta stendur í sambandi við það, sem gerðist á síðasta þingi, og er sprottið upp af sparnaðartillögu þeirri, er við hv. 5. landsk. (JJ) bárum þá fram. Þeirri tillögu var tekið fálega þá. Hún kom snemma fram, en svo hafði fjárveitinganefnd hana í sínum vörslum mestan hluta þingtímans.

Svo skipar forsrh. sparnaðarnefnd þá, sem talað hefir verið um, og finst mjer, að framhaldið hafi orðið líkt byrjuninni, eða algert tómlæti í málinu. Því að mjer er sagt, að nefndin hafi ekki verið skipuð fyr en í nóvember 1924. Sje það rjett, hefir hæstv. forsrh. ætlað henni takmarkaðan tíma. Býst jeg þó við því, að nefndin sje skynsamlega valin, en tíminn var alt of stuttur, ef vænta átti verulegs árangurs af starfi hennar fyrir þetta þing, en til þess hefir að líkindum ekki verið ætlast, þar sem sumir í nefndinni voru prófessorar við háskólann og reyndar allir opinberir starfsmenn, og hafa því haft nóg annað að gera.

Jeg tel lítils virði þann sparnað á ríkissjóði, sem dreift er á alla þjóðina með nefskatti. Minnihl. nefndarinnar vildi ekki hæla skattinum upphátt, en taldi þetta gott gjald að sumu leyti. Jeg er hissa á því, að þessir nefskattsunnendur skuli ekki koma fram með það, að öðrum embættismönnum skuli greidd laun með nefskatti líka. Hjelt jeg, að úr því minnihl. vildi ekki hækka þetta gjald eins og frv. fer fram á, þá ætlaði hann að koma fram með tillögu um það, að verja afganginum til þess að sýslumönnum og læknum yrði líka borgað með nefskatti.

Jeg segi fyrir mitt leyti, að jeg tel engan sparnað að frv. þessu. Hæstv. forsrh. talaði lítið um frv. og kallaði það smámál. Þar er jeg honum sammála. Það er ekki sambærilegt, að nefna ellistyrktarsjóðsgjald og hreppavegagjald í sambandi við þetta, því að þau gjöld eru beint til þarfa hjeraða, en ekki til launa handa einstökum mönnum. Jeg hefi og heyrt, að óvinsældir presta hafi verið meiri meðan þeir þurftu að innheimta gjöld sín sjálfir. (Forsrh.: Gera þeir það enn?) Jeg er svipað fróður og hæstv. forsrh. um það, að prestar innheimta nú ekki tekjur sínar sjálfir, en hyggur hann þá, að allir viti ekki jafnt fyrir það, að prestsgjaldinu er varið til launa prestinum.

Það er engin sönnun þess, þótt gjaldið sje ekki hátt, að það sje ekki ranglátt. Fátæka fjölskyldumenn munar um fáeinar krónur. Það er heldur ekki sambærilegt, þótt menn í fríkirkjusöfnuðum greiði hærra gjald. Þeir ganga ekki að því gruflandi í byrjun, heldur semja um það við prestinn. Þetta er ekki annað en smávægilegur sparnaður fyrir ríkissjóð, til þess að íþyngja ýmsum einstaklingum þjóðarinnar öllu tilfinnanlegar. Og jeg get ekki metið það mikils, þótt það komi frá sparnaðarnefnd. Það hefir ekki komið fram neitt orð í þessu máli, hvorki frá hæstv. forsrh. nje minnihl. nefndarinnar, er geti fengið mig til þess að greiða atkvæði með frv.