13.03.1925
Efri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

22. mál, sóknargjöld

Frsm. meirihl. (Sigurður Eggerz):

Það er rjett, sem hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) sagði um gjöld fríkirkjumanna. Þau koma ekki þessu máli við. Það eru frjáls framlög. Og um söfnuð Haralds Níelssonar er það að segja, að jeg býst við, að í honum sjeu mestmegnis efnamenn.

Aðalatriðið í máli þessu er það, að skattar sem þessi eru ranglátir. En vegna þess, að skattur þessi er arfur frá gamalli tíð, þá sjá menn ekki ranglætið eins glögt. En hvernig má það vera, að maður með 2000 kr. launum eigi að greiða sama skatt og maður með 100 þúsund króna tekjum. Hvor þessara tveggja ætli eigi hægra með að greiða skattinn ?

Jeg hefi heyrt því haldið fram, að það væri eðlilegt, að allir gyldu jöfn gjöld, þegar um afstöðu manna væri að ræða til kirkjunnar. En jeg fæ ekki sjeð, að þessi hugsunarháttur sje rjettur. Það er vart líklegt, að forsjóninni sje það sjerstaklega velþóknanlegt, að sá fátæki leggi meira á sig til að greiða þetta gjald en sá ríki.

Jeg hygg, að hv. minnihl. sje ekki eins langt frá meirihl. í þessu máli eins og í fljótu bragði virðist, það er að segja, þegar nýrun og hjörtun eru rannsökuð, en dálítinn grun hefi jeg um, að honum hafi þótt fara vel á því, að hlífa stjórnarfrv.

Háttv. minnihl. segir, að vegna þess, hversu gjald þetta sje lítið, sje það eigi ranglátara en t. d. kaffi- og sykurtollur. Þó er sá munurinn á þessu persónugjaldi og tollunum, að þeir fátæku geta, með því að spara, minkað tollana á vörum þeim, er þeir kaupa, en þessi persónugjöld geta þeir á engan hátt losað sig við. En auðvitað er það, að allir tollar koma hlutfallslega harðara niður á þeim fátæku en þeim ríku, því að þeir verulega efnuðu verða þeirra svo að segja ekki varir. Auðvitað hefði það verið rjettast, að koma nú fram með tillögur um að upphefja alla persónuskatta og breyta þeim í niðurjöfnunargjöld, en meirihl. fjhn. ljet sjer nægja að þessu sinni að slá því föstu, að hingað skuli haldið og eigi lengra, á þessari röngu braut. Sumum kann að sýnast þetta smámál, en fyrir þá fátæku er þetta stórmál.