13.02.1925
Neðri deild: 6. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

15. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (JM):

Í þetta frv. getur maður sagt, að tekin sjeu upp tvö atriði, sem þó eru næsta óskyld í eðli sínu.

Ákvæðið um kennaraembættin sjálf er komið frá mentamálanefndinni 1920, og mun eflaust verða talið til bóta af kennarastjettinni.

Hitt atriðið, um borgun dýrtíðar- og launaviðbóta, snertir í raun og veru lítið hag kennaranna, því þeim má standa á sama, hvaðan peningarnir koma.

Það má ef til vill segja, að þessi skifting á greiðslunni komi ekki beinlínis mínu embætti við, en það þótti heppilegra, að breytingar þær, er rjett sýndist að gera á lögunum, kæmu fram í einu lagi. Annars eru þessi ákvæði (4. og 5. gr. frv.) komin frá sparnaðarnefndinni, og get jeg því látið mjer nægja að vísa til greinargerðar nefndarinnar, sem fylgir frv. þessu. Greinargerðin er vel ljós og ítarleg, og færir nefndin góð rök fyrir rjettmæti þessara breytinga. Hún er að vísu ekki ný, þessi till. hjer í þinginu. Hún var að meginhlutanum samþykt af þessari hv. deild í fyrra.

Jeg vil annars láta mjer nægja að minnast sjerstaklega á 6. gr. Það hefir verið litið svo á, að segja mætti kennara upp með 3 mánaða fyrirvara, og hefir það komið fyrir. En mjer finst það ekki fyllilega rjett, að svo sje, að svifta megi kennara stöðu sinni með svo stuttum fyrirvara. Uppsagnarfresturinn verður að vera sæmilega langur, og held jeg því; að sanngjarnlega sje með kennarana farið samkvæmt þessu ákvæði frv.

Um kenslustundafjöldann, er 3. gr. nefnir, virðist mjer ekki mikið þurfa að segja. Hjer er ekki farið fram á annað en hæfilegt er, og það, sem krafist er annarsstaðar á Norðurlöndum.

Jeg þykist ekki þurfa að orðlengja frekar um þetta frv., en legg til, að því verði vísað til mentamálanefndar, að þessari umr. lokinni.